Knattspyrnuhaust

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta fer vel af stað í undankeppni Evrópumótsins og kvennalið Vals tryggði sér sigur gegn mannlausu FH liðinu á sunnudaginn.

Það er óhætt að segja að íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu hafi farið af stað með látum í undankeppni Evrópumótsins um síðustu helgi. Glæsilegur sigur á Norður-Írum á útivelli hleypti lofti fremur vindlausa knattspyrnuþjóðarsálina sem hefur verið illa uppblásin síðustu misseri. Framundan er leikur gegn Dönum, sem eflaust verður mun erfiðari á allan hátt.

Norður-Írar eru nú að glíma við vonbrigði sem eru okkur Íslendingum vel kunn. Fullir bjartsýni um góðan árangur í undankeppninni héldu þeir inn í leikinn gegn Íslendingum með væntingar um öruggan sigur. Í stað þess að fá byr undir báða vængi, gengu þeir af velli með það á bakinu að hafa jafnvel jarðað drauminn um sæti á Evrópumótinu 2008 strax í upphafi móts. Reyndar hafa N-Írar náð að komast inn á stórmót, öfugt við Íslendinga, en það var á HM 1982 á Spáni þar sem Norman Whiteside og Pat Jennings fóru fyrir hópnum.

Landsliðið sem Eyjólfur hefur sett saman er skemmtileg blanda ungra leikmanna og reynslubolta, sem þó eru flestir á góðum aldrei og eiga nokkur góð ár eftir í boltanum. Við höfum sennilega sjaldan eða aldrei átt jafnmarga atvinnuknattspyrnumenn á erlendri grundu og gefur það góða von um að landsliðið geti klifrað upp styrkleikalista FIFA. Riðillinn sem landsliðið er í er hins vegar þess eðlis að ólíklegt er að liðið eigi möguleika á að vera í baráttunni um sæti á Evrópumótinu. Hins vegar lítur hann frábærlega út þegar kemur að skemmtanagildi fyrir áhorfendur og sömuleiðis telur sennilega mikið fyrir landslið sem er í kringum hundraðasta sæti á FIFA listanum að ná hagstæðum úrslitum við stórar knattspyrnuþjóðir eins og Spán, Dani og Svía.

——-

Á sunnudaginn fengu Valsstúlkur afhentan Íslandsmeistaratitilinn, eftir nokkuð sannfærandi sigur í deildinni. Það skyggði á fjörið að FH stúlkur sáu sér ekki fært að mæta til leiks vegna manneklu í lokaleiknum gegn Val og því var leikurinn flautaður af og Valsstúlkum dæmdur sigur. Þetta sýnir í hnotskurn það vandamál sem kvennaknattspyrnan hefur verið að glíma við. Fá lið, yfirleitt þrjú til fjögur, bera af hinum á mótinu og nú er svo komið að einhver félögin telja sig ekki ná í lið. Þessi mannekla varð m.a. til þess ÍBV dró lið sitt úr keppni fyrir mótið í ár, eftir að hafa verið toppbaráttunni í mörg síðustu ár.

Forráðamenn FH liðsins sendu fljótlega eftir leik út fréttatilkynningu og skýrðu ástæðu þess að liðið mætti ekki til leiks. Hvort skýringin var góð og gild, rétt eða ekki skal ekki dæmt hér. Hins vegar er það líklegra en ekki í ljósi þeirrar þróunar sem orðið hefur í kvennadeildinni að skýringarnar séu réttar.

FH liðið hafði fengið á sig 93 mörk í 13 leikjum fyrir leikinn í gær. Skal engan undra að stúlkur í þriðja og öðrum flokki hafi takmarkaðan áhuga á því að þola enn eitt burstið á vellinum. Hversu slæmt sem það er að félag mæti ekki til leiks, þá er einnig vert að hafa það í huga að á bak við slík lið eru knattspyrnuráð sem yfirleitt leggja mikið á sig til halda þessum deildum gangandi, iðulega við erfiðar aðstæður. Vonbrigði Valsstúlkna eru skiljanleg en sömuleiðis vandræði FH liðsins.

Í fréttum NFS kom fram að Valsstúlkur hafi, vegna áðurnefndrar uppákomu, þurft að bíða í um klukkustund eftir því að fá bikarinn afhentann. Það vekur upp spurningu um hvort forráðamenn KSÍ hafi ekki mætt á leikinn til að horfa á hann, heldur hafi eingöngu ætlað að mæta í lokinn til að afhenda bikarinn. Um það skal ekki fullyrt hér, en aumt er ef satt er.

Latest posts by Birgir Hrafn Hafsteinsson (see all)