Auður og afl og hús og verðtrygging

Verðtryggðu lánin okkar eru auðvitað svolítið galin. En það má færa rök fyrir því að í gölnu umhverfi þurfi galnar lausnir. Íslenskt efnahagslíf, með sitt einsleita hagkerfi og sjálfstæðan gjaldmiðil, hefur verið eins og korktappi í Norður-Atlantshafinu. Sveiflurnar hafa verið tíðar og ýktar og enginn hefur tekið eftir því nema þessar fáu sálir sem hafa sjálfar stigið ölduna.

Hvar sem við förum um heiminn eru sértæk og skrítin mál sem snerta íbúa ákveðinna svæða eða landa. Málefni sem kljúfa þjóðir, skipta því í flokka eða fylkingar innan flokka. Þessi mál eru gjarnan þannig að börn hafa síað inn óþarflega mikla vitneskju um efnið fyrir fermingu, sem er kannski ágætt því þessi málefni munu án efa marka öll fullorðinsárin. Málefnin þykja gjarnan skrítin og allir halda að þeirra málefni hljóti að vera þau undarlegustu sem deilt er um á jarðkringlunni, því öll erum við svo sérstök. Heitar umræður um málefnin verða að þjóðarsporti. Á Íslandi eru þetta þónokkur mál. Við getum nefnt fiskveiðistjórnun, hvort við eigum að segja „pylsa“ eða „pulsa“ og svo auðvitað drottningu íslenskrar þjóðmálaumræðu, sjálfa verðtrygginguna. 

Nú hefur fjármálaráðherra lagt fram frumvarp til að takmarka verulega notkun á verðtryggðum lánum. Eftirtektarverðast í því er að bannað verði að lána verðtryggð lán til lengri tíma en 40 ára.

Verðtryggðu lánin okkar eru auðvitað svolítið galin. En það má færa rök fyrir því að í gölnu umhverfi þurfi galnar lausnir. Íslenskt efnahagslíf, með sitt einsleita hagkerfi og sjálfstæðan gjaldmiðil, hefur verið eins og korktappi í Norður-Atlantshafinu. Sveiflurnar hafa verið tíðar og ýktar og enginn hefur tekið eftir því nema þessar fáu sálir sem hafa sjálfar stigið ölduna. Það er auðvitað galið að taka 40 ára lán, sem samsvarar margföldum árstekjum, sem eru þannig samsett að þau byrja ekki að lækka frá upphaflegri lánsfjárhæð fyrr en eftir 25 ár. Slík lán með jöfnum greiðslum hafa meira að segja hlotið heitið Íslandslán vegna þess hvað þau eru skrítin.

Gallinn við Íslandslánin er að yfir lánstímann eru þau eru mun dýrari en óverðtryggð lán. Ef ég tæki 20 milljón króna Íslandslán hjá Arion banka (sem býður upp á Íslandslán í reiknivél á netinu) í dag myndi það kosta mig 61 m.kr. yfir lánstímann. Sambærilegt óverðtryggt lán myndi alls kosta um 37 milljónir. Þetta er auðvitað sláandi munur, sérstaklega þar sem munurinn á greiðslubyrði virkar ekki svo mikill. Íslandslánið kostar mig 67 þúsund krónur á mánuði en hitt 77 þúsund. En þetta segir samt ekki alveg alla söguna.

Miðgildi launa á Íslandi 2020 var 473 þúsund krónur, sem þýðir að helmingur launamanna fékk hærri laun og helmingur lægri. Það vill svo til að Eiríkur einstæði er einmitt með miðgildislaun og fær því 343 þúsund krónur útborgaðar. Miðað við lánareikni Arion banka ætti Eiríkur, sem er með námslán, á skuldlausan bíl og barn á leikskólaaldri að hafa greiðslugetu á bilinu 60-70 þúsund krónur. Hann gæti þá mögulega fengið 20 m.kr. Íslandslán, en óverðtryggða lánið væri of dýrt. Computer says no!

Eiríkur einstæði vill koma þaki yfir sig og hana Elísu litlu. Hann hugsar til Reykjanesbæjar, sem býður ódýrt húsnæði og góða þjónustu við fjölskyldur. Hann gæti keypt þriggja herbergja 78 fermetra íbúð þar á 25 milljónir. Ef hann á 5 milljónir (sem er auðvitað annað vandamál) fyrir útborgun gæti hann fengið 20 milljón króna Íslandslán til að kaupa. Ef Íslandslánin verða bönnuð gæti hann einfaldlega ekki keypt, því hann stenst ekki greiðslumat. Hinn kostur Eiríks er að leigja, en leiguverð fyrir sambærilegar íbúðir í Reykjanesbæ er á bilinu 170 – 200 þúsund krónur á mánuði.

Með því að banna Íslandslán er því verið að segja fólki að það hafi ekki efni á að greiða 70 þúsund af láni og mögulega annað eins í fasteignagjöld og rekstrarkostnað íbúðar, en geti vel greitt mun hærri leigu. Á þessu græða engir á endanum aðrir en leigusalar og mögulega lánveitendur. 

Sögulega hefur það yfirleitt komið sæmilega út fyrir fólk að taka Íslandslán með háu veðhlutfalli til að koma yfir sig þaki. Fasteignaverð yfir þann tíma sem tekur að koma börnum á legg, hefur hækkað hraðar en lánin og lánþegarnir hafa eignast stærri hlut í íbúðinni sinni, sem leigjandinn hefur ekki gert.

Í umræðu um húsnæðismál hefur gjarnan verið talað um hve miklu þroskaðri leigumarkaðurinn er á hinum Norðurlöndunum og vanþróaður hér. En það er líklega einmitt vegna þess að lág greiðslubyrði og hátt veðhlutfall hafa gert tekjulægra fólki auðveldara með að kaupa og þurfa ekki að leigja. 

Vandræðin með vertryggð lán byrja ef fólk tekur slík lán til að fjármagna annað en þak yfir höfuðið eða stækkar hraðar við sig en það ræður við. En lánin sem slík eru góð til síns brúks. Í flestum tilfellum hækka tekjur fólks eftir því sem líður á starfsævina og þá skapast tækifæri til endurfjármögnunar eða til að greiða lánin hraðar niður. 

Sérstaða íslenska efnahagsundursins – krúttlega kortkappans okkar – er óðum að hverfa. Áður fyrr gátum við farið á vertíð til að safna fyrir afborgun af íbúð eða innborgun á bíl og til að greiða lánin hraðar niður. Það er liðin tíð og við líkjumst æ meir löndunum í kringum okkur. Það er alvöru áskorun að gera þetta stærsta hagsmunamál hverrar fjölskyldu – kostnaðinn við þak yfir höfuðið – þannig úr garði að vel sé við unandi. Það kann vel að vera að Íslandslánin séu barn síns tíma og ekki lengur besta leiðin til að leysa úr vanda tekjulágra við að koma sér þaki yfir höfuðið. En að banna meðalið er ekki rétta leiðin til að lækna meinið. 

Latest posts by Brynjólfur Ægir Sævarsson (see all)