Hvernig ganga 75% borgaralaunin?

Ég held aldrei farið leynt með það að ég er ekki sérlegur stuðningsmaður borgaralauna. Þau eru dýrt úrræði og skapa ekki rétta hvata fyrir einstaklinga og samfélög. Stærsta hættan er að þau verði notuð í umræðu um ákvarðanatöku til að skerða frelsi og réttindi einstaklinga. Ef maður borgar fólki, þá getur maður nefnilega gert kröfur.

Spólum fram í tímann. Búið er, með einhverjum göldrum peningaprentunar að tryggja öllum 250 þúsund á mánuði óháð öllu. Námsmenn þurfa ekki námslán eða styrki, eru bara á borgaralaunum. Detta úr námi. Á borgaralaunum. Lenda í rugli. Á borgaralaunum. Ná sér upp úr ruglinu. Á borgaralaunum. Fara í nám til útlanda. Á borgaralaunum. Ílengjast og setjast að. Og hvað… á íslenskum borgaralaunum?

Augljóslega ættu ekki allir jarðarbúar rétt á íslenskum borgaralaunum. Einhvern veginn þyrfti að afmarka hópinn. Hann yrði einhvern veginn afmarkaður við búsetu- og ríkisborgararétt. Með þeim afleiðingum að Íslendingar myndu vera tregari til að flytja til útlanda og tregari til að fá útlendinga til að flytja til Íslands. Hvorugt er eftirsóknarvert.

Ísraelski rithöfundurinn Yuval Nóah Hararí hefur verið stuðningsmaður borgaralauna og nefnt í verkum sínum dæmi um hóp sem hefur í reynd verið á slíkum launum og að hans mati gengið fínt. Það eru ákveðnir strangtrúaðir gyðingar í Ísrael sem fá greitt fyrir að biðja og velta fyrir sér ritningunni. Þetta er sem sagt hópur sem tekur ekki þátt í atvinnulífinu (konurnar gera það stundum), kýs alltaf mestu harðhausana inn í Knessedinn, vill sýna mestu hörkuna í deilum við nágranna sína, en hefur löngum ekki gegnt herþjónustu sjálfur. 

En viti menn, margir þessara manna sem fá pening fyrir ekki neitt eru víst bara helvíti ánægðir með lífið! Magnað.

Það má þó viðurkenna: hugmyndin um að gefa öllum pening hefur ekki aðeins hreina galla frá sjónarhorni hinnar fögru hugmyndafræði kapitalismans. Hún felur til dæmis í sér viðurkenningu á því að peningar eru til og eru sniðugt fyrirbæri sem er gaman fyrir fólk að hafa. Þannig er hún skárri heldur en sú hugmynd peningar séu vondir og að allir eiga einfaldlega alltaf að fá allt frítt. Það er þó talsvert verri hugmynd. 

En það er hins vegar ekki þannig að talsmenn borgaralauna tali gjarnan jafnframt fyrir því að færri hlutir myndu vera ókeypis svo fólk geti notað borgaralaunin sín til að taka sjálft ákvörðun um val t.d. á alls kyns grunnþjónustu. Oftar en ekki fylgir það alls ekki með í pakkanum. Hugmyndin um borgaralaun felur það þannig í sér að ríkið taki til sín meira til að dreifa meiru til allra, óháð því hvort þeir þurfi peninginn eða ekki.

Ég hef síðan enga trú á því að fólk færi ekki að gera kröfur hvort til annars þegar allir væru komnir á laun hjá ríkinu. Við höfum fengið smá forsmekk af því með 75% bótaleiðina sem nú hefur verið sett í gang. Margir eru ansi fljóti að lýsa skoðun sinni á því hvernig fólk og fyrirtæki nýta sér þetta úrræði. Af hverju höldum við að það yrði eitthvað öðruvísi ef úrræðið væri dýrara og gilti um enn fleiri?

Auðvitað yrði það ekki þannig. Allir myndu hafa enn meiri skoðun a því hvað allir aðrir eru að gera við líf sitt. Með þeim rökum að hádegisverðurinn væri nú kannski orðinn ókeypis, en hann væri það svo sannarlega ekki án skilyrða.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.