Íslenskir bankar og útlendingar

Fyrsta skrefið í einkavæðingu Íslandsbanka gekk sennilega betur fyrir sig en nokkur hafði þorað að vona. Tvennt vakti sérstaka athygli.

Fyrsta skrefið í einkavæðingu Íslandsbanka gekk sennilega betur fyrir sig en nokkur hafði þorað að vona. Tvennt vakti sérstaka athygli. Annars vegar hin breiða þátttaka almennings, en 24 þúsund fjárfestar skráðu sig fyrir hlut í útboðinu, og hins vegar aðkoma erlendra fagfjárfesta að útboðinu en þeir tóku tæplega þriðjung af þeim hlutabréfum sem í boði voru. Aðkoma alþjóðlegra fjárfesta eykur trúverðugleika einkavæðingarinnar og styrkir innlendan fjármálamarkað í gegnum fjölbreyttara eignarhald.

Íslensk stjórnvöld hafa í gegnum tíðina haft töluverðan áhuga að fá erlenda banka og fjárfesta inn í eigendahóp íslenskra banka. Starfshópur, sem stóð að Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið, taldi að aðkoma erlends banka að íslenskum banka myndi auka samkeppni á innlendum bankamarkaði, auka stöðugleika og minnka kerfisáhættu og draga úr hættu á krosseignartengslum í gegnum fjölbreyttara eignarhald. Lagði hópurinn m.a. til að Íslandsbanki yrði seldur til erlends banka.

Fyrsta íslenska fyrirtækið sem var skráð á opinberan hlutabréfamarkað var gamli Íslandsbanki (sá fyrsti af þremur!) sem var skráður í Kaupmannahöfn. Þótt bankinn hafi að nær öllu leyti verið í eigu Dana þá var stjórn bankans í raun og veru í höndum Íslendinga. Bankinn fór í þrot árið 1930 eftir að hafa glímt við mikla lausa- og eiginfjárerfiðleika vegna mikilla útlánatapa. Nærri 70 árum síðar gerðu þáverandi stjórnvöld árangurslausa tilraun til að fá sænska bankann SEB inn sem hluthafa að þriðjungshlut í gamla Landsbankanum. Erlendir fjárfestar voru vart sýnilegir sem í stóru viðskiptabönkunum á árunum fyrir hrun nema sem skuldabréfaeigendur. Síðar leit út fyrir að virtir erlendir bankar kæmu að einkavæðingu Búnaðarbankans á árunum 2002-03 en í ljós kom að þýski bankinn Hauck & Aufhäuser var í reynd aðeins kaupandi að nafninu til rétt eins og hans hátign Al-Thani í Kaupþingi rétt fyrir bankahrunið.

Fáeinum árum eftir fjármálahrunið höfðu kröfuhafar í Íslandsbanka uppi áform um að selja bankann í heilu lagi til erlendra fjárfesta. Sú tilraun dó drottni sínum áður en ríkið fékk bankann í heilu lagi eftir stöðugleikasamninganna. Aldrei hafa þó erlendir fjárfestar verið jafn umsvifamiklir í stórum kerfislægum íslenskum banka og þegar vogunarsjóðir og aðrir kröfuhafar úr Kaupþingi eignuðust Arion banka. Þegar Arion var svo skráður tvíhliða skráður sumarið 2018 eignuðust alþjóðlegir fjárfestar um 21% af þeim 30% hlut sem var í boði og því var í mesta lagi fjórðungur hlutafjár í bankanum á þeim tíma í eigu innlendra aðila. Vogunarsjóðir eru í eðli sínu engir langtímaeigendur og leitast við að hámarka ávinning á sem skemmstum tíma. Þeir tóku svo að losa um hlut sinn í bankanum eftir að kórónufaraldurinn skall á. Á fyrstu þremur mánuðum ársins seldu þeir yfir 30% hlut í bankanum fyrir rúma 60 milljarða króna og eiga erlendir aðilar lítið eftir í bankanum.

Nú þegar nokkrir alþjóðlegir fjárfestingasjóðir hafa fest kaup á hlutum í Íslandsbanka verður fróðlegt að sjá hvort þeir líti á bankann sem langtímaeign. Verður það að teljast frekar ólíklegt í ljósi sögunnar en eflaust gætu falist tækifæri í því fyrir þá að fylgja eftir frekari sölu á eignarhlut ríkisins. Enn eru 65% hlutafjár í örmum ríkisins.

Þessi sögulega yfirferð sýnir glöggt að fyrir utan Íslandsbanka gamla hafa erlendir fjárfestar verið lítt sýnilegir á innlendum bankamarkaði og hálfpartinn verið tilneyddir til þess að eiga banka eins og eignarhald vogunarsjóða á endurreistu bönkunum ber vitni um. Smæð fjármálakerfisins hefur eflaust skýrt áhugaleysi erlendra banka að koma til landsins á síðustu áratugum og eins hafa miklar hag- og gengissveiflur í gegnum árin, auk hinnar séríslensku skattlagningar á fjármálafyrirtæki, eitthvað haft um lítinn áhuga alþjóðlegra fjárfesta og fjármálafyrirtækja að segja. Í nágrannalöndum okkar eru erlendir fjárfestir umsvifamiklir innan fjármálageirans og væri óskandi að slíkt myndi einnig gerast hérlendis.   

Latest posts by Eggert Þór Aðalsteinsson (see all)