Af hverju eru svona fáar konur „self made“ milljarðamæringar?

Í bókinni The Rich – From slaves to super yacts, a 2000 year history e. John Kampfner er engin kona nefnd á nafn sem sjálfsskapaður milljarðamæringur.

Allar konur sem eru nefndar í þessari bók fengu auð sinn í gegnum hjónaband eða arf.

Fyrir þessu eru nokkrar skýringar en sú einfaldasta stafar meðal annars af því að konur fara mánaðarlega á blæðingar (sem standa í sirka viku), ganga með og ala börn.

Áður en íbúfen, dömubindi og túrtappar komu til sögunnar var sannarlega ekkert grín að fara á túr. Þið getið rétt ímyndað ykkur.

Og svo endalausar meðgöngur. Fólk gerir ekki mikið annað með líkamann á sér, hormóna og heila undirlagða til slíkra starfa meira eða minna allt árið – og svo bætast börnin við. Uppeldisstarfið.

Betty Grable, Lauren Bacall og Marilyn Monroe í myndinni How to marry a millionaire (1953). Þessar píur ætluðu sér ekkert að fá góða hugmynd og verða ríkar sjálfar, þær vildu bara ríka karla... enda var ekki búið að finna pilluna upp þegar þetta handrit var skrifað.
Betty Grable, Lauren Bacall og Marilyn Monroe í myndinni How to marry a millionaire (1953). Þessar píur ætluðu sér ekkert að fá góða hugmynd og verða ríkar sjálfar, þær vildu bara ríka karla… enda var ekki búið að finna pilluna upp þegar þetta handrit var skrifað.

Árið 1960 tóku þessi líffræðilegu örlög konunnar dásamlegan viðsnúning þegar p-pillan kom til sögunnar sem hentug getnaðarvörn fyrir konur. Nú áttu konur sig almenninlega sjálfar.

Á nýjum lista Forbes yfir ríkustu konur heims eru aðeins 29 af 197 kven-milljarðamæringum „self made“ eins og það kallast en þeim fjölgar í þeim löndum og menningarheimum þar sem kvenfrelsi er í heiðri haft. Það er blessun. 

120 milljón fátækar konur á pilluna

Melinda Gates, ein allra ríkasta kona jarðar, (eiginkona Bill Gates) hefur nú á stefnuskrá sinni að útvega um 120 milljón konum í fátækari löndum aðgengi að getnaðarvörnum.

Þessari tölu vill hún ná fyrir árið 2020. Göfugra markmið hef ég ekki heyrt um.

Barnungar mæður komast jú ekki mikið lengra í lífinu með krakka til að sjá fyrir. Með þessu fá sumar þeirra jafnframt tækifæri til að mennta sig og koma sér annað í lífinu. Og ekki bara barnungar mæður, – allar konur sem geta notað getnaðarvarnir fá önnur tækifæri með líf sitt. 

Getnaðarvarnir hafa á síðustu rúmum 50 árum gefið stelpum og konum það frelsi sem þær þurfa til að láta aðra hæfileika en uppeldisfærni og umönnun njóta sín. Með fullri virðingu fyrir þeim hæfileikum en þeir eru best nýttir ef þeir fá að vera valkostur.

Við megum búast við að self-made kvenkyns milljarðamæringum á Forbes listanum fjölgi jafnt og þétt með árunum, svo framarlega sem við stöndum áfram stífan vörð um frelsi kvenna.

Áfram frumkvöðlakonur! Áfram þú moldríka frú Melinda Gates! Áfram kvenfrelsi!

pillanaftur
Að vera á pillunni þótti mikil jaðarhegðun til að byrja með og einhleypar konur á pillunni voru stimplaðar lauslátar fyrir vikið. Það leggst ekki alltaf vel í menn að konur eigi sig alveg sjálfar. Sérstaklega ekki hjá þeim þjóðum þar sem eingyðingstrú  (feðraveldið) ræður ríkjum.

 

PS. Angela Merkel á engin börn. Ekki Oprah heldur.

Margrét Hugrún skrifar

Margrét byrjaði að blogga árið 2002 og hefur verið óstöðvandi á þessu sviði allar götur síðan. Hún starfaði lengi sem blaðakona en þar áður var hún til dæmis plötusnúður og útvarpskona. Nú brasar hún í PR, vef og markaðsmálum hverskonar.