Sum börn sem gestir koma

Afskipti ríkisins af málum einstaklinga eru sjaldnast til bóta, nema þá helst ef vera skyldi þegar þegar ríkið gegnir því frumhlutverki sínu að verja einn gegn óréttmætum og ólöglegum ágangi annars. Á nýafstöðnu þingi stóð eitt mál upp úr þegar kemur að því að beita ríkisvaldinu til góðs. Málið sjálft lét ekki mikið yfir sér, það fólst í fyrirspurn til félagsmálaráðherra um sorgarorlof foreldra.

„Varla er til verri til­hugs­un hjá for­eldr­um en að missa barnið sitt. Því verður áfallið mikið þegar það ger­ist. Við vit­um að fólk vinn­ur á ólík­an hátt úr áföll­um, en fyrstu mánuðirn­ir, jafn­vel fyrsta árið, ráða miklu fyr­ir framtíðina, hvernig geng­ur að vinna úr sorg­inni og áfall­inu. Sum­ir þurfa að leita sér aðstoðar og eru kannski lítt vinnu­fær­ir í nokk­urn tíma, sem er okk­ur öll­um mjög skilj­an­legt. Þegar svo stend­ur á er mjög baga­legt í því ferli að syrgj­end­ur, eða for­eldr­arn­ir í þessu til­viki, missi tekj­ur sín­ar að hluta eða öllu leyti.“

Svona komst Brynjar Níelsson, alþingismaður, að orði í fyrirspurn sinni til ráðherra úr ræðustól Alþingis og spurði hvort að í gangi væri ein­hver vinna eða frum­varp um sorg­ar­or­lof for­eldra sem missa börn yngri en 18 ára.

Við ætlum ríkisvaldinu eða samfélaginu almennt of stórt hlutverk á of mörgum sviðum. Sú þróun verður sífellt meira áberandi að ríkisvaldinu er beitt í þágu þeirra sem jafnvel minnst þurfa á því að halda. Fyrirspurn Brynjars og sú tilætlun sem í henni fólst var ánægjuleg undantekning frá þessari þróun. Hafi samfélagið einhverja skyldu, einhver frumskyldu að frátöldum landvörnum og löggæslu, þá er það stuðningur við þá sem verða fyrir hinum mesta missi.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.