Friðargarðurinn

Breytingar á stjórnarskránni eru í farvatninu. Svo langt er málið komið að almenningur getur nú sagt sína skoðun á frumvarpi til breytinga á stjórnskipunarlögum í samráðsgátt stjórnvalda. Við fyrstu sýn virðist vel hafa tekist til og ræður þar eflaust miklu að yfirvöld fengu til verksins Skúla Magnússon, héraðsdómara, sem að öðrum ólöstuðum er einn okkar besti stjórnskipunarspekingur.

Stjórnarskránni hefur verið kennt um flest það sem aflaga hefur farið síðustu árin hér á landi. Varla kemur upp sú samfélagslega misfella að ekki sé kallað eftir breytingum á stjórnarskrá. Skrípaleikurinn í kringum hið svokallaða stjórnlagaráð var ákveðinn hápunktur þessarar bylgju. Í þeirri vinnu endurspeglaðist yfirgripsmikill og djúpstæður misskilningur á eðli stjórnlaga og sem betur fer tókst að afstýra megninu af þeirri vitleysu.

Stjórnlög eiga að standast tímans tönn og þau eiga einmitt að standast tímabundnar hræringar í samfélaginu. Það er eðli þeirra og í því felst mikilvægi þeirra. Breytingar á grundvallarlögum, lögum laganna, verða að gerast hægt og um slíkar breytingar verður að vera sátt og samstaða.

Það er merkilegt að það er sama fólkið sem má ekki heyra minnst á það, að lýðræðislegur þingmeirihluti beiti atkvæðamagni sínu til að setja almenn lög í samræmi við stjórnarstefnu og niðurstöðu kosninga, og telur nauðsynlegt að gera breytingar á grundvallarlögum í bullandi ágreiningi. Almennum lögum er alltaf hægt að breyta og það er nauðsynlegt lýðræðinu að hægt sé að hrinda stjórnarstefnu í framkvæmd með lagasetningu hverju sinni – það er beinlínis andstætt gangverki lýðræðisins að koma í veg fyrir meirihlutavilja, jafnvel þótt notuð séu rök um samráðs- og samstöðuleysi.

Öðru máli gegnir um grundvallarlögin. Þau eru friðargarðurinn, þar sem pólitískir andstæðingar skilja vopnin eftir fyrir utan og hefja sig upp úr dægurþrasinu. Fyrirliggjandi tillögur eru ekki óskalisti eins eða neins, þær eru niðurstaða úr göngutúr um friðargarðinn, eins og þær eiga að vera.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.