Páskar árið 2020

Fyrir framan hús í vesturbænum standa þrír stöplar sem minna á bryggjupolla. Á þeim standa orðin: KOMA – VERA – FARA

Þetta eru tilvistarlegar ábendingar. Við erum minnt á að hugleiða hvaðan við komum – hvar við erum stödd – og hvert við erum að fara. Auðvitað er alltaf gott að leiða hugann að þessum spurningum og eðlilega gerum við það enn frekar á fordæmalausum tímum.

En lifum við einstæða tíma? Auðvitað ekki þegar litið er í söguna. Mannkynið hefur mátt þola áföll stór og smá. Faraldra og styrjaldir. Hamfarir af mannavöldum og náttúrunnar. Þaðan erum við komin.

En það er auðvitað rétt að við sem nú lifum höfum ekki áður lifað slíka vá sem nú ógnar um heim allan. Þar erum við stödd í dag.

Og svo förum við áfram inn í framtíðina. Vonandi reynslunni ríkari og tilbúin til að breyta því sem breyta þarf til að gera okkur sterkari og um leið auðmjúkari gagnvart því sem getur gerst og gerist. Vonandi drögum við réttan lærdóm af þessari plágu. Við erum áreiðanlega sterkari saman. Þangað skulum við fara.

Og inn í þessar aðstæður talar kirkjan og flytur okkur boðskap páskanna. Boðskap um von og birtu og sigur lífsins. Myrkrið hopar – það hlýnar og aftur kemur vor í dal. Föstudagurinn langi er að baki og nú er sigurhátíð sæl og blíð eins og segir í sálmi sem sunginn er á páskum og felur í sér þá von að þrátt fyrir böl og alheimsstríð þá sigrar lífið. Lífið heldur áfram.

Í fjórðu Mósebók er frásaga um faraldur sem herjaði á Ísraelsmenn í eyðimörkinni. Þeir voru á leiðinni úr þrælahúsi Egypta til fyrirheitna landsins. Ferðalagið reyndi á þolrifin og margir mögluðu og það var pirringur og mótmæli í hópnum. Síðan segir að Guð hafi sent eitraða höggorma gegn fólkinu. Þannig hafa trúarbrögðin oft reynt að fá einhverja skýringu á áföllum sem voru fólki óskiljanleg.

En tökum þessa sögu lengra og færum hana inn í samtímann. Eitruðu höggormarnir bitu fólk og margir dóu. Allir voru hræddir. Óttinn kallaði á margvíslegar vangaveltur og misgáfulega umræðu. Fólk leitaði bjargráða um hvernig ætti að halda lífi. Einhverjir fóru í afneitun og sögðu að alltof mikið væri gert úr þessu og ef um einhverja hættu væri að ræða væri hún stórlega ýkt. Aðrir voru á hinum endanum og töldu að nú væru endalokin nærri og allir myndu deyja. Falsfréttir og alls konar bull fékk vængi. Einhverjir fullyrtu að ef þú værir bitinn ættirðu að halda niðri í þér andanum í tíu sekúndur og þú myndir lifa. Aðrir fullyrtu að þessir ormar færu ekki hratt yfir og þú gætir bjargað þér á flótta- aðeins þau sem gætu ekki flúið- gamalt fólk og veiburða væri í hættu. Og einhverjir sáu það heillaráð að ef þú værir bitinn þá ættirðu hið snarasta að gleypa fötu af sandi og sandurinn mun soga í sig eitrið og þú yrðir hólpinn.

Í þessum þrengingum og örvæntingu bað Móse fyrir fólkinu og Drottinn sagði við Móse: „Gerðu höggorm og settu hann á stöng. Sérhver sem hefur verið bitinn skal horfa til hans og halda lífi.“ Og það gekk eftir. Faraldrinum slotaði. Það er engin útlistun á því hvernig það gerðist nákvæmlega. Ef til vill var þetta kraftaverk eða var skýringin sú að bænasvarið fólst í því að Móses neyddi fólkið til að horfast í augu við vandamálið og breyta hegðan sinni til að halda lífi. Fara varlega – gæta sín.

Covid- 19 veldur gríðarlegum skaða. Fólk veikist og mannslíf tapast með þeirri sorg og söknuði sem því fylgir og samfélögin verða fyrir miklu áfalli og daglegt líf raskast og tjón þjóða og einstaklinga er óskaplegt. Við sem nú lifum höfum höfum tól og tæki sem hjálpa okkur til að takast á við þessa ógn sem nú gengur yfir heimsbyggðina. Mestu skiptir að halda ró og fara að tilmælum og treysta á þau úrræði sem okkar besta fólk í þessum aðstæðum bendir á. Það er bænasvar á óvissutímum.

Við vitum ekki hvað framtíðin ber í skauti. En við vitum að þessu ástandi linnir og vonandi getum við lært af því og tekið eitthvað gott og gagnlegt með okkur inn í framtíðina. Að við sjáum skýrt og drögum lærdóm af því sem hefur gerst. Við skulum fara þangað þar sem við lærum að treysta góðum vísindum og að það skilar árangri að starfa saman. Það er nauðsynlegt að hver gái að sér og við hjálpumst að og vinnum saman.

Páskarnir standa fyrir von um betri heim. Það er hlutverk kirkjunnar að viðhalda þeirri von og gefast ekki upp á því að minna okkur stöðugt á og hvetja okkur til að horfa á heiminn með hjartanu. Páskarnir hjálpa okkur til að treysta því að hvernig sem málum er háttað og þó að við förum um dimman dal þá gengur betur ef við hjálpumst að og saman gengur okkur betur að sigrast á erfiðleikum. Boðskapur páskana kallar fram það besta í okkur. Að við glæðum guðsneistann í hjartanu og leggjum okkur enn frekar fram um að vera góðar manneskjur. Tímabundin ógn hvetur okkur til að horfast í augu við lífið og hlusta eftir bænasvarinu.

Föstudagurinn langi er að baki. Þannig er það alltaf. Þó að syrti að og myrkrið hellist yfir þá mun aftur birta. Gleðilega páska.

Latest posts by Sr. Kjartan Örn Sigurbjörnsson (see all)