Friðsamleg og skipuleg valdaskipti

Enginn er stærri en liðið, er sagt í íþróttum—og enginn er stærri en embættið mætti einhver hvísla að Bandaríkjaforseta. Hvort hann myndi taka undir það er svo önnur saga.

Það besta við lýðræðið er ekki að það tryggi endilega alltaf að besta fólkið sé kjörið til að gegna embættum og trúnaðarstörfum. Á því finnst flestum vera miklir misbrestir. Helsti kosturinn er sá að hægt er að skipta kjörnum fulltrúum út á friðsamlegan og skipulegan hátt. Þessi eiginleiki lýðræðisins er gjarnan rifjaður upp í tengslum við kjör á forseta Bandaríkjanna. Hvenær sem af því verður, þá er enn von um að Donald Trump, haldi í heiðri þessa mikivægu hefð—lengi má manninn reyna.

Bandaríkin hafa einnig þá reglu um æðsta embætti sitt að takmarka við tvö kjörtímabil tímann sem einn maður má gegna embættinu. Þessi regla kemur meðal annars til af því að í bandarískum stjórnmálum var lengi vel djúpstæður skilningur á því að jafnvel þótt lýðræði væri óumdeild formregla þá gæti valdgírugum mönnum við vissar aðstæður tekist að afskræma það í þágu eigin dýrðar og valda. Þeir sem mótuðu leikreglur lýðræðisins höfðu góða þekkingu á reynslu Rómverja, sem í nokkur hundruð ár tókst að verja stofnanir lýðræðisins ágætlega gegn mannlegri tilhneigingu til þess að vilja viðhalda eigin valdastöðu. Enginn gat gegnt valdamestu embættunum í Róm nema í ákveðinn tíma, og ef verja þurfti Róm gegn aðsteðjandi ógn var mögulegt að útnefna einvald til að verja borgina, en sá mátti einungis ríkja þar til ógnin var afstaðin og mest í hálft ár. Einvaldinum var svo bannað að sækjast eftir embættum um langa hríð eftir valdatímann.

Reglan um að forseti megi bara sitja í tvö kjörtímabil er stjórnarskrárbundin regla en var lengst framan af sögu Bandaríkjanna skynsamleg hefð,mótuð af GeorgeWashington. Önnur mikilvæg regla, sem er óskráð, felst í því að sitjandi forseti horfist sem fyrst í augu við úrslit kosninga, játi ósigur ef svo ber undir, og hjálpi nýkjörnu forsetaefni að koma sér inn á málin áður ne formlega valdaskipti eiga sér stað, næstum þremur mánuðum eftir kosningar. Gott samstarf fráfarandi og tilvonandi valdhafa er ekki í þágu valdhafanna sjálfra, heldur til þess að tryggja hagsmuni þeirra sem málið snýst á endanum um; þegnana sem eiga heimtingu á að egó og eiginhagsmunir stjórnmálamannanna sjálfra þvælist ekki fyrir eðlilegum framgangi lýðræðisins.

En það er sama hvað öllum reglum líður—formlegum og óformlegum—þá liggur ákveðin grundvallarhugsun eins og rauður þráður í gegnum allt það sem snýr að valdaskiptum. Hún er sú að manninum sé eðlislægt að vilja viðhalda valdastöðu sinni og gildir líklega alla menn, jafnvel þá allra bestu. Og þegar um meingallað eintak eins og Donald Trump er að ræða, þá er kannski ekki mjög óvænt að honum reynist þungbært að láta friðsamlega af þeirri ábyrgð og völdum sem honum var trúað fyrir með sigri í kosningum fyrir 2016.

En það vissu margir vitsmunalega þroskaðri forverar hans—að völdin sem þeim voru falin tímabundið, voru ekki herfang þeirra heldur heilög skylda að taka við og láta af hendi af auðmýkt. Enginn er stærri en liðið, er sagt í íþróttum—og enginn er stærri en embættið mætti einhver hvísla að Bandaríkjaforseta. Hvort hann myndi taka undir það er svo önnur saga.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.