Tímabærar umbætur á Tækniþróunarsjóð

Í kjölfar þess að Tækniþróunarsjóður birti lista yfir verkefni sem voru styrkt í þessari viku fór af stað umræða hvort það væri eðlilegt að stærri fyrirtæki væru að fá úthlutað úr sjóðum. Það var að skilja eins og gömul fyrirtæki eða fyrirtæki sem skili hagnaði væru ekki nýsköpunarfyrirtæki eða að minnsta kosti að það væri á einhvern hátt óeðlilegt að þau fengju peninga úr opinberum sjóðum. Samt er það alveg skýrt að þetta er ekki sprotasjóður, aldur fyrirtækja eða hvort þau hafi skilað hagnaði á því ekki að hafa áhrif – heldur að peningunum sé varið í verkefni sem uppfylla skilyrði sjóðsins.

Sjóðurinn er samkeppnissjóður, þar sem leikreglurnar eru skýrar. Hvort sem um er að ræða nýtt eða gamalt fyrirtæki, þá skiptir fyrst og fremst máli sú vara sem verið að styrkja, teymið og samfélagslegu áhrifin. Ólíklegt er að hefðbundin vöruþróun fengi styrk, aðlögun eða breytingar á vörum eru bara ekki með nægjanlegt nýnæmi til þess. Það að eldri fyrirtæki komi fram með nýjar vörur eða vilji fjárfesta í nýsköpun hér á landi er gríðarlega jákvætt og það að fyrirtækin hafi núþegar skilað árangri ætti að vera jákvætt en ekki neikvætt. Aðalatriði er að ferlið sé gagnsætt og að allir sitji við sama borð, hvort sem um stórfyrirtæki er að ræða, stofnun eða sprota. Það er frekar í því ferli sem hnífurinn stendur í kúnni.

Á pappír er ferlið mjög fagmannlegt, fagráð sérfræðinga fer yfir umsóknir og senda stjórn ráðgefandi lista með þeim umsóknum sem þeir mæla með. Stjórn tekur svo ákvörðun um hvaða verkefni skuli styrkja. Vandamálið kristallast samt í litlu og einsleitu samfélagi sérfræðinga hér á landi. Sérfræðingar lenda iðulega í að dæma umsagnir samstarfsmanna sinna, samkeppnisaðila sinna eða tengdra aðila. Í litlu samfélagi er vonlaust að finna aðila sem eru alveg óháðir nokkrum umsækjendum. Það ætlar enginn neinum að vísvindandi láta slíkt hafa áhrif á sig – en möguleikarnir eru fyrir hendi og að slík tengsl geti haft jákvæð eða neikvæð áhrif á umsóknirnar.

Næsti hluti snýr að stjórninni, en hún fær afhentan lista frá fagráðinu og er svo sjálf alveg óháð því mati og getur í raun kosið að hafna því alfarið, kalla til frekari sérfræðinga eða bara gera nákvæmlega það sem hún vill. Það er alls ekki hægt að sjá á opinberum gögnum hvernig matið fór fram í stjórn. Upplýsingar um hvort stjórnin fór algerlega röðun fagráðs eða hvort stjórn tók sjálfstæðar ákvarðanir eru ekki upplýstar, ekki heldur hvaða forsendur voru lagðar til grundvallar þeim ákvörðunum sem voru teknar í stjórn. Á hverju ári eru sögusagnir um að verkefni sem hafi fengið glimrandi dóma fagráða hafi verið felld í stjórn en auðvitað veit enginn hvort þetta er satt nema sjálf stjórnin sem er bundin trúnaði.

Raunar er ekkert birt opinberlega nema þau einföldu gögn sem má lesa í fréttatilkynningum umsóknaraðilar vita lítið sem ekkert um stöðu sína miðað við aðra umsækjendur.

Hérna eru nokkur atriði sem hægt væri að skoða til að bæta ferlið:

  • Toppumsækjendur þurfi að kynna og selja hugmyndir sínar fyrir framan panel sem spyr erfiðu spurninganna, hlutir geta litið vel út á blaði og í Excel en framkvæmdin getur verið önnur,
  • Rannís bjóði upp á miklu betri aðstoð hvernig á að sækja um,
  • fá óháða erlenda aðila til að meta umsóknir – (og láta skila umsóknum á ensku),
  • birta lista með öllum umsóknum, ásamt mati á þeim og upplýsingar um röðun frá fagráðunum,
  • birta ásamt öllum fylgiskjölum þær umsóknir sem fengu opinberan styrk (ekki bara úrdrátt),
  • stjórn geri grein fyrir því ef hún ákveður að velja önnur verkefni en samkvæmt röðun fagráða,
  • aðgengi um framgang styrktra verkefna sé opið og hægt sé að skoða árangur á meðan á ferlinu stendur.

Stærsti ókostur sjóðsins er ekki að það séu einhverjir refir „stela“ fé frá sprotunum, heldur að ferlið er ekki gagnsætt og umsækjendur sem eru að stíga sín fyrstu skref vita ekki hvað þeir eiga að gera. Um leið og það er farið að birta öll gögn, hjálpa byrjendum að skrifa góðar umsóknir má ná meira jafnræði á milli aðila. Menn eiga ekkert að þurfa að fela í þessu ferli, hvorki þeir sem fá styrkinn né þeir sem eru að úthluta. Það er fullkomlega eðlileg krafa að allar upplýsingar liggi á borðinu um hvernig skattpeningum er varið og á hvaða forsendum.

Latest posts by Tómas Hafliðason (see all)

Tómas Hafliðason skrifar

Höfundur hefur skrifað á Deigluna frá árinu 2002. Höfundur er verkfræðingur frá Háskóla Íslands og rekur eigið fyrirtæki.