Hann hét Albert Þór 

Við fylgdumst að inn í fullorðinsárin. Kannski of snemma. Kannski of hratt. En samt – eins og síðar kom á daginn – við máttum engan tíma missa.

Við vorum saman í skóla, hann var ári eldri. Við vorum saman í fótbolta og handbolta. Á Skaganum. Hann bjó á Brekkubraut og ég bjó á Skólabraut. Leiðir okkar lágu í raun alltaf saman og um nokkurra ára skeið, frá 1987 til 1991, vorum við óaðskiljanlegir.

Sumrin voru lengri þá. Þetta var áður en grunnskólarnir urðu að dagvistunarheimilum. Dagarnir voru langir, flestum þeirra vörðum við Merkurtúni í fótbolta en ekki öllum. Við hjóluðum upp að vatnsveitu og um allan Skagann í leit að auðfundnum ævintýrum. Vorum svalir, reyktum njóla og fórum svo hóstandi á fótboltaæfingu.

Við hlustuðum saman á Bob Marley. Kunnum öll helstu lögin. Hans uppáhaldslag var No Woman No Cry, þar sem við sungum Good friends we had and good friends we lost along the way. Tókum upp á kassettu og höfðum meðferðis í Galtalæk 1989 og hlustuðum á Marley í Sony ferðaútvarpi sem keypt var í Kaupmannahöfn haustið 1986. Tókum ýmislegt fleira með í Galtalæk og ekki allt í samræmi við reglur.

Við áttum vel saman. Báðir samt skapmiklir, stundum hvessti en lægði þó jafnharðan. Hann var afburðagreindur og hafði húmor sem var miklu þroskaðri en aldur okkar sagði til um. Hann var einstaklega vel upp alinn, kurteis og vingjarnlegur í samskiptum, einkum þá sem eldri voru. Mér hefur alltaf fundist það til marks um gott uppeldi að bera virðingu fyrir þeim eldri.

Við vorum ungir menn, fannst okkur, þá 14 og 15 ára. Væntanlega skilgreindir vandræðaunglingar í dag, úrræði og sérfræðiumönnun. En ekki þá og ekki þar. Við vorum sjálfstæðir ungir menn, gerðum það sem okkur datt í hug en þó innan einhvers konar ósýnilegs og órjúfanlegs ramma af siðferðisreglum sem okkur báðum höfðu verið innrættar.

Við fylgdumst að inn í fullorðinsárin. Kannski of snemma. Kannski of hratt. En samt – eins og síðar kom á daginn – við máttum engan tíma missa.

Leiðir skildu haustið 1991 þegar ég fór suður í menntaskóla. Næstu árin urðum samverustundirnar stopulli en alltaf jafn skemmtilegar. Sumarið 1992 stóð hann fyrir mikilli hátíð á Brekkubrautinni ásamt eldri bróður sínum, hátíð sem stóð í nokkra sólarhringa. Inn í hana spiluðu tónleikar í Íþróttahúsinu við Vesturgötu með Jethro Tull og Black Sabbath. Hápunkturinn var svo bein útsending frá úrslitaleik Þjóðverja og Dana í Evrópumótinu í fótbolta. Ég hugsa að þessa 3 daga sem hátíðin stóð hafi hundruð manna lagt leið sína að Brekkubraut 2.

Vorið 1995 hittumst við í hinsta sinn í kosningapartýi ungra sjálfstæðismanna á Akranesi. Eftir að allir voru farnir sátum við lengur, drukkum aðeins meira og spjölluðum. Kvöddumst á miðri Skólabrautinni og hann lagði af stað uppeftir. Rúmum mánuði síðar lést hann af völdum heilablóðsfalls.

Albert Þór Gunnarsson hefði orðið fertugur í dag. Hann hefði haldið mikla veislu í gærkvöldi. Þangað hefðu vinir hans lagt leið sína og fagnað með honum og hans fjölskyldu. Börnin hans hefðu verið orðin stálpuð og hjálpað til í veislunni. Hann hefði verið búinn að upplifa svo margt í viðbót og átt svo margt skemmtilegt framundan, eins og okkur finnst við eiga öllum stundum.

Ég hugsa oft til Alberts. Ég hugsa til hans þegar ég fylgist með börnunum mínum vaxa úr grasi, ég hugsa til hans á öllum merkisviðburðum í lífi mínu. Örlögin höguðu því þannig að hann fékk ekki notið þeirrar hamingju sem framundan beið. Það minnsta sem ég get gert er að gleyma honum ekki – aldrei.

Ég minntist vinar míns með fátæklegum orðum í Morgunblaðinu 8. júní 1995. Í dag get ég ekki annað en endurtekið lokaorðin:

Ég minnist þín sem trausts vinar. Ég minnist þín sem gleðigjafa hvar sem þú komst. Ég minnist dugnaðar þíns. Ég minnist þess hversu skapstór þú varst en aldrei illlyndur. Ég minnist drengskapar þíns og heiðarleika. Ég minnist kærleika þíns í garð ástvina þinna og vina. Ég minnist dásamlegra samverustunda með þér. Ég minnist þín með gleði og sárum söknuði.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.