Þinglokaþokumeinlokan

Þótt málflutningur í pistli gærdagsins sé sannfærandi verður því ekki neitað að fyrirkomulega þingstarfa—gamaldags eins og það virðist—hefur ýmsa kosti.

Í pistli gærdagsins á Deiglunni var fjallað um hið fornfálega fyrirkomulag þingstarfa að langt sumarhlé sé tekið—mun lengra en sem nemur því sem kjarasamningsbundnu frí almenns launafólks. Ekki er til siðs að efna til ritdeilna á Deiglunni. Einkum ætti sjálfur stofnandi og ritstjóri vefritsins að geta treyst því að vera laus við að uppivöðslusamir nýgræðingar á vefritinu reyni að upphefja sjálfa sig með því að efna til ófriðar við sér vitrari og mun eldri menn. En auðvitað er ekki hægt að stóla á neitt í þeim efnum.

Ritstjórinn gerði að umfjöllunarefni hinn árlega darraðadans í kringum þinglok, þar sem fjöldi mála safnast upp til afgreiðslu og gera þarf samninga og málamiðlanir til þess að velja hvað fái afgreiðslu og hvað sé geymt til næsta þings eða gleymt.

Hér er hreyft tveimur andmælum gegn hinum annars mjög sannfærandi skrifum gærdagsins.

  1. Hver er úr takti við hvern?
    Vissulega er hárrétt að það er úr takti við almennan vinnumarkað að þingmenn séu í svo löngu fríi yfir sumarið. En er þar með sagt að það sé þingið sem er úr takti við þjóðina—eða gæti verið að þjóðfélagið sé að einhverju leyti gengið úr skorðum miðað við það sem væri okkur eðlislægara. Þótt mantran um 4–6 vikna sumarfrí um hásumar sé lífseig þá er ýmislegt sem fylgir þeim takti að hafa þrjár annir; vorönn, sumarönn og haustönn. Má þar nefna að skipulag skóla, menningarlífs og íþróttalífs miðast nánast alltaf við þessa uppbyggingu, þar sem bilið milli anna eða tímabila er lengra en hefðbundið sumarfrí.
    Hugsanlega mætti því mun fleira í mannlífi og atvinnulífi færast í það horf að unnið sé af meiri ákefð í (til dæmis sex daga vikunnar) yfir vetrarmánuðina, en tekin séu lengri og heilnæmari frí á sumrin. Þeir sem vinna sex daga vikunnar gætu flutt þá 52 frídaga inn í sumarið og næstum tvöfaldað sumarfríið, sem almennt launafólk gæti þá nýtt til andlegrar og vitsmunalegrar endurnæringar, eins og gera má ráð fyrir að þingmenn leggi áherslu á meðan þing starfar ekki.
  2. Lokasprettir og nýtt upphaf
    Annar ágætur eiginleiki á hinu undarlega fyrirkomulagi þingstarfana er einmitt að búinn er til endapunktur. Hið góða við þess háttar endapunkta er að þeir hafa tilhneigingu til þess knýja fram ákvarðanir og aðgerðir sem ella væri hætt við að fengju að sitja á hakanum að eilífu. Fyrir vel skipulagt og markmiðadrifið fólk kann að vera erfitt að skilja slíka hugsun—en til eru einstaklingar sem eru hreinlega mjög ólíklegir til þess að klára nokkurn hlut nema einhvers konar óhjákvæmileg reikningsskil vofi yfir þeim. (Má í því samhengi nefna að þessi pistill birtist 10 mínútum fyrir miðnætti, og pistill gærdagsins eina mínútu fyrir miðnætti, þótt ekki sé þar með hægt að fullyrða að skrifin hefðu ekki skilað sér ágætlega án slíkra utanaðkomandi tímamarka, en það má spyrja sig).
    Þinglok eru slíkur endapunktur þar sem fram fer uppgjör en þau fela líka í sér þann ágæta kost—að nýtt þing getur hafist sem nokkurn veginn autt blað, þar sem öll málin sem dóu að voru eiga von til þess að endurfæðast að hausti.

Þótt málflutningur í pistli gærdagsins sé sannfærandi verður því ekki neitað að fyrirkomulega þingstarfa—gamaldags eins og það virðist—hefur ýmsa kosti.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.