Svona segir maður ekki, Víðir!

Við aðstandendur þekkjum þetta viðhorf vel og af miður góðri raun, því margt í okkar vegferð og baráttu hefur litast af slíkum viðhorfum. Þau voru einmitt innblásturinn að vel heppnaðri auglýsingaherferð sem Styrktarsjóður Susie Rutar stóð að fyrir nokkru síðan. Yfirskriftin að henni var „Það ætlar enginn að verða fíkill.“

Skoðanaskipti um borgaraleg réttindi og frelsi einstaklingsins hafa ekki verið hávær að undanförnu, þótt ótrúlegt megi virðast. Deiglan hefur þó ekki látið sitt eftir liggja í þeim efnum; kyndilberar frelsis nú sem endranær. Að baki liggur sú hugsun að það sé nauðsynlegt að ræða skerðingar á borgaralegum réttindum einstaklinga.

Talsvert meira hefur borið á skömmum og hrakyrðum í garð þeirra sem vekja máls á lögmæti aðgerða og ábyrgð stjórnvalda: VEIT ÞETTA LIÐ EKKI AÐ ÞAÐ ER FOKKINGS HEIMSFARALDUR Í GANGI ?!?!?!?! Þá hefur fólk sem hefur orðið uppvíst að andkóvískri (eða meðkóvískri?) hegðun verið úthrópað á öllum mögulegum miðlum. Íbúasíður á facebook eru uppfullar af tilkynningum sjálfskipaðrar samfélagsvörslu og lögreglan hefur ekki undan að leysa upp barnaafmæli sem eru á mörkum fjöldatakmarkana. Druzhinas eru víst víða.

En mörkin eru ekki dregin þar. Undanþágur hafa verið heimilaðar frá hörðum sóttvarnaraðgerðum og er framkvæmdin sú að beiðnir um slíkt þurfa að berast almannavörnum og heilbrigðisráðuneytinu. Þrátt fyrir það hafa umsækjendur fengið sinn skerf af formælingum fyrir það eitt að voga sér að sækja um undanþágur. Það er óhætt að segja það að stemningin í þjóðfélaginu sé súr og það ekki að ástæðulausu.

Þeir einstaklingar sem yfirleitt sitja fyrir svörum á daglegum upplýsingafundum hafa einnig fallið í þessa gryfju. Þrátt fyrir að tala fyrir samstöðu og gegn  fingrabendingum, og þrátt fyrir að hafa í einhverjum tilvikum verið mjög liðlegir hvað undanþágur varðar, hafa skammir og föðurlegur umvöndunartónn dúkkað upp reglulega. Það er e.t.v. af þeim sökum sem ég nýti netsíðuplássið í þetta skiptið til að skammast í einum úr þessum hópi; vanda aðeins um fyrir honum.

Í síðustu viku birtist á mbl.is viðtal við Víði Reynisson, yfirlögregluþjón hjá almannavörnum, þar sem hann ræddi „jaðarsetta hópa samfélagsins“ og áskoranirnar sem að þeim lúta um þessar mundir. Þar var haft eftir honum, innan gæsalappa: ,,Það eru fyrst og fremst þeir hóp­ar sem við höf­um verið í sam­skipt­um við og eiga erfitt með að fylgja þeim regl­um sem eru í gangi, bæði vegna þess ástands og líka vegna þeirr­ar leiðar sem þau hafa ákveðið að velja í líf­inu.

Í þessum orðum Víðis endurspeglast verulega neikvætt og skaðlegt viðhorf í garð sjúklinga sem þjást af fíknisjúkdómum. Við aðstandendur þekkjum þetta viðhorf vel og af miður góðri raun, því margt í okkar vegferð og baráttu hefur litast af slíkum viðhorfum. Þau voru einmitt innblásturinn að vel heppnaðri auglýsingaherferð sem Styrktarsjóður Susie Rutar stóð að fyrir nokkru síðan. Yfirskriftin að henni var „Það ætlar enginn að verða fíkill.“ Í einni auglýsingunni lýsir móðir samtali við son sinn sem lést langt fyrir aldur fram þannig að hún hafi spurt hann að því af hverju hann hafi ánetjast fíkniefnum; hvort honum hafi virkilega liðið svona illa. Hann svaraði einfaldlega „mamma hreinskilnislega, mér fannst þetta gott“. Hans lífsferill var markaður frá fyrsta skammti og þótt hann berðist eins og ljón, tók fíknin yfir.

Fíklar eru alls konar og þeir koma frá öllum stigum samfélagsins. Þeir eiga það sameiginlegt að vera með ólæknandi sjúkdóm sem hægt er að halda niðri – sjúkdóm sem þeir völdu sér ekki, ekki frekar en krabbameinssjúkir. Þær hópmeðferðir sem þeir styðjast helst við eru nú í lamasessi vegna harðra aðgerða yfirvalda. „Jaðarsettir hópar samfélagsins“ og fjölskyldur þeirra eiga því mjög um sárt að binda um þessar mundir, líkt og svo margir aðrir. Það er allsendis óvíst um gleðilega aðventu hjá þeim burtséð frá stöðu smitsjúkdóma í landinu.

Latest posts by Diljá Mist Einarsdóttir (see all)

Diljá Mist Einarsdóttir skrifar

Diljá hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2006.