Mesta hættan í umferðinni

Það er vitaskuld rétt sem oft er bent á, að fyrir okkur velmegunarþegnana á mannréttindalandinu Íslandi er nánast vonlaust að setja okkur í spor niðurlægðra samfélagshópa í fjarlægum löndum. Mest áberandi birtingarmyndirnar í fjömiðlum, svo sem eins og hinn ógeðslegi ofbeldisofsi sem glampaði úr auga lögregluþjónsins sem drap George Floyd, vekja vitaskuld upp verðskuldaðan hrylling. En slíkar myndir segja ekki nema örlítinn hluta sögunnar.

Í umfjöllun um glæp lögregluþjónsins í Minneapolis hafa auðvitað komið fram ýmis sjónarmið sem eiga mismikið erindi í umræðuna.

Eitt sjónarmið er að ofbeldi Derek Chauvin, sem drap Floyd, sé ekki almennt lýsandi fyrir það hvernig lögreglan í Bandaríkjunum hegðar sér og þess vegna eigi ekki að gera of mikið úr slíku fráviki. Að sjálfsögðu þarf ekki að taka þetta fram. Þó það nú væri. Sem betur fer er ljóst að mikill meirihluti laganna varða í Bandaríkjunum eru sómafólk sem vill þjóna samfélagi sínu. Þetta hefur meðal annars sést í fjölmörgum fallegum myndböndum frá Bandaríkjunum þar sem hugrakki laganna verðir fella grímur sínar og vopn, falla niður á kné og taka undir kröfur mótmælenda um að líf blökkumanna séu metin til jafns við önnur. Það eru hins vegar nægilega mörg dæmi um menn eins og Chauvin til þess að gera það að verkum að víða í Bandaríkjunum er stórum hluta fólks ómögulegt að treysta lögreglunni.

Annað sjónarmið er að benda á tölfræði sem sýnir að minnihlutahópar, einkum blökkumenn, séu valdir af stórum hluta glæpa og því sé það ekki endilega til marks um kynþáttafordóma þótt svartir verði oft fyrir barði á harkalegum lögregluaðgerðum. Þótt ekki sé sanngjarnt að slá því föstu að kynþáttafordómar búi að baki slíkum ályktunum, þá þarf ekki mikla rýningu á slíkum gögnum eða skilning á aðstæðum blökkumanna til að sjá hversu brjálæðislega ósanngjarnt það er að nýta slíka tölfræði til að útskýra lögregluofbeldið. Hér getur gagnast að notast við þá vandasömu, en einstaklegu gagnlegu, hugarleikfimi að prófa að setja sig í spor annarra.

Eins og áður sagði er þetta ákaflega erfitt. En í vikunni heyrði ég áhugavert viðtal sem gagnaðist mér við að setja sjálfan mig í smástund að einhverju leyti í samhengi við þann veruleika sem blökkumenn í Bandaríkjunum búa við. Í hlaðvarpsþættinum BS Report með Bill Simmons var viðtal við CC Sabathia. Sabathia er fæstum Íslendingum að nokkru leyti kunnur, en hann kastað hafnabolta fyrir NY Yankees og þar áður Cleveland Indians með góðum árangri, en lagði hanskann á hilluna eftir síðasta tímabil.

Sabathia, sem er þeldökkur, er enginn smásmíði—nálega tveir metrar á hæð og líklega hátt í 150 kíló. Í viðtalinu lýsti hann því að hann væri nú um stundir að kenna sextán ára syni sínum að keyra. Sextán ára strákurinn er líka stór og kraftalegur í vexti, og vitaskuld svartur á hörund eins og foreldrarnir. Í viðtalinu lýsir Sabathia því að það sem hann leggi mesta áherslu á í að undirbúa son sinn fyrir umferðina hefur í raun ekki mikið með aksturinn sjálfan eða umferðarreglurnar að gera. Nei, áður en farið er út í slík grundvallaratriði þarf að undirbúa Sabathia yngri fyrir mestu hættuna sem faðir hans telur að vofi yfir honum í umferðinni.

Hvernig ætlar hinn ungi, stóri og sterki, blökkumaður á dýra bílnum að bregðast við þegar lögreglan stöðvar hann að ástæðulausu og byrjar að yfirheyra hann með ógnandi hætti?

Þótt ég sé ekki lengur sérlega ungur, ekki stór og sterkur, og ljós á hörund—þá tel ég mig geta mátað mig (og ekki síður ýmsa vini mína) við þessar aðstæður. Að vera rúntandi fullkomlega heiðarlega á flottum bíl sem unglingur, með öll heimisins hormón yfirflæðandi í blóðrásinni, sannfærður um að maður eigi allan heiminn og allt sem er í honum—en vera svo stöðvaður af lítilli ástæðu af belgingslegum lögregluþjónum sem heimta að maður framvísi pappírum og sé ekki með múður eða stæla. Jafnvel að maður sé rekinn út úr bílnum, látinn standa í niðurlægjandi stellingu og að káfað sé á manni fyrir framan vini og jafnvel rómantísk viðfangsefni.

Hér getur staðan skyndilega orðið hættuleg.

Ungir menn, sama af hvaða kynþætti þeir eru, gætu reynst líklegir til þess að gera eitthvað heimskulegt við þessar aðstæður. Og þótt öll heilbrigð skynsemi segi manni að vandamálið í stöðunni sé að sjálfsögðu hin óþörfu afskipti lögreglunnar—þá mun kjaftbrúk, mótþrói og almenn togstreita verða skrásett sem áreiti ökumanns í garð lögreglunnar.

Fjölmörg önnur dæmi, svo sem í tengslum við handtökur fyrir smávægileg fíkniefnabrot, hjálpa til við að skekkja tölfræðina um glæpi í Bandaríkjunum blökkumönnum í óhag. Við þetta bætist auðvitað hin bága efnahagslega og félagslega staða sem margir blökkumenn búa við frá barnsaldri.

En þegar maður skilur og skynjar hversu augljóst það er hjá CC Sabathia, að leggja áherslu á að kenna syni sínum hvernig hann getur komist hjá því að vera laminn af lögreglunni eða þaðan af verra—þá finnst mér opnast smá gluggi að skilja hversu ólík veröld blasir við ólíkum kynþáttum í Bandaríkjunum.

Að reyna að setja sig í þau spor sem bandarískir blökkumenn feta á hverjum degi er auðvitað ómögulegt fyrir okkur sem langar samt til að reyna að skilja betur. En við getum líklega flest skilið hversu sorglegur undirtónn það er á annars fallegri stund að þurfa að segja við son sinn að til þess að geta verið öruggur í umferðinni þurfi hann að vera tilbúinn að leyfa lögreglunni að auðmýkja sig að tilefnislausu, því annars geti farið illa.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.