Páskaleg jól

Páskarnir eru að mínu mati ein besta hátíð ársins. Á páskunum hittirðu bara þinn innsta kjarna, þú borðar góðan mat og það er lítið sem ekkert um veisluhöld. Það er engin krafa á páskum að gera eitt eða neitt, þegar mætt er til vinnu eftir páska er aðallega spurt hvort þú hafir náð að hvílast og hvort þú hafir ekki fengið gott að borða. Þetta er hátíðin sem náttbuxur eru sjálfsagðar allan daginn og sjónvarpsgláp er nánast einn af skyldum hátíðarinnar. Á páskum er jafnframt nánast leyfilegt að tala sem minnst í síma og lágmarka internetnotkun, allt í nafni afslöppunar.

Jólin, eins frábær og þau eru, eru uppfull af veislum þar sem hárra hæla er krafist og temmilega óþægilegs klæðaburðar, hlaup á milli veislna þar sem maður nær varla að heilsa öllum áður en tími er kominn til að hlaupa á næsta stað. Alls staðar er eiginlega sami maturinn og auðvitað mætir maður ekki í veislu án þess að fá sér smá af veisluborðinu. Hangikjöt 3 daga í röð jafnvel stundum tvisvar á dag er ekki fáheyrt. Klæðnaðurinn var kannski ekki óþægilegur á aðfangadag en í veislu 4 þegar þú ert búin með nokkra skammta af kartöflum, hangikjöti og hamborgarahrygg þá eru kjóllinn og jakkafötin orðin temmilega óþægileg.

En þessi jól verða öðruvísi. Þessi jólin verða fá boð í boði og líklegt er að þú hittir einungis þinn innsta kjarna. Því hef ég kosið að horfa á þessi jól sem einhvers konar páskar 2.0 þar sem auk alls matarins, súkkulaðisins og kósýheitanna þá færðu líka gjafir, það er allt fallega skreytt og þú mátt eiginlega vera í náttfötum alla hátíðina.

Mín ráð fyrir þessi jól eru því þessi:

  1. Vertu viss um að þú eigir tvenn sett af þægilegum náttfötum (og að þau séu hrein 24. des)
  2. Vertu 100% viss um að þú eigir nægar birgðar af súkkulaði (ef þú ert ekki viss, þá er það ekki nóg)
  3. Vertu búin að ganga úr skugga um að þú sért með aðgang að 2 – 3 sjónvarpsveitum (Sjónvarp Símans, Vodafone, Netflix, Hulu, Amazon Prime eða ViaPlay t.d.)
  4. Borðaðu bara mat sem þér þykir góður, og nóg af honum. (engir óþægilegir kjólar eða jakkaföt að þvælast fyrir núna).
  5. Vertu með skemmtileg spil til á lager.

Svo óska ég ykkur kæru lesendur páskalegra jóla og Covid laust komandi ár.

Latest posts by Stefanía Sigurðardóttir (see all)

Stefanía Sigurðardóttir skrifar

Stella hóf að skrifa á Deigluna í nóvember 2004.