Við þurfum að tala um Danmörku

Um aldamótin, þegar maður var að komast til vits og ára í stjórnmálum, hét ein tískubókin endalok sögunnar. Eiginlegri stjórnmálabaráttu átti að heita lokið, og breið sátt í vestrænum þjóðfélögum stóru línurnar í stjórnmálum. Það er ekki hægt að segja að þeir spádómar hafi elst vel.

Það eru ill örlög fyrir hvaða pistlahöfund sem er fá úthlutað pistli morguninn eftir mikilvægustu kosningar í manna minnum í Bandaríkjunum. En þjóðernispopúlisminn hefur skotið sér niður víðar en þar, og við þurfum að tala um Danmörku í því sambandi.

Í Danmörku komst flokkur Piu Kjærsgaard “til valda” árið 2001, en þá varði hann minnihlutastjórn falli. Aldarfjórðungi eftir stofnun flokksins árið 1995 má segja að hann hafi unnið fullnaðarsigur í innflytjendamálum, þar sem flestir danskir flokkar hafa tekið upp harða andstöðu við innflytjendur.

Það væri saga til næsta bæjar ef að Samfylkingin á Íslandi tæki upp harða andstöðu við innflytjendur líkt og sósíaldemókratar gerðu í Danmörku, að því er virðist fyrst og fremst af taktískum ástæðum. Flokkur fólksins missti nærri helming fyrra fylgis, og hægri blokkin féll. Innflytjendamálunum var fórnað til að fá málaflokkinn út af borðinu í kosningabaráttunni, í von um að hægt væri að efna til sóknar í velferðarmálum. Vissulega vannst ágætur sigur í kosningabaráttunni, og Mette Frederiksen varð forsætisráðherra – en varla er hægt að kalla þetta sigur yfir þjóðernispopúlismanum.

Hér á Íslandi erum við vön því að flokkar geti verið í oddaaðstöðu í samningaviðræðum – jafnvel aðrir flokkar en Framsóknarflokkurinn. Í dönskum stjórnmálum er ákveðinn kjósendahópur í oddaaðstöðu og ræður því hvort vinstri- eða hægriblokkin fer með völdin. Systurflokkur Samfylkingarinnar tók upp andstöðu við innflytjendur til að snúa taflinu sér í hag.

Hægri popúlismi þarf ekki stóra blokk af fylgi til að ná árangri. Hann þarf að ná ekki-sérstaklega-stórri sneið af kjósendum sem annars eru líklegri til að kjósa til vinstri og þannig gerbreytist landslagið í stjórnmálunum. Boris Johnson og Brexit urðu til þess að hinn svokallaði Rauði veggur féll og örugg þingsæti Verkamannaflokksins kusu Íhaldsflokkinn, sum í fyrsta skipti í sögunni.

Og þar vestra, hvar niðurstöðunnar er beðið þegar þetta er skrifað, hefur kosningabarátta Biden að miklu leyti snúist um að ná hluta kjósenda Trump til baka, meðal annars með því að forðast eins og heitan eldinn kúltúr- og sjálfsmyndarpólitík sem hefur litað alla bandaríska stjórnmálaumræðu síðustu ár.

Uppgangur hægripopúlismans síðustu misseri á sér ýmsar rætur og ólík blæbrigði milli landa. En víðast hvar má sjá til dæmis innflytjendaandúð, efasemdir um hnattræna hlýnun, tortryggni gagnvart opinberri stjórnsýslu og óþol gagnvart pólitískum rétttrúnaði. Það þarf ekki meirihlutastuðning við þessi sjónarmið til að gerbreyta landslagi stjórnmálanna. Ýmis konar tilviljanir og dýnamík geta orðið til þess að lýðræðinu sjálfu stendur orðið hætta af. Trump hafði til dæmis aldrei meirihlutastuðning í prófkjörum rebúblikana – en þeir úthlutuðu sigurverara hvers prófkjörs öllum kjörmönnum fylkisins.

Um aldamótin, þegar maður var að komast til vits og ára í stjórnmálum, hét ein tískubókin endalok sögunnar. Eiginlegri stjórnmálabaráttu átti að heita lokið, og breið sátt í vestrænum þjóðfélögum stóru línurnar í stjórnmálum. Það er ekki hægt að segja að þeir spádómar hafi elst vel. Í Danmörku er innflytjendaandúðin breiða samstaðan í stjórnmálunum. Lýðræðið sjálft er viðkvæmara en maður hefði nokkurn tímann trúað. Það er ekki laust við að maður kvíði niðurstöðunnar þar vestra.

Latest posts by Guðmundur Rúnar Svansson (see all)

Guðmundur Rúnar Svansson skrifar

Mundi hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.