Sumarið er tíminn

Íslenska sumarið er engu líkt og það er ekki að undra að það íslenska skáld er vandfundið sem ekki hefur gert sumarið að yrkisefni sínu. Kannski er það hið viðkvæma eðli þess og náttúra, það vekur með manni væntingar alla dimmu og köldu mánuðina, tilhlökkun sem jafnast eiginlega helst á við tælingarmátt undurfagurra og þokkafullra kvenna.

Íslenska sumarið er engu líkt og það er ekki að undra að það íslenska skáld er vandfundið sem ekki hefur gert sumarið að yrkisefni sínu. Kannski er það hið viðkvæma eðli þess og náttúra, það vekur með manni væntingar alla dimmu og köldu mánuðina, tilhlökkun sem jafnast eiginlega helst á við tælingarmátt undurfagurra og þokkafullra kvenna. Svo lætur það líka eiginlega alltaf bíða eftir sér, gefur manni forsmekkinn og dregur sig í hlé áður en það allt í einu birtist manni í allri sinni dýrð og kemur manni alltaf jafn mikið að óvörum.

Sumarið er að mörgu leyti eins og afmæli, það er áminning um straum tímans. Það minnir líka meira á veislu en aðrar árstíðir. Það þarf að undirbúa sumið og svo þarf að taka til eftir sumarið. Eftir sumarið fer lífið aftur í sinn vanagang, eins og að veislu lokinni, veruleikinn tekur við, veturinn. Og eins og góð veisla, þá líður sumarið alltof fljótt.

Undanfarna tíu daga hefur daginn tekið að stytta á nýjan leik og það mun halda áfram í tæplega sex mánuði í viðbót. Sumarið er þannig á einhvern hátt á undanhaldi áður en það nær að springa út. Júlí er kannski eini mánuður ársins þar sem við getum gengið að sumrinu vísu. Vorið nær oft fram í júní og svo getur haustað í ágúst.

Sumarið er tíminn, af því að í sumrinu birtist tíminn og takmörk hans fyrir hvert og eitt okkar verða svo áþreifanleg.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.