Biðstaða eða aðlögun

Áfallið vegna efnahagslegra afleiðinga alheimsfaraldursins er ægilegt. Um allan heim hafa stjórnvöld þurfa að horfast í augu við vissuna um alvarleika áfallsins en einnig óvissuna um hið endanlega umfang. Það getur brugðið til beggja vona og ómögulegt að vita í dag hverjar eru bestu leiðirnar til þess að lágmarka skaðann.

Stærstu aðgerðirnar sem gripið hefur verið til á Íslandi hafa snúist um að hjálpa fyrirtækjum að vernda ráðningarsambandið milli fyrirtækjanna og einstaklinganna sem eru þar í vinnu. Þessar aðferðir fela í raun í sér að í þokuástandi óvissunnar eru laun starfsmanna í hlutastarfi eða á uppsagnarfresti niðurgreidd af ríkinu. Tilgangurinn er annars vegar að hjálpa fólki fyrirtækjum að komast í gegnum þann bráða vanda sem kemur til af algjöru stoppi, einkum í ferðaþjónustu; og hins vegar að mýkja brotlendinguna sem gæti orðið ef vandamálið reynist ekki tímabundið heldur langvarandi.

Rétt eins og með önnur viðbrögð—heilsufarsleg, efnahagsleg eða samfélagsleg—þá er vitaskuld ómögulegt að slá því föstu strax hvort efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar eru vel lukkaðar. Tíminn einn mun leiða það allt saman í ljós, og þegar fram líða stundir munu alls konar ákvarðanir sem litu út fyrir að vera galnar í dag virka eins og hreinræktuð snilld; og það sem þykir algjörlega pottþétt í dag gæti komið illa aftan að fólki síðar meir. Um þetta er ómögulegt að segja.

Eitt einkenni á efnahagslegum viðbrögðum stjórnvalda, einkum í málefnum ferðaþjónustunnar, hefur verið að áherslan er fyrst og fremst lögð á að standa vörð um einhvers konar biðstöðu. Ferðaþjónustan er því eins og flugvél sem svífur án vélarafls, en er ennþá á svipaðri stefnu og áður en ósköpin gengu yfir. Það er hins vegar alls ekki hægt að reikna með því að sú veröld sem tekur við eftir kóvid-krísuna verði eins og áframhald á þeim sem var áður en veiran kom. Það gæti verið að þróunin verði einhvern veginn allt öðruvísi. Ef svo er, þá gæti reynst varhugavert að leggja of mikla áherslu á að setja fyrirtæki í híði eða aðrar aðgerðir sem byggjast á kyrrstöðu. Þá kynni einmitt að vera betra að undirbúa fólk og fyrirtæki fyrir umtalsverða aðlögun og breytingar.

Talað er um að heildarkostnaður við hlutabótaleiðina og niðurgreiðslu launa á uppsagnarfresti kunni að vera í kringum 60 milljarða króna. Stærstur hluti af þessu ætti með réttu að rata til fyrirtækja sem byggja á ferðamennsku. Þessi beina niðurgreiðsla er nú þegar farin að valda alls konar úlfúð og deilum þar sem ásakanir og fingrabendingar ganga milli manna og starfsstétta.

Í þessu ljósi má velta fyrir sér hvort heppilegra gæti verið ef ríkið gripi til aðgerða sem í stað þess að standa vörð um kyrrstöðu gætu í staðinn aukið á aðlögunarhæfni. Ein slík leið er nú þegar í farvatninu og var kynnt sem hluti af fyrsta aðgerðapakka stjórnvalda. Hún er sú að senda öllum Íslendingum „ferðaávísun“ sem hægt er að eyða einmitt hjá þeim fyrirtækjum sem líkleg eru til þess að hafa orðið fyrir hruni í tekjum. Fyrir 35 milljarða króna mætti senda hverjum einasta Íslendingi framseljanlega ferðaávísun upp á 100 þúsund krónur. Slík upphæð myndi hafa raunveruleg áhrif á ákvarðanir fólks um hvernig það verði sumarfríinu sinu og er nógu stór til þess að koma allnokkuð til móts við það skarð sem erlendir ferðamenn skilja eftir.

Kosturinn við slíkan gjörning, umfram núverandi leiðir, er sá að til þess að fyrirtækin sem eiga í vandræðum hljóti stuðninginn þyrftu þau fyrst að keppa um hylli neytenda; en það er einmitt stórgóð leið til þess að fá vísbendingu um hvaða fyrirtæki eru „lífvænlegri“ en önnur.

Ef maður ætlar hvort sem er að eyða tugum milljarða í að styðja ferðaþjónustufyrirtækin—er þá ekki upplagt að bjóða fólkinu í landinu samhliða því tækifæri til að njóta þeirrar stórkostlegu uppbyggingar sem orðið hefur í gistingu og afþreyingu á undanförnum árum? Er það ekki betra heldur en að hjálpa „lífvænlegu“ fyrirtækjunum að bíða af sér storminn? Kostnaður ríkissjóðs er alveg nákvæmlega sá sami.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.