1904: Næturfundur á Þingi

Þann 19. júní 1904 var spennustigið hátt á Alþingi Íslendinga. Þetta var föstudagur. Mikið var í húfi. Þingmenn þeyttust milli herbergja í anddyri gamla þingsins, og fyrsti íslenski ráðherrann Hannes Hafstein, var mættur í húsið, tilbúinn til að miðla málum. Ef illa tækist til við lagasetninguna var fullkominn lagaleg óvissa framundan í þeim málaflokki sem lá undir.

Þannig var nefnilega málum háttað að fyrsti bíllinn – Thomsen bíllinn var væntanlegur til landsins næsta dag. Þetta vissu þingmenn og þurftu því að hafa hraðar hendur við að fullklára umferðarlögin áður en hjólin snertu bryggjuna. Annars væri lagaleg martröð framundan. Hve hratt mættu bílar keyra? Ef bíll myndi keyra á, við hvern væri að sakast? Eigandann, framleiðandann, ríkið? Það væri ómögulegt að segja.

Og ef tveir bílar mættust á gatnamótum, hvor ætti þá réttinn? Um þetta var harkalega deilt. Margir þeir þingmenn töldu rétt að væri að merkja með sérstökum merkjum hvor bíllinn ætti að bíða eftir hinum. Sumir töldu rétt að reisa ætti jafnarma þríhyrninga á þeim stöðum þar sem bíða þurfti, og fór Klemens Jónsson, þingmaður Eyfirðinga þeirra fremstur í flokki. Gegn þessu talaði Magnús Stephensen, þingmaður Rangæinga sem taldi betur fara á því að reisa tígla á þeim stöðum þar sem umferðin ætti forgang.

Sættir náðust í málinu síðla kvölds og fallist á að nota aðallega þríhyrninginn, en að hann skyldi vera á hvolfi. Þannig varð merkið “biðskylda” til.

Mikið var deilt um tvöföld hringtorg, og þær reglur sem þar áttu að gilda. Deilurnar mótuðust mjög af því að engin slík hringtorg voru til í landinu. Skopleg sena átti sér stað um miðjan dag þegar Skúli Thoroddsen, þingmaður Norður-Ísfirðinga leiddi hóp þingmanna út í Alþingisgarðinn þar sem reynt var að leika mögulega atburði á tvöföldum hringtorgum. Valtýr Guðmundsson, lenti gjarnan á innri hring en komst aldrei út úr hringtorginu fyrir frekju Heimastjórnarmanna á ytri hring. Var þá ákveðið að innri hringur skyldi njóta forgangs í hringtorgum hér á landi. Sumir telja að fyrsta viðbygging Alþingishússins, Kringlan, sé reist til minningar um þessa atburði.

***

Grín. Þetta gerðist aldrei. Enginn þingfundur var á þessu sumri og Thomsen bíllinn kom til landsins inn í fullkomið lagalegt umferðar-tómarúm. Síðan þá hafa umferðarreglurnar mótast, með breyttri tækni og eftir þörfum mannanna. Og þannig er það um öll hin lögin líka. Lög eru sett til að bregðast við einhverju sem breytist í samfélaginu og einhver telur þörf að setja lög um. Nýir hlutir eru oft á gráu svæði.

Að því leyti er það það rétt að það afnema bann við einhverju sem lengi hefur verið bannað skapi lagalega óvissu. Það gerir það að einhverju leyti. En það er bara ekki þannig að lagaleg óvissa sé eitthvað við höfum aldrei upplifað áður. Það ríkir lagaleg óvissa um allt sem við höfum ekki fattað upp á enn þá. 

Og í einhverjum tilfellum er lagalega óvissan skárri en lagalega vissan. Sér í lagi ef vissan er einfaldlega ekki að virka.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.