The West Wing fyrr og nú

Um síðustu aldamót var eitthvert vinsælasta sjónvarpsefnið bandarísku þættirnir The West Wing. Þar var fjallað um starfslið bandaríska forsetans Jed Bartlett yfir alla forsetatíð hans. Þættirnir þóttu raunsæir um margt og höfðu mikil áhrif á flesta þá sem voru að fá hvolpavit á stjórnmálum þegar þeir voru í sýningum.

Í þáttunum var almannaþjónusta (Civil Service) hafin á stall og áhorfendur fengu innsæi í gangvirki stjórnmálanna sem ekki fékkst með lestri hefðbundinna fjölmiðla. Þó að starfslið forsetan kynni pólitík og spilaði leikinn var líka starfað af heilindum og það var jafnan í þáttunum undirliggjandi þema um að það væri eitthvað stærra og meira sem menn þjónuðu en bara flokkurinn, forsetinn eða hugmyndafræðin, og það sást líka, í það minnsta stundum, hjá stjórnarandstæðingunum. Þar var dregin upp lítið eitt rósrauðari mynd en staðist gæti í raunveruleikanum.

Gott sjónvarp er auðvitað ekki sannleikanum samkvæmt. En þarna tókst Aaron Sorkin og samstarfsfólki hans að skapa sagnaheim sem var sannferðugur. Fólk trúði því að þetta gæti verið nærri lagi, eða vildi það að þetta væri nærri lagi um gangvirki stjórnmálanna: Heiðarlegt og heillandi yfirburðafólk sem finnur leiðir til hnika hlutum til betri vegar innan ramma þess mögulega, en þó af virðingu fyrir andstæðingnum.

Það kom nokkuð á óvart þegar þættirnir voru blásnir af árið 2006, í það minnsta út frá viðskiptasjónarmiðum. Þeir höfðu enn sæmilegt áhorf. En tíðarandinn í Bandaríkjunum hafði breyst og þróast frá þeim anda sem einkenndi þættina – það mun hafa verið meginástæðan. Forsetatíð Bill Clinton einkenndist af málamiðlunum við Rebúblikana og stjórnmálin snerust síður um kúltúr- og sjálfsmyndarstjórnmál.

Eftir því sem leið á Bush árin jukust átök og tortryggni – samfélagið byrjaði að liðast í sundur. Raunveruleikinn hætti að passa við sjónvarpsefnið. Og það hefur stigmagnast allar götur síðan, burtséð frá því hverjir fara með völdin í Hvíta húsinu. Í dag eru þættirnir um Vesturvænginn nokkuð langt frá því að endurspegla pólitískan raunveruleika – þeir minna frekar á gamla Star Trek þætti eða teiknimyndir með talandi dýrum. Þrátt fyrir góðar sigurlíkur demókrata í kosningum eftir nokkrar vikur er fátt sem bendir til þess að bandarísku þjóðfélagi sé viðbjargandi – þetta endi í einhvers konar skelfingu, jafnvel fyrr en síðar.

Latest posts by Guðmundur Rúnar Svansson (see all)

Guðmundur Rúnar Svansson skrifar

Mundi hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.