Frá bergmálshellunum er þetta helst

Ég geri mér það jafnan upp að ég sé svolítið farinn að eldast (ég er nýorðinn 22 ára). Ég fer í göngutúra á kvöldin og fer fyrr og fyrr að sofa á kvöldin – helst bara beint eftir tíufréttir. Ég er þó ekki meira trúr þessum leikaraskap mínum en það, að ég eyði heilu vinnudögunum á samfélagsmiðlum á degi hverjum.

Þingsályktunartillaga Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttir vekur eðlilega upp sterkar tilfinningar hjá fólki. Fyrir þeim sem skoðun hafa á málinu er þetta gríðarlega persónulegt. Fyrir mörgum snýst öll umræða um þungunarrof um frelsi kvenna til að ráða yfir eigin líkama, hvorki meira né minna – hvernig er hægt að vera mótfallinn slíku? Á hinn bóginn finnst mörgum slík umræða snúast um frelsi kvenna til að eyða fóstrum: drepa það sem annars hefði orðið fullvaxta manneskja. Stórar tilfinningar. 

Eins og svo oft áður, takast hér á svo að segja eins andstæðir pólar og hugsast getur í íslenskri pólitík, þeir sem eru íhaldssamir og viðhafa “kristin fjölskyldugildi” eins og það er oft orðað, og róttækir femínistar. Stál í stál. 

En fyrir hvern er umræðan?

Ég geri mér það jafnan upp að ég sé svolítið farinn að eldast (ég er nýorðinn 22 ára). Ég fer í göngutúra á kvöldin og fer fyrr og fyrr að sofa á kvöldin – helst bara beint eftir tíufréttir. Ég er þó ekki meira trúr þessum leikaraskap mínum en það, að ég eyði heilu vinnudögunum á samfélagsmiðlum á degi hverjum. 

Á Instagram sé ég til dæmis í “story” hjá fólki alls kyns pólitísk skilaboð, flest af hinu góða bara. Nú síðast sá ég einhverja, eingöngu konur/stelpur, tjá sig einmitt um þungunarrof og denslags. Það sem ég sá snerist þó ekki beint um tillögu Rósu Bjarkar, en meiningin var klárlega að kasta ákveðnum skilaboðum inn í hringiðu umræðunnar. 

Skilaboðin voru skýr, vel fram sett, sannfærandi og áhrifarík. (Það vona ég allavega. Ég er á því að konur eigi bara að stýra því hvort og hvenær þær rjúfa eigin meðgöngu – auðvitað). 

Svipaða sögu er að segja af Twitter. Þar sá ég að fór fram vönduð umræða um þessi “touchy” mál og voru flestir ef ekki allir sammála um að auðvitað sé þingsályktunartillaga Rósu Bjarkar af hinu góða, þungunarrof eru sjálfsögð og konur eiga að stýra þessu bara alfarið. Karlmenn skulu hafa sem minnst um þetta að segja. Gott og vel.

Nú stórefa ég hins vegar að öll þessi vandaða umræða sem fram fer á Instagram og Twitter nái sérstaklega mikið út fyrir þá hópa sem þar hafa sig mest í frammi. Ég stórefa að Ásmundur Friðriksson sjái það sem fram fer, það sem um hann er sagt. 

Hver er þá tilgangurinn? 

Hvers vegna tjáir fólk sig á svo sannfærandi hátt á einhverjum vettvangi þar sem enginn er, nema þeir sem eru sammála um málstaðinn? Af hverju reynir það ekki að ná til fólks sem er ósammála því, ósammála skoðunum um rétt kvenna yfir eigin líkama, ósammála um rétt kvenna til að fara í þungunarrof þegar þeim hentar, fólks sem er ekki á Twitter og Instagram.

Eflaust er tilgangurinn að leggja bara lóð á vogarskálar þess málstaðar sem þá stundina er í brennidepli. Að leggja hönd á plóg við að vekja einhvern hóp til vitundar. Ég veit það ekki. 

Kannski myndi einhver spyrja á móti, hvers vegna nokkrum manni dytti það í hug að tala beint til þeirra, sem hýrast bara á twitter og instagram, í pistli á Deiglunni. Ég veit það heldur ekki.

Latest posts by Oddur Þórðarson (see all)

Oddur Þórðarson skrifar

Oddur hóf að skrifa á Deigluna í maí 2020.