Auglýsingar eru ekki styrkir, heldur þjónusta

Auglýsingar eru ekki styrkir. Markmið með auglýsingu er ekki að tryggja útgáfu blaðs eða tímarits. Markmið með auglýsingu er ekki að skaffa auglýsingastofum verkefni. Þetta geta verið jákvæð hliðaráhrif auglýsinga en eina markmið auglýsingar er að vekja athygli einhvers á einhverju. Því fleiri sem sjá auglýsinguna í markhópnum þeim mun betri er auglýsingin.

Gagnrýni á það að erlend auglýsingastofa hafi verið fengin til að aðstoða við auglýsingaherferð sem lokka á ferðamenn til landsins að nýju missir marks. Ef það á að fá útlendinga til að koma til landsins þarf væntalega að borga útlendingum í útlöndum til að auglýsa á útlensku í útlenskum miðlum svo aðrir útlendingar sjái.

Gagnrýnin á það að íslenskir aðilar, jafnvel stofnanir, auglýsi í gegnum Google eða Facebook er af sama meiði. Eflaust væri það gott fyrir marga fjölmiðla ef allir hættu að auglýsa á Facebook og auglýstu hjá þeim í staðinn en staðreyndin er að Facebook hefur tekist að búa til áhugaverða vöru fyrir auglýsendur sem oft er einfaldlega skynsamlegasta og ódýrasta lausnin.

Ef sveitarfélag ætlar til dæmis að upplýsa ungt fólk um laus sumarstörf eða upplýsa pólskumælandi íbúa um breyttan opnunartíma leikskóla þá er ekki endilega skynsamlegt að teppaleggja rótgróin íslensk áskriftarblöð með heilsíðum. Þessir hópar lesa slík blöð ekki. Eflaust má hafa af þessu einhverjar áhyggjur og kannski þurfa sumir miðlar að endurskoða rekstrarmódel sitt. Bregðast þarf við samkeppninni, frekar en að gagnrýna hana fyrir að veita stundum einfaldlega betri þjónustu.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.