Hvar er (kapítalíski) Draumurinn?

Það ætti nefnilega að vera góð tilfinning að vita að framleiðslan er ekki alltaf hluti af dulúðlegum alþjóðlegum auðhringum sem nota mátt sinn til að reisa girðingar gegn samkeppni, heldur drifin áfram af ósköp hversdagslegri kapítalískri græðgi heimafólks í samkeppni við fjölmarga aðra litla gráðuga kapítalísta.

Fyrir nokkru fór í gang stór herferð auglýsinga á Íslandi þar sem búið var að klæða nokkur ástkær íslensk vörumerki upp þannig að þau virtust vera orðin útlensk. Kókómjólkin var orðin dönsk (Jensen’s), appelsínið ítalskt, Kjörís var orðið rússneskt og hin séríslenska blanda saltlakkrís og rjómasúkkulaðis í Freyju Draumi var orðin belgísk og hét Zoethout Droom. Oj.

Það var fyrirsjáanlegt að mörgum þætti þessi herferð að einhverju leyti óskemmtileg og anga jafnvel að hálfgerðum þjóðrembingi. En skilaboðin eiga samt rétt á sér. Reyndar er ákaflega ósennilegt að vörurnar sem kæmu í staðinn fyrir íslensku klassíkina kæmu frá litlum og óþekktum framleiðendum í Danmörku, Ítalíu, Rússlandi og Belgíu. Miklum mun líklegra er að eitthvað annað og ennþá minna spennandi kæmist í staðinn ofan í verslunarkörfur landsmanna; eitthvað á vegum Coca Cola, Nestlé, Mars eða Modeléz. Nánast öll sú matvara sem keypt er og seld milli heimsálfa er framleidd á vegum fyrirtækja í eigu örfárra risasamsteypa. Þessi skrýtna staða er að hluta til bæði orsök og afleiðing þess að jafnvel í risastórum samfélögum er mikil einsleitni í vöruframboði milli staða.

Það er til dæmis ekki algengt að koma inn í verslanir í Bandaríkjunum og sjá uppstillt á áberandi stað sælgæti eða pakkaðri matvöru sem eingöngu er fáanleg í örfáum sýslum. Eftir því sem ég man voru ekki seldar í verslun Randall’s í Iowa City neinar súkkulaðistangir sem voru frægar í Johnson sýslu og nærsveitum en ófáanlegar í Dubuque og Davenport. Vinur minn frá borginni taldi sig hins vegar hafa himin höndum tekið þegar hann kom til Íslands og smakkaði fyrst á íslensku skyri; svo ekki sé talað um Freyju Draum, sem lifði í minningu hans í marga áratugi áður en hann fékk afhendan kassa af góðgætinu til San Diego aldarfjórðungi eftir heimsóknina. Og þá olli sendingin ekki vonbrigðum.

Það þarf ekki endilega að vera þjóðremba á bak við þá ákvörðun að beina viðskiptum sínum frekar til aðila sem framleiða vöru í manns eigin umhverfi. Sérstaðan og fjölbreytnin, sem á jú að vera einn helsti kostur frjáls markaðsskipulags umfram miðstýringuna, getur falið í sér kostnað og áhættu. Það er getur kostað meira að kaupa súkkulaði sem ekki er framleitt í risastórum verksmiðjum í eigu alþjóðlegra stórfyrirtækja—maður gæti þurfa að borga 219 krónur fyrir súkkulaðistykki í staðinn fyrir 119; en þó líklega aldrei svo mikið að maður geti ekki étið miklu meira en maður hefur gott af. Og jú—það felur í sér áhættu að prófa nýja hluti, ef litlar súkkulaðiverksmiðjur í Colorado bjóða upp á framandi stykki með óvenjulegri bragðblöndu þá er vissulega líklegt að manni þyki það verra en Snickers. En það er aldrei að vita; kannski gætu smáir matvælaframleiðenda í Colorado og Katmandú náð að standa vörð um tilvist vöru sem er svipuð og Snickers, en nógu mikið öðruvísi til þess að það sé eftirminnilega „matarupplifun“ að prófa eitthvað nýtt. Það ætti nefnilega að vera góð tilfinning að vita að framleiðslan er ekki alltaf hluti af dulúðlegum alþjóðlegum auðhringum sem nota mátt sinn til að reisa girðingar gegn samkeppni, heldur drifin áfram af ósköp hversdagslegri kapítalískri græðgi heimafólks í samkeppni við fjölmarga aðra litla gráðuga kapítalísta.

Hlutkerk kapítalismans ætti ekki bara að framleiða einsleita vöru á sem bestu verði svo fólk geti keypt meira og meira af því nákvæmlega sama. Kapítalisminn virkar miklu betur þegar hann er smár og snar í snúningum og býður upp á fjölbreytni og raunverulega samkeppni. Það er þessi samkeppni litlu kapítalistana sem gerir fjölbreytnina mögulega, og hún er kannski ennþá stærri kostur frjáls markaðshagkerfis heldur en getan til að framleiða sem mest magn á sem lægstu verði.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.