Aðförin að heilbrigðisþjónustu landsmanna

Kannski hefur ríkisstjórnin gleymt því að heilbrigðisþjónustan verður að virka. Kannski hefur hún gleymt því að við þurfum öll að treysta á ströngustu gæðakröfur og að þjónustan sé veitt hratt og örugglega. Það er afar fátt sem er okkur mikilvægara.

Ef við greinum hvað hefur gerst á tíma þessarar ríkisstjórnar þá eru hér nokkrar lykilstaðreyndir:

Í upphafi árs voru skimanir fyrir legháls- og brjóstakrabbameini fluttar frá Krabbameinsfélaginu (sjálfseignarstofnun) til heilsugæslunnar og Landspítala. Jafnframt var greining á sýnum flutt frá Krabbameinsfélaginu til Danmerkur. Flestir hafa tekið eftir því hversu fáránlega illa þetta hefur gengið. Stefnt var að styttri bið eftir greiningu en raunin er að biðin er orðin miklu, miklu lengri. Hvers vegna ríkisstjórnin ákvað að færa þetta verkefni er mér óljóst, sérstaklega þar sem þjónustan varð mun verri, ákvörðunin hefur framkallað ályktanir frá fagfélögum lækna og sérfræðingar hafa hreinlega kallað breytingarnar aðför að heilsu kvenna.

Á þessu ári breyttu stjórnvöld einnig reglum um samninga talmeinafræðinga og sjúkraþjálfara við Sjúkratryggingar Íslands. Áður en þeir geta unnið sjálfstætt þurfa þeir fyrst að starfa í 2 ár hjá ríkinu. Óháð því hvort næga vinnu sé þar að fá eða hvort fólk vilji yfir höfuð vinna fyrir ríkið. Ástæðan er aftur óljós en afleiðingarnar eru skýrar. Dæmi eru um að það séu 3 – 400 manns á biðlista hjá einni sjúkraþjálfarastofu og allt að þriggja ára bið eftir talmeinafræðingi. Einhver myndi því halda að réttast væri að fólk kæmist á samning um leið og það hefur lokið námi sínu (eins og var áður) til þess að vinna hraðar á biðlistunum. Ekki síst þar sem kostnaðurinn af biðinni verður bara meiri því lengri sem hún er. En ríkisstjórnin hefur talað skýrt hér, fólk þarf fyrst að vinna hjá ríkinu til að vera treyst til að vinna sjálfstætt.

Óskilvirknin í kringum hnjá- og mjaðmaaðgerðir er auðvitað þar sem ríkisstjórnin toppar sig. Biðlistar voru vissulega til staðar við upphaf þessa kjörtímabils en þeir hafa lengst um tæplega 40-50% á kjörtímabilinu. Í stað þess að taka á þessum biðlistum með því að nýta aðstöðuna og sérfræðiþekkinguna sem er þegar til staðar hér á landi þá sendir íslenska ríkið sjúklinga til Svíþjóðar í aðgerðir. Fyrir utan þjáninguna sem fylgir því fyrir sjúkling að vera sendur svona á milli landa, og biðina, þá er kostnaðurinn þrefaldur. Leyfum okkur aðeins að melta það. Kostnaðurinn er þrefaldur! Þetta kvittar fjármálaráðherra upp á.

Þessi stefna ríkisstjórnar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar er samfélaginu dýr. Bið eftir heilbrigðisþjónustu er ekki bara kostnaður núna heldur kostnaður inn í framtíðina. Sú stefna að heilbrigðisþjónusta eigi bara að fara fram á Landspítalanum og heilsugæslum landsins en alls ekki hjá sjálfstætt starfandi fagfólki mun kalla á enn meiri biðlista, spekileka úr landi og enn meiri kostnað.

Stefna ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum er bókstaflega hættuleg.

Latest posts by Stefanía Sigurðardóttir (see all)

Stefanía Sigurðardóttir skrifar

Stella hóf að skrifa á Deigluna í nóvember 2004.