Er þetta ekki bara fínt ?

Ég á ennþá nokkur spil upp í erminni; flokka legóið og einstæðu sokkana en ég er að spara það til aðventunar. Því framundan er jólahátíð sem verður líklega með óhefðbundnu sniði.

Ég hef verið að velta fyrir mér upplifun krakkanna minna á heimsfaraldrinum og hvernig þau munu líta til baka til þess tíma. Þau hafa þroskast mikið á þessu ári og eru farin að bera aukna ábyrgð á því að hreyfa sig, læra heima og fyrst og fremst hafa ofan af fyrir sjálfum sér.

Börnin hafa vanist því að við foreldrarnir erum heima þegar þau koma úr skólanum. Ég held að öllum finnist það notarlegt en það verður erfitt að fara til baka og vita af þeim einum heima. Mér kvíður þó mest fyrir því að útskýra það fyrir hundinum að hann sé stór strákur og þurfi að getað verið einn heima. Hann hefur vanist því að liggja í kjöltu heimilismeðlima allan liðlangan daginn og er orðinn mjög sjóaður á símafundum. Auk þess að vera hitapoki heimilisins hefur hann staðið vaktina sem æfingartæki fjölskyldunar. Því hlutverki deilir hann með róðravélinni í bílskúrnum sem hefur fengið titilinn Covid kaup ársins. Herbergi heimilisins eru öll komin með ný hlutverk, bílskúrinn er ræktin, stofan jógastúdíó og eitt af barnaherbergjunum hefur verið lagt undir vinnuaðstöðu. Barnið hefur verið mjög þolinmótt gagnvart tölvubúnaði og kaffiblettum á skrifborðinu sínu en hefur nefnt það að ætla að krefjast leigu. Við höfum þó ekki sammælst um hvað sanngjörn leiga á skrifborði er og á meðan barnið hefur ekki krafist útburðar hef ég hummað leigusamninginn fram af mér.

Vika í sóttkví kenndi okkur fjölskyldunni að verkefnastýring er lykillinn að farsælum degi. Á morgnana var tússtaflan tekin fram og verkefnalisti fyrir daginn útbúinn: lesa, viðra hundinn, heimaæfing í fótbolta, baka bollur, trompet æfing osfv. Krakkarnir unnu svo niður listann og á meðan fengum við foreldrarnir frið til þess að vinna. Þá var tæknin nýtt til að hitta vini en leikurinn Among Us var hvað vinsælastur. Sá leikur virðist vera að riðja sér til rúms hjá öllum aldurshópum og meira að segja hefur undirituð fengið boð um að spila hann með miðaldra úthverfamæðrum. Það þýðir ekki að eingöngu að hittast á Zoom í happy hour því rafrænt rauðvínssull hefur víst líka afleiðingar daginn eftir.

Hver dagur er nánast eins og því hafa helgarnar verið kærkomin tilbreyting til að brjóta upp hversdagsleikann. Þar hefur reynt á hugmyndarflug okkar foreldranna. Ekki hefur verið hægt að fara í bíó, keilu eða minigólf enn þess í stað höfum við keppst við að finna eitthvað að gera heima fyrir. Um helgina var hugmyndaflugið ekki meira en svo að við þjófstörtuðum jólnum og settum upp seríur og hlustuðum á jólatónlist. Ég á ennþá nokkur spil upp í erminni; flokka legóið og einstæðu sokkana en ég er að spara það til aðventunar. Því framundan er jólahátíð sem verður líklega með óhefðbundnu sniði. Að öllum líkindum verður ekkert af jólatónleikum, aðventu fimleikasýningu, jólamóti handboltans og fótboltans, jólaföndri og jólakaffi í skólanum. Þess í stað verður aðventan sett í fyrsta gír og mun snúast um samveru fjölskyldunnar og að njóta hversdagsleikans.

Ég held að börnin eigi eftir að hugsa jákvætt til þessara skrítnu tíma.

Latest posts by Hrefna Lind Ásgeirsdóttir (see all)

Hrefna Lind Ásgeirsdóttir skrifar

Hrefna Lind hóf að skrifa á Deigluna í maí 2005.