Úr sér gengnar framfarir

Að horfa upp á hið furðuflókna fyrirkomulag sem er við lýði í Bandaríkjunum í tengslum við kosningar virðist einkennilegt. Kannski er kerfið of flókið af því það átti að vera hagkvæmt, en kannski er það úr sér gengið af því það átti að vera svo nútímalegt.

Allt frá árinu 2000 hefur tiltrú margra á kosningakerfinu í Bandaríkjunu farið þverrandi. Þetta er meðal annars vegna þess hversu flóknar aðferðirnar við atkvæðagreiðsluna sjálfa virðast vera. Ýmis konar tækja- og tölvubúnaður er nýttur til þess að koma tiltölulega einföldum skilaboðum á milli kjósenda og kjörstjórnar og slíkt flækjustig býður heim ýmsum hættum á misskilningi og tortryggni. Líklega liggja þó einhvers konar hugmyndir um hagkvæmni á bak við allan óskapnaðinn; að mikilvægt sé að flýta því hversu hratt atkvæði eru talin og draga úr kostnaði við herlegheitin.

Í umræðum um kosningar hér á landi koma gjarnan upp umræður um kostnað við að halda kosninganar. Þetta á ekki síst við í tengslum við vonlitlar tilraunir til þess að leggja sitjandi forseta að velli. Sem betur fer virðast þau sjónarmið oftast ofan á að fjárútlát vegna slíkra kosninga séu tiltölulega létt lóð á vogarskálarnar þegar metnir eru kostir og gallar lýðræðsisins sem þjóðskipulags.

Mun þyngra en kostnaðurinn vega sjónarmið eins og öryggi og gagnsæi í kosningum. Það er ekki lítið vald sem flutt er milli manna í gegnum ferli lýðræðislegra kosninga, og í samfélagi þar sem einstaklingurinn nýtur virðingar og mannréttinda, er algjör forsenda að slíkt framsal og tilflutningur valds sé háð skýrum og skiljanlegum reglum.

Sú aðferð sem notuð er í flestum kosningum hér á landi kann að virðast stirðbusaleg í samanburði við flest annað í samtímanum. Kjósandi mætir að jafnaði í eigin persónu á kjörstað, tjáir vilja sinn með greinilegum hætti á pappírog skilar kjörseðlinum ofan í kassa, svo er sturtað úr kössunum, atkvæði flokkuð, talin í höndunum, tölurnar lagðar saman og niðurstöður kunngjörðar.

En það er kannski einmitt kostur aðferðarinnar hversu stirðbusaleg hún er. Það þarf ekki að kunna forritun eða skilja algóriþma til þess að hafa nokkuð pottþétta tilfinningu fyrir því hvernig vilji kjósandans ratar inn í niðurstöðu kosninganna. Og það er heldur ekki flókið að skilja hvernig atkvæði eru talin og endurtalin með þessum hætti. Hinn skiljanlega og fullkomlega gagnsæja leið þessarar aðferðar er jafnaugljós fyrir öllum mönnum, óháð menntun, eðlisgreind eða líkamlegum aflsmunum.

Að horfa upp á hið furðuflókna fyrirkomulag sem er við lýði í Bandaríkjunum í tengslum við kosningar virðist einkennilegt. Kannski er kerfið of flókið af því það átti að vera hagkvæmt, en kannski er það úr sér gengið af því það átti að vera svo nútímalegt. Vonandi tekst að koma í veg fyrir það hér á landi að aðferðafræði lýðræðisins verði gerð að tilraunastofu í tölvuöryggismálum. Til þess er gamla kerfið of gott; og til þess er um of mikla hagsmuni að tefla.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.