Foreldramótin

Nú stendur yfir vertíð fótboltamóta barna og ungmenna víðs vegar um landið. Enginn – bókstaflega enginn – fer varhluta af því mótshaldi og öllu sem því fylgir, hvort sem hann eða hún tengist mótinu með einhverjum hætti eða ekki. Og síst er við blessuð börnin að sakast í því fári öllu saman.

Nú stendur yfir vertíð fótboltamóta barna og ungmenna víðs vegar um landið. Enginn – bókstaflega enginn – fer varhluta af því mótshaldi og öllu sem því fylgir, hvort sem hann eða hún tengist mótinu með einhverjum hætti eða ekki. Og síst er við blessuð börnin að sakast í því fári öllu saman.

Fótboltamót fyrir yngstu flokkanna eru um það bil fjörutíu ára gamalt fyrirbæri. Fyrst slíkra móta var Tommamótið í Eyjum og Pollamót Eimskips fylgdi svo í kjölfarið. Þessi mót mörkuðu þau vatnaskil að þau sóttu lið frá flestum knattspyrnufélögum landsins. Fleiri mót ruddu sér til rúms, bæði fyrir stráka og stelpur.

Fyrir flesta sem tóku þátt í þessum mótum voru þau mikið ævintýri. Að jafnaði fylgdu liðunum einn til tveir þjálfarar og svo fararstjórar, vanalega hjón úr foreldrahópnum. Annars voru strákarnir, og síðar líka stelpurnar, svo til á eigin vegum, saman sem hópur en þó hver og einn með sjálfan sig. Auðvitað var maður búinn til fararinnar, nestaður upp og tilheyrandi fatnaði pakkað en þar með lauk afskiptum foreldra af ferðalaginu og mótshaldinu.

Fyrir suma var þetta fyrsta ferðalagið án foreldra eða nákominna skyldmenna, þar sem dvalið var dögum saman á framandi stað á fjarri heimahögum. Ferðalagið, dvölin á staðnum og keppnin sem háð var rennur fæstum úr minni, jafnvel áratugum síðar. Það var ekki síst félagsskapurinn og samveran með félögunum sem er minnistæð og áhrifarík fyrir unga menn og konur.

Þegar heim var komið var maður reynslunni ríkari og hafði frá mörgu að segja sem á dagana hafði drifið. Foreldrar og forráðamenn voru áhugasamir að hlusta á frásögnina, af ferðalaginu, leikjunum, gengi liðsins, aðbúnaði og öðru því sem upp á hafði komið. Að rifja það upp í frásögn dýpkaði reynsluna, þótt ýmislegt hafi verið látt kyrrt liggja í frásögninni, eins og gengur og gerist.

Upplifunin og reynslan var drengjanna og stúlknanna. Þetta var mótið þeirra. Þetta var ferðalagið þeirra.

Í dag er þessu öðruvísi farið. Þátttaka foreldra umlykur þessi mót eins og þoka færeyska fjallatinda. Ekkert gerist nema undir vökulu auga foreldra, oftast reyndar fyrir þeirra tilstilli og það sem fólk heldur að sé aðdáunarvert frumkvæði og dugnaður. Upplifunin af mótinu er foreldranna og þar skiptir mestu auðvitað samanburður við upplifun annarra foreldra af mótshaldinu, og að sjálfsögðu mismunandi frammistöðu í nestis- og aðfangamálum, stuðningsmannalátum og öðru því sem foreldrar taka sér fyrir hendur á þessum mótum.

Engar sögur eru sagðar við eldhúsborðið heima að móti lokni, í það minnsta hafa börnin ekki frá neinu að segja sem bætir nokkru við það sem foreldrarnir upplifðu og hafa nú þegar skráð af kappi og samviskusemi á alla helstu samfélagsmiðla. Börnin upplifa mótið í gegnum foreldra sína en ekki öfugt.

Börn eru einstaklingar, þau eiga að njóta frelsis og axla ábyrgð að sama marki. Foreldrar eiga engan rétt á því að gera æsku barnanna að upplifunarorgíu fyrir sjálfa sig.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.