Vinna í boði fyrir alla þá sem lyft geta hendi og hafa áhuga

Þessa fyrirsögn mátti lesa á síðum Morgunblaðsins í gær, 6. september en blaðið hafði gert úttekt á stöðu mála á vinnumarkaði. Það er ágætt að hafa það í huga, þegar hlustað er á fréttir nær daglega af því að allt sé að fara til fjandans, að ástandið er óvíða betra en einmitt á Íslandi. Hins vegar virðist það mörgum sérstakt áhugamál að breyta þeirri staðreynd.

Jafnaðartilraunir hafa verið gerðar. Þær hafa allar mistekist.

Þessa fyrirsögn mátti lesa á síðum Morgunblaðsins í gær, 6. september en blaðið hafði gert úttekt á stöðu mála á vinnumarkaði. Það er ágætt að hafa það í huga, þegar hlustað er á fréttir nær daglega af því að allt sé að fara til fjandans, að ástandið er óvíða betra en einmitt á Íslandi. Á nær alla mælikvarða hagsældar og velmegunar standa langflest ríki Íslandi að baki. Hér á landi eru þó ýmsir sem hafa sérstakan áhuga á að breyta þessu.

Sú staðreynd að næg atvinna er í boði hér á landi er ekki tilkomin vegna þess að störf hafi dottið af himnum ofan eða verið búin til með ákvörðunum stjórnvalda. Það er fjármagnið sem skapar störfin. Það vekur þess vegna alltaf furðu þegarsjálfskipaðir talsmenn launþega og verkalýðsins fara hamförum gegn fjármagninum og vilja helst búa svo um hnútana að allt fjármagn flytjist úr landi.

Ástæða þess að við Íslendingar búum nú við betri kjör en nokkru sinni áður, að til staðar eru fleiri atvinnutækifæri en oftast áður, er sú að umgjörð atvinnulífsins, fyrirtækjanna og einstaklinganna, er betri hér en víðast hvar annars staðar. Skattar á fyrirtæki og fjármagn hafa verið lægri en í flestum viðmiðunarlöndum okkar. Þetta hefur leitt til þess að fyrirækin eru stærri og sterkari og meira af fjármagni á boðstólum til að búa til aukin verðmæti. Stærri og sterkari fyrirtæki hafa burði til að ráða til sín fleira starfsfólk og borga því hærri laun. Fyrirtæki sem ganga vel eru þannig forsenda fyrir því að hagur launþega batni.

Sumum virðist hreinlega ekki gefið að skilja samhengið milli verðmætasköpunar og velmegunar. Í samfélagi þar sem verðmætasköpun er hindruð ríkir ekki velmegun. Þeir sem nú hamast gegn fjármagninu ættu að horfa til þess tíma þegar fjármagn var af skornum skammti í íslensku samfélagi, þess tíma þegar atvinnulífið var bundið í klafa forsjárhyggju og skattpíningu, þess tíma þegar ekki var næga atvinnu að hafa og kjör launþega langtum lægri en nú.

Morgunblaðið, sem vitnað er til hér að ofan, hefur á síðustu mánuðum ekki legið liði sínu við að gera fjármagnið tortryggilegt og hefur sérstaklega verið hvatt til hærri skattaheimtu á fjármagn á síðum blaðsins. Söngurinn um misskiptingu og ójöfnuð á greiða leið inn á síður blaðsins. Sérstök skattlagning á fjármagn væri vissuleg leið til að jafna kjörin, kjörin leið til að jöfnuður ríkti hér á landi og allir hefðu það jafn skítt. Stundum er hreinlega eins og Morgunblaðið lesi ekki sínar eigin fréttir.

Verði þau sjónarmið ofan á í næstu kosningum, að grípa þurfi til sérstakra aðgerða gegn fjármagninu, mun það færa íslenskt samfélag mörg ár aftur í tímann. Fjármagn mun flytjast úr landi og fyrirtækin veikjast. Atvinnutækifærum mun fækka, atvinnuleysi aukast og laun munu lækka. En það mun auðvitað ekki skipta neinu máli, því jöfnuðurinn er aðalatriðið – ekki satt?

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.