Refsing og réttlæti

Síðustu daga hefur ýmislegt verið rættt og ritað í tilefni af því að dómfelldur einstaklingur hefur mætt mótlæti eftir að hafa verið látinn laus úr fangelsi, þar sem hann afplánaði dóm fyrir að hafa orðið mönnum að bana. Í þessari umræðu gætir þesss misskilnings að sá sem lokið hefur afplánun refsingar sé þar með kvitt við samfélagið, guð og menn, í öllum skilningi.

Morð er hinn endanlegi glæpur, frá hinum myrta er allt tekið, allt sem hann er og allt sem hann hefði getað orðið. Þá er ótalin meingerðin gagnvart aðstandendum hins myrta. Sú meingerð hverfur aldrei, hættir aldrei. Hún er atlagan endurtekin í eiginlegri merkingu hverja stund, dag eftir dag.

Að ljúka afplánun refsingar felur í sér að ríkið í krafti refsivörsluvalds síns getur ekki beitt frekari refsingum gagnvart hinum dómfellda. Hann á rétt á því að verða ekki beittur frekari refsingum af hálfu ríkisins að lokinni sinni afplánun.

Það er auðvitað umhugsunarefni, eins og Guðný Hjaltadóttir, lögfræðingur, bendir á í færslu sinni á Facebook í gær, hversu langt er gengið af hálfu fangelsisyfirvalda í afplánun utan fangelsis, jafnvel þegar um er að ræða alvarlegustu ofbeldisglæpi:

Hér á landi hljóta einstaklingar að jafnaði 16 ára fangelsi fyrir morð af ásetningi. Sumum hefur ekki þótt það sérlega þung refsing m.t.t. þess að hér er reglan einnig sú að einstaklingar hljóti reynslulausn eftir að hafa afplánað 2/3 hluta refsingarinnar. Það sem tekur steininn úr hljóta þó að vera þær reglur sem gilda um afplánun refsinga utan fangelsis. Í 3. mgr. 31. gr. laga um fullnustu refsinga kemur fram að Fangelsismálastofnun setji nánari reglur um skilyrði afplánunar utan fangelsis. Í 1. gr. reglna um áfangaheimilið Vernd segir að dómþoli skuli „hafa afplánað a.m.k. 1/3 hluta afplánunartímans í fangelsi“. Ekki er gerður greinarmunur á alvarleika brota en dómþolum er þó heimilt að dvelja mislengi á Vernd eftir lengd fangelsisrefsingar (mér sýnist sá sem fær 16 ára dóm geta dvalið á Vernd í 26 mánuði áður en hann fær reynslulausn). Undir reglurnar kvittar Fangelsismálastjóri. Sem sagt, Fangelsismálastofnun hefur í raun verið fengið vald til þess að stytta 16 ára fangelsisvist um 7 ár eða í tæp 9 ár. Ég veit að einhverjum dómurum þessa lands þykir þetta fyrirkomulag óviðunandi og í raun vegið að dómsvaldinu.

En burtséð frá þessu þá er hugmyndin um að afplánun refsingar jafngildi allsherjar syndaaflausn, að hinn dómfelldi eigi rétt á einhverju öðru en því að sæta ekki frekari refsingu fyrir þann tiltekna glæp – sú hugmynd er á alvarlegum misskilingi byggð.

Dómfelldi á ekki á rétt á því að ganga inn í samfélagið eins og ekkert hafi í skorist. Hann á ekki rétt á því að þeir sem eiga um sárt að binda vegna voðaverka hans gleymi. Hann á ekki rétt á fyrirgefningu.

Hann er hins vegar frjáls, hann nýtur verndar samkvæmt lögum og hann nýtur þeirra grunnréttinda sem fylgja því að tilheyra samfélagi. Hann hefur bæði tækifæri og tíma til ávinna sér önnur gæði sem samfélag manna hefur upp á að bjóða, á borð við virðingu og náungakærleik. En hann á engan rétt á þeim.

Fyrirgefningin er flókið fyrirbæri. Fyrirgefningin er ekki vottorð útgefið af Fangelsismálastofnun. Ég hallast að því að henni hafi verið fyrirkomið í mannlegri tilveru í þeim tilgangi að gera þeim sem misrétti hafa verið beittir mögulegt að halda áfram. Fyrirgefningin er þeirra og þjónar þeim, þannig á það á vera.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.