Stjórnmál virka

Fyrir tveimur árum lauk ég meistaranámi í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands og fjallaði meistararitgerðin mín um plastmengun í hafi. Þar skoðaði ég til hvaða stjórntækja íslensk stjórnvöld gátu gripið þá þegar til að bregðast við vandanum. Plastmengun hafsins er málefni sem Íslendingar hefur skiljanlega mikinn áhuga á enda fiskveiðiþjóð og fréttir um plastmengun í hafi skora jafnan hátt á listum vefmiðlanna yfir mest lesnu fréttirnar.

Fyrir tveimur árum lauk ég meistaranámi í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands og fjallaði meistararitgerðin mín um plastmengun í hafi. Þar skoðaði ég til hvaða stjórntækja íslensk stjórnvöld gátu gripið þá þegar til að bregðast við vandanum. Plastmengun hafsins er málefni sem Íslendingar hefur skiljanlega mikinn áhuga á enda fiskveiðiþjóð og fréttir um plastmengun í hafi skora jafnan hátt á listum vefmiðlanna yfir mest lesnu fréttirnar. Sennilega þess vegna sýndu fjölmiðlar ritgerð minni nokkurn áhuga þegar hún birtist fyrst á Skemmunni.

Plastmengun hafsins er alvarlegt umhverfisvandamál af mannavöldum sem ég fékk áhuga á þegar ég starfaði sem upplýsingafulltrúi og teymisstjóri hjá Umhverfisstofnun á árunum 2014–2016. Plast kom fram sem efni um aldamótin 1900 og leysti ýmis önnur efni af hólmi, s.s. tré, bein og önnur efni. Meginuppistaðan í framleiðslu plasts er mikil olía en áætlað er að um tvö kíló af olíu þurfi til að framleiða eitt kíló af plasti. Olía er takmörkuð auðlind og því umhugsunarefni að svo mikið af auðlindinni sé notað í framleiðslu á efni sem er að mestu sóað eftir stutta notkun, oftast eitt skipti. Plast getur verið mjög gagnlegt enda er efnið endingargott og slitsterkt. Það getur því aldrei verið markmið stjórnvalda að koma í veg fyrir plastnotkun þar sem hún er skásti kostur. Plastsóun er annað. Skaðsemi plasts felst helst í offramleiðslu þess, einnota fjöldaframleiddu drasli sem megnar umhverfið og er óskynsamleg auðlindanýting. Eftir 1950 varð sprenging í framleiðslu á plasti sem hefur síðan vaxið ár frá ári og það er fyrst nú, á allra síðustu árum sem umræða hefur hafist um að draga úr henni. Þegar plast brotnar niður verður það að örplasti, sem er innan við 5mm að stærð, og það mengar bæði jarðveg og lífríki hafsins. Örplast hefur til dæmis fundist í ríkum mæli í kræklingi bæði við Íslandsstrendur og Noreg.

Það er mjög eðlileg tilfinning að finna til bjargarleysis þegar risavaxin vandamál á borð við mengun á heimsvísu blasa við. Breski félagsfræðingurinn Anthony Giddens fjallar um þetta fyrirbrigði í bók sinni The Politics of Climate Change sem kom út árið 2009. Þar rekur hann ýmis tækifæri og áskoranir sem tengjast baráttunni gegn loftslagsbreytingum og auðvelt er að heimfæra upp á plastmengun í hafi. Sama hversu oft okkur er sagt frá hættunum, til dæmis í fjölmiðlum, þá er erfitt að meðtaka þær því hætturnar virðast okkur óraunverulegar og í millitíðinni þurfum við að lifa okkar daglega lífi með öllu sem því fylgir og þrátt fyrir betri vitneskju er nærtækast að fresta því að takast á við vandann. Þessi klemma kallast þversögn Giddens (e. Giddens paradox) sem þýðir í rauninni að þar sem hættur á borð loftslagsbreytingar og plastmengun hafsins eru ekki aðkallandi eða sýnilegar í daglegu lífi fólks, þá munu fjölmargir sitja með hendur í skauti og aðhafast ekkert í málinu. Þessi bið þýðir hins vegar að þegar vandamálið verður bæði sýnilegt og aðkallandi, þá er orðið of seint að grípa til aðgerða.

Erum við þá dæmd til að fljóta sofandi að feigðarósi? Af því hvað maðurinn einn er agnarsmár andspænis ógn við heilu vistkerfin fannst mér ég hafa skilað mínu og gott betur með því að skrifa fína háskólaritgerð um plastmengun í hafi, ekki síst eftir að hún fékk umfjöllun í fjölmiðlum. Já, nú gátu aðrir með meiri völd en ég tekið á málinu. Eða það hélt ég. Fáeinum vikum eftir útskrift bauðst mér að taka sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2018. Ég fann strax að ég vildi ekki fara inn á stjórnmálavettvanginn bara til þess að vera þar. Lykilatriði var að finna erindið. Ég þurfti ekki að hugsa mig lengi um. Mig langaði til að draga úr plastmengun og vinna að málstað umhverfisins í bænum mínum. Með það fór ég á fund félaga minna í Sjálfstæðisflokknum án þess að vita nokkuð hvort áhugi okkar á þessum málum færi saman. Ég viðraði hugmyndir mínar, rökstuddi málið sem best ég gat og fékk glimrandi undirtektir. Í ljós kom að bæjarfulltrúar og aðrir frambjóðendur höfðu bæði áhuga og skilning á þessu og vildu gera enn betur í málefnum umhverfisins. Baráttan gegn plastmengun og hvers kyns sóun varð ekki bara að stefnumáli flokksins, sem sigraði í kosningunum, heldur náðum við samstöðu með minnihlutanum í bæjarstjórn um að standa sameiginlega að nýrri stefnu í þessu tilliti.

Ný stefna okkar í umhverfismálum „Garðabær gegn sóun” er nú í innleiðingu hjá forstöðumönnum en stefnan tekur til innkaupa og úrgangsmála og nær til alls reksturs á vegum bæjarins. Meginmarkmið stefnunnar „Garðabær gegn sóun” eru að auka flokkun sorps, samræma hana og draga úr sorpmagni. Miklu skiptir að draga úr plastmengun í rekstri sveitarfélagsins og stofnana á vegum þess, innleiða græna innkaupastefnu, fræða og virkja starfsfólk. Græn teymi verða skipuð í hverri stofnun sem hafa það hlutverk að fylgja eftir stefnunni og skulu að lágmarki tveir skipa hvert grænt teymi og vinna í samráði við yfirmenn og aðra sem málið varðar.

Það er virkilega ánægjuleg upplifun þegar manns hjartans mál fá góðar undirtektir og öðlast sitt eigið sjálfstæða líf því aðrir hafa sameinast um þau. Það er enginn agnarsmár sem hefur marga með sér í liði. Því er stundum haldið fram að stjórnmálin séu leið til að tefja mál og eyðileggja fremur en að leysa þau og greiða leiðina. Mín reynsla er að stjórnmál virka. Þau virka miklu oftar en ekki, þótt það fái ekki fyrirsagnir í fjölmiðlum. Þar sem fyrir liggur skýr sýn, samstarfsvilji og vinnusemi, góður rökstuðningur og skynsamleg nálgun verður alltaf leið til lausnar.

Latest posts by Guðfinnur Sigurvinsson (see all)

Guðfinnur Sigurvinsson skrifar

Guðfinnur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.