Stjörnustríð um Bessastaði

Gengið verður til kosninga um embætti forseta Íslands nú í vor. Margir eru tilkallaðir, fjöldamargir hafa gefið sig fram en ekki er ljóst með hverjum þeirra mátturinn mun halla þann 25 júní í sumar. Reyndar mun hugur flestra íslendinga snúa að knattspyrnu þar sem Ísland leikur lokaleik sinn í riðlakeppni EM gegn Austurríki á Stade de France í París þann 22. júní.

Starf forseta Íslands er áhugavert svo ekki sé meira sagt. Forsetinn þénar meira en 2 milljónir á mánuði í laun. Hann býr leigulaust á veglegu sveitasetri og hefur þar bæði þjón og matráð. Hann ferðast í 2-3 mánuði á ári í embættiserindum og er þá í fæði og uppihaldi af bestu gerð. Á meðal helstu starfsskyldna hans er að halda veglegar veislur og flytja vandaðar ræður. Þetta breyttist aðeins þegar forsetinn tók upp á því að synja lögum og vísa í þjóðaratkvæðagreiðslur.

Forseti á nú að meta mátt þjóðfélagsumræðunnar og koma jafnvægi á máttinn ef átök þings og þjóðar fara úr böndum. Það er erfitt að átta sig á því fyrirfram hvenær mátturinn þarfnast jafnvægis. Þannig valda stórir alþjóðlegir samningar sem hafa fjármálalegar skuldbindingar miklu umróti en einnig lög um eignahald á fjölmiðlum. Rúmlega 55.000 undirskriftir bárust vegna makrílfrumvarps síðastliðið sumar en mátturinn var þó stilltur.

Eftir marga sigra í gegnum tíðina var það mat mjög margra að ef sitjandi forseti ætlaði sér að halda áfram þá yrði mjög erfitt að sigra hann. Þegar hann tilkynnti að hann myndi draga sig í hlé þá fóru margir að hugsa sinn gang og eru nú sex aðilar búnir að gefa upp að þeir séu í framboði einungis þremur dögum eftir tilkynninguna.

Til viðbótar við þá sem þegar hafa látið vita af framboði sínu má ætla að það eigi þó nokkrir eftir að gefa sig fram. Framboðsfrestur um embættis líkur ekki fyrr en rúmum mánuði fyrir kosningar eða 21. maí.

Það hefur sýnt sig í kosningum á Íslandi undanfarin ár að það er slæmt að mæta of snemma í boðið. Þannig var Þóra Arnórsdóttir með mjög gott fylgi framan af en Ólafur Ragnar hélt sig til hlés þar til hann mætti í viðtal á Sprengisandi þann 13. maí sem var sex vikum fyrir kosningar.  Besti flokkurinn með Obi-Wan Gnarr í broddi fylkingar jók fylgi sitt vikulega og náði sinni hæstu mælingu viku fyrir kosningarnar.

Vandinn við að bjóða sig fram seint er að það er ekki nægur tími til þess að auglýsa sig og sín verk. Því verða frambjóðendur sem koma síðla til leiks að vera vel kynntar fyrir og verður jafnvel löngu byrjað að tala um þá með embættið í huga.

Með hliðsjón af því hversu öflugt tæki synjunarvald forsetans er orðið þá verður komandi vor áhugavert fyrir stjórnmálafíkla í fráhvarfi eftir að hafa árið 2015 gengið í gegnum fyrsta kosningalausa árið í langan tíma. Það er ljóst að það verður boðið upp á tár, bros og takkaskó í sumar.

Latest posts by Óli Örn Eiríksson (see all)

Óli Örn Eiríksson skrifar

Óli Örn hóf að skrifa á Deigluna í september 2004.