Úr öskunni í eldinn

Það virðist ekkert lát ætla að verða á þeim hörmungum sem dunið hafa á Darfur-héraði í Súdan. Í Deiglupistli í fyrravor rakti Andri Óttarsson ítarlega þá skelfingarsögu sem hófst með valdaráni í Súdan 1989 og virðist engan endi ætla að taka. Hvernig hefur málum þokað síðan þá?

Það virðist ekkert lát ætla að verða á hörmungunum Darfur-héraði í Súdan. Í Deiglupistli í fyrravor rakti Andri Óttarsson ítarlega þá skelfingarsögu sem hófst með valdaráni í Súdan 1989 og virðist engan endi ætla að taka.

Í stuttu máli má segja að frá því að pistli Andra sleppir í maí, eða frá því að friðarsamkomulagið í Súdan var undirritað hafi ekkert þokast í átt til úrlausnar – heldur frekar hið gagnstæða. Miklar vonir voru eðlilega bundnar við samkomulagið sem ríkisstjórn Súdan og helstu samtök uppreisnarmanna í landinu skrifuðu undir. En það var líka mjög umdeilt, t.a.m. vegna þeirrar staðreyndar að tveir af þremur uppreisnarhópum í Darfur-héraði gerðu það ekki. Með því hafi strax myndast brot í þennan grunn að friði sem ekkert gat síðan byggst á. Enda liðu ekki nema nokkrar vikur frá undirritun þar til að einn uppreisnarhópanna snerist á sveif með stjórnvöldum og hóf árásir á hina uppreisnarhópanna.

Á dögunum höfnuðu yfirvöld í Súdan síðan ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna þess efnis að friðargæslulið samtakanna myndi leysa friðargæslulið Afríkusambandsins af hólmi og taka við friðargæslu í Darfur-héraði í lok mánaðarins. Þannig er mál með vexti að gæslulið Afríkusambandsins sem staðið hefur vaktina í 2 ár hefur einfaldlega ekki haft nægjanlega burði til að sinna friðargæslu sem skyldi, aðallega vegna skorts á mönnun og búnaði.

Stjórnvöld í Súdan túlka komu friðargæslusveita Sameinuðu þjóðanna sem óréttláta árás og hafa sakað öryggisráð SÞ um nýlendustefnu, og beðið súdönsku þjóðina að standa saman og vera við öllu búin. Á sama tíma heyrast fregnir frá bandaríska utanríkisráðuneytinu um að samþykki frá yfirvöldum í Khartoum, höfuðborg Súdans sé hreint ekki skilyrði fyrir því að friðargæslulið SÞ verði sent til landsins. En auðvitað er næsta ómögulegt að réttlæta það að SÞ eigi eða geti ráðist inn í Súdan til að verja Darfúr.

Ríkisstjórnin í Súdan hefur þannig bæði skipað friðargæsluliði Afríkusambandsins burt í lok mánaðar og þvertekið fyrir komu liðs Sameinuðu þjóðanna. Hún hefur hinsvegar lagt sendingu herliðs þúsunda Súdana til Darfur-héraðs til að berja niður það sem eftir lifir af uppreisnarhópum á borðið sem sitt friðarspil.

Súdönsku yfirvöldin telja því augljóslega að aðkoma ‘alvöru’ friðargæsluliðs muni aðeins verða til þess að steinn verðir lagður í götu þeirra hvað varðar hernaðarsigur í Darfur. Að sama skapi hræðast margir úr þeirra röðum það að her SÞ geti og muni færa þá fyrir Alþjóðasakamáladómstólinn fyrir glæpi gegn mannkyninu.

Bandarísk stjórnvöld sem stóðu m.a. ásamt Bretum að títtnefndu friðarsamkomulagi í maímánuði eru þó bjartsýn á að hægt sé að sannfæra súdönsk stjórnvöld um að taka við sveitum SÞ og þykir þeim áætlaður fundur með þeim Bush og Omar al-Bashir forseta Súdans næg ástæða til. Reynsluboltar vara þó við þeirri bjartsýni enda séu súdönsk stjórnvöld vön að taka öllu slíku frumkvæði mjög vel, en þau gefi síðan ekkert til baka.

Ef að ekki verður af því að sveitum SÞ verði hleypt inn í landið er svo aftur spurning um hvort beita eigi refsiaðgerðum á Súdan. Þá gæti málið hinsvegar vandast. Enda virðist vera ógjörningur að finna það land sem uppfyllir hvort tveggja að hafa ekki viðskipta- eða olíuhagsmuna að gæta í Súdan og búi yfir hersveitum sem það er tilbúið til að senda til að mæta súdönskum sveitum.

Hvernig vindur fram veit enginn, en öllum virðist vera ljóst að friður er hvergi í sjónmáli, og blóðbaðinu er hvergi nærri lokið.

Heimildir:
The Guardian

Latest posts by Ásdís Rósa Þórðardóttir (see all)

Ásdís Rósa Þórðardóttir skrifar

Ásdís Rósa hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2003.