Það er njósnað um þig

Fyrir nokkrum mánuðum kom í ljós að kínverskt fyrirtæki hafði safnað saman upplýsingum um milljónir manna, þar af nokkur þúsund Íslendinga. Líklegast var um að ræða anga af kínversku leyniþjónustunni. Reynt var að gera stórfrétt úr þessu en helsta fréttin var samt að það væri frétt að leyniþjónustur njósnuðu um fólk. Það er talið að leyniþjónustur njósni um tæplega 90% einstaklinga á netinu

Fyrir nokkrum mánuðum kom í ljós að kínverskt fyrirtæki hafði safnað saman upplýsingum um milljónir manna, þar af nokkur þúsund Íslendinga. Líklegast var um að ræða anga af kínversku leyniþjónustunni. Þegar upplýsingarnar sem láku eru skoðaðar kemur í ljós að þarna er allskonar fólk úr öllum þjóðfélagshópum og upplýsingarnar sem þar var að finna voru frekar ómerkilegar. Raunar hefði unglingur með smá tölvuþekkingu getað skrapað þessu saman og það þurfti ekki leyniþjónustu til þess. Reynt var að gera stórfrétt úr þessu en helsta fréttin var samt að það væri frétt að leyniþjónustur njósnuðu um fólk. Það er talið að leyniþjónustur njósni um tæplega 90% einstaklinga á netinu – og að öllum líkindum einnig þig.

Aldrei hefur verið auðveldara að fylgjast með okkur. Við skiljum sjálf eftir okkur spor á opnum og hálfopnum vefsíðum og samfélagsmiðlum. Upplýsingar sem okkur finnst ekki ýkja merkilegar er þó hægt að nota til að púsla saman prófíl af okkur. Stolnir reikningar, gervi prófílar, skoðanakannanir, öpp, leikir og opnar upplýsingar er hægt að nota til að skoða hverjir eru vinir okkar, hvað við skrifum, í hvaða hópum við erum, hvað við lækum og annað sem við gerum á samfélagsmiðlum. Sérhæfð forrit tengja svo saman ólíka miðla og reyna að para saman við réttan einstakling, þannig að t.d. þessi skrif verði tengd við mig en ekki nafna minn.

Það hversu auðvelt er að afla upplýsinganna og vinna úr þeim, gerir það að verkum að nánast allar leyniþjónustur nota þetta í einhverjum mæli. Innkoma gervigreindar gjörbreytir vinnunni. Það þarf ekki lengur að vera með fólk í vinnu við að greina upplýsingar, skrifa skýrslur og prenta út og setja í skjalaskáp – þar sem gögnin rykfalla. Greining er al-sjálfvirk, þar sem hver og einn er metinn og teknar sjálfvirkar ákvarðanir hvort viðkomandi sé þess virði að fylgjast með honum og þá hversu mikið. Hver einstaklingur sem er bætt við í eftirlit hefur í för með sér lítinn auka kostnað og því verða það oft fleiri en færri sem falla undir þetta eftirlit.

Yfirlýstur tilgangur þessara njósna er að verið sé að fylgjast með væntanlegum hryðjuverkamönnum eða glæpamönnum. Raunin hefur þó verið að verið er að fylgjast með miklu fleirum en nauðsynlegt er. Oft er verið að nota þessar upplýsingar í allt öðrum tilgangi en gefið er upp opinberlega. Augljósasta dæmið eru forsetakosningarnar í Bandaríkjunum árið 2016, þar sem falsfréttum var haldið að ákveðnum einstaklingum og búnir til bergmálshellar til að hafa áhrif á kosningarnar. Í öðrum tilfellum hefur þetta verið notað til að safna saman upplýsingum um fyrirtæki frekar en einstaklinga (iðnaðarnjósnir) og að lokum hefur þetta orðið ein helsta gjaldeyrisöflun Norður-Kóreu. Þetta eru bara nokkur dæmi um hvernig þessar upplýsingar eru notaðar.

Ljóst má vera njósnastofnanir ríkja nota öll þau tól þeim stendur til boða – löglega eða stundum jafnvel ólöglegum. Hér var fjallað um lítið brot af rafrænu eftirliti sem stærri njósnastofnunum stendur til boða. Svona rafrænt eftirlit getur átt við öll rafræn samskipti, símtöl, staðsetningar, hljóð og myndir úr okkar eigin tækjum.

Líklega er eina leiðin til að komast hjá þessu að slökkva á öllum fjarskiptum og halda til fjalla. Það ætti að minnsta kosti ekki að vera frétt að verið sé að njósna um Íslendinga. Öllum má vera ljóst að leyniþjónustur munu reyna að komast yfir upplýsingar hvar sem þær er að finna. Í flestum tilfellum hefur þetta enga þýðingu fyrir okkur. Við þurfum hins vegar að vera meðvituð um hvaða upplýsingum við deilum og hvernig hægt er að nota þær. Það eru nefnilega ekki bara njósnastofnanir sem vilja notfæra sér þessar upplýsingar, raunverulegir glæpamenn hafa áhuga á þeim líka.

Latest posts by Tómas Hafliðason (see all)

Tómas Hafliðason skrifar

Höfundur hefur skrifað á Deigluna frá árinu 2002. Höfundur er verkfræðingur frá Háskóla Íslands og rekur eigið fyrirtæki.