Ég bið þig um að koma með mér í smá ferðalag, við ætlum til lands sem er uppfullt af ævintýrum. Þetta land þarf ekki risaskemmtigarð eins og Disney land því náttúran og menningin er miklu skemmtilegri en nokkur manngerður skemmtigarður. Landið býður upp á náttúrulega rússíbana, útsýni parísarhjóla, náttúrulega flugeldasýningu og fólkið sem þarna býr hefur meira að segja verið valið vinalegasta fólk í heimi til að heimsækja. Já frá þessu landi fara allir með bros á vör.
Glöggir lesendur vita eflaust að pistlahöfundur er að tala um Ísland. En Ísland er í raun ævintýri fyrir ferðamenn, og sitja nú ferðaskrifstofur út um allt land sveittar að búa til sannkallaðan draumaheim fyrir gesti sína. Nú stendur ferðaþjónustan aftur á móti á vissum tímamótum, hún stækkar ört og skiljanlega vilja allir græða sem mest og ríkið ætlar ekki að missa af lestinni því einhvern veginn verðum við að fjármagna innviði landsins til að taka á móti öllum dreymandi gestunum.
Nú liggja fyrir Alþingi nokkrar breytingar svo sem virðisaukaskattur á þá liði ferðaþjónustunnar sem hún hefur verið undanskilin, það eru fáir sem geta andmælt því enda eðlilegt að allir borgi til samfélagsins. Erlendum gestum finnst heldur ekkert óeðlilegt að borga skatt fyrir þá þjónustu sem þeir fá á landinu sem það heimsækir, þeir þurfa að gera það á flestum stöðum í heiminum. Aftur á móti liggur jafnframt fyrir þinginu tillaga að svokölluðum náttúrupassa, um hann er aftur á móti engin samstaða og hvers vegna ætli það sé?
Náttúrupassinn verður á 1500 krónur og gildir í 3 ár, hann þurfa allir að borga sem hafa hug á að heimsækja vinsælustu ferðamannastaði landsins. Pistlahöfundur er alls ekki ósáttur við að þeir sem komi og heimsæki þetta ævintýraland greiði eitthvað fyrir það en höfundur er hugsi hvort passi sem þessi sé rétt leið og hvort hann eyðileggi ekki ásýnd ferðamanna á landinu.
Með nýjum vsk á ferðaþjónustuna koma inn háar fjárhæðir sem hafa ekki áður sést frá þessum hluta skattkerfisins sem er vel, vonandi er hægt að nýta þær fjárhæðir í uppbyggingu innviða til að takast á við aukinn fjölda í landinu. Náttúrupassinn mun sannarlega skila inn afar miklum tekjum en mun breyta ásýnd ferðamanna á ósnerta ævintýralandinu sem Ísland nú er. Því þykir pistlahöfundi hugmyndir sem Sigríðar Ásthildar Andersen birtir í Morgunblaðinu um síðastliðna helgi um að gestir borguðu bara fyrir þá þjónustu sem þeir fá, bílastæði, salerni og fleira mun betri. Þær fjárhæðir færu beint til þess staðar sem fólk heimsækir, og færu því í frekari uppbyggingu á þeim stað. Á Geysi til að mynda sem er ansi fjölsóttur ferðamannastaður væri hægt að koma upp stöðumælum og færu upphæðirnar í uppbyggingu á svæðinu öllu saman, rútufyrirtækin gætu jafnvel keypt klippikort sem það gæti rukkað ferðamennina sína fyrirfram fyrir.
Með svona aðferðum eyðileggst ekki ásýndin eins og þegar þið hugsið ykkur þúsundir túrista með Íslandspassa um hálsinn á Gullfossi, Dimmuborgum og Jökulsárlóni.
Bjóðum gesti velkomna en leyfum þeim að borga fyrir þá þjónustu sem þeir þurfa en reynum ekki að græða svo mikið að við á endanum missum ævintýralandið og titilinn sem hin vingjarnlega þjóð.
- Óður til Dollýar - 29. júlí 2021
- Aðförin að heilbrigðisþjónustu landsmanna - 9. júní 2021
- Þegar mennskan hverfur - 26. apríl 2021