Villuljós og vinnuleit

Þótt á móti blási í efnahagsmálum um þessar mundir er það engin lausn að hverfa aftur til vondra hugmynda um ríkisafskipti og ríkisvæðingu atvinnulífs til að fjölga störfum.

Það er lítið mál að búa til störf séð frá sjónarhóli stjórnmálamannsins. Með nokkrum einföldum lagabreytingum og reglugerðarsetningum getur ríkisvaldið meira að segja búið til heilan helling af störfum. Það eina sem þarf að gera í raun og veru er að láta mannshendurnar strita aftur við það sem mannshugurinn hefur þegar áorkað og komið í verk.

Tækifærin eru nær óþrjótandi. Þegar dráttarvélin hélt innreið sína í sveitir landsins glötuðust mörg störf. Þá missti margur ræðarinn vinnuna þegar vélvæðingin í sjávarútvegi hófst fyrir alvöru og internetið með sínum stafrænum lausnum hefur leikið bankastarfsfólk grátt. Þessar breytingar eru vel þekktar og kenndar stundum við hinar og þessar tölusettar iðnbyltingar.

Það er auðvelt að falla í þá freistni – sé frá sjónarhóli stjórnarmálamannsins – að reyna sporna gegn þessum breytingum með boðum og bönnum til að verja störf eða búa þau til. Ýmis mál bera þess keim nú um stundir þar sem dimmt er yfir atvinnumálum landsmanna í skugga Covid-19 heimsfaraldursins. Eitt þeirra mála sem skotið hefur upp kollinum eru áhyggjur þingmanna í atvinnuveganefnd Alþingis af aukningu í útflutningi á því sem kallað er óunninn fiskur.

Frá miðum á markað

Með aukinni alþjóðavæðingu og bættu aðgengi að erlendum mörkuðum hafa sjávarútvegsfyrirtæki á Íslandi öðlast betri upplýsingar um óskir kaupenda og verð á fiski sem í boði er ytra. Þetta á við um óunninn fisk sem og aðrar fiskafurðir sem fluttar eru út. Óunni fiskurinn er reyndar ekki færður erlendum kaupendum að gjöf. Ætla má að hann sé seldur til þeirra sem bjóða besta verðið.

Takist sjómanninum og útgerðinni að fá hærra verð fyrir fisk en áður var í boði með sama eða minni tilkostnaði vænkast hagur sjómannsins og útgerðarinnar. Fylgifiskur þess er að skattar og veiðigjöld hækka að sama skapi. Útgerðin getur enn fremur greitt hærri laun og fjárfest til að auka frekar framleiðni í sinni starfsemi.

Sá galli er á gjöf Njarðar að innlend fiskvinnsla fær ekki óunna fiskinn til vinnslu hjá sér og störf tapast. Inn í umræðuna blandast líka spurningar hvort hætta sé á að sjómenn séu hlunnfarnir í viðskiptum með fisk sem landað er fram hjá vigt eða seldur utan viðurkenndra fiskmarkað en það eru þá mál sem eiga heima á borði eftirlitsaðila og óljóst hvort það sé vandamál sem eigi einungis við um viðskipti með óunninn fisk.      

Að moka skurð og moka aftur ofan í hann

Ef markmið þingmanna atvinnuveganefndar er fyrst og fremst að fjölga störfum þá er hægt að setja lög sem banna eða takmarka útflutning á óunnum fiski, jafnvel þótt slíkt kunni að skila þjóðarbúinu minni verðmætum heilt yfir, og fjölga þannig störfum í fiskvinnslu hér á landi. Sérfræðingar hjá ríkinu fengju það starf að finna út og setja í reglugerð hvaða skilyrði þyrfti að uppfylla til að fiskur teldist unninn og aðrir fengju líka störf við eftirlit með því að reglunum væri framfylgt. Augljóslega kæmust embættismenn að þeirri niðurstöðu að handflaka þyrfti fiskinn því notkun á flökunarvél væri ekki í anda laganna. Skurðarvél, færibönd og lyftara mætti ekki heldur nota ef hin nýju lög ættu að hafa alvöru áhrif.

Engin ástæða væri heldur til að láta þarna staðar numið. Með því að leyfa einungis smábátum að veiða mætti fjölga mjög í stétt sjómanna. Það væri líka rakið að banna stóra flutningabíla til að hafa þá minni og fleiri og fjölga þannig störfum bílstjóra. Endalausir möguleikar ef markmiðið er það eitt að fjölga störfum.  

Eina vandamálið við þessa fínu hugmynd er að hún hefur ítrekað verið reynd og virkar einfaldlega ekki. Það eru verðmætin sem búin eru til sem er aðalatriðið – verðmætasköpun til að standa undir velferðarþjónustunni og byggja upp gott samfélag. Verðmæti verða til með leit einstaklinga að nýjum tækifærum, áhættutöku og nýsköpun sem skilar árangri á frjálsum markaði.

Á skal að ósi stemma

Það er vitaskuld áhyggjuefni ef fiskvinnslur vítt og breitt um landið eru ekki lengur samkeppnishæfar við erlenda keppinauta um öflun hráefnis sem veitt er á Íslandsmiðum. En þá verður að greina orsök vandans rétt og beita þeim meðulum sem hæfa sjúkdómnum. Ekki er ólíklegt að hár framleiðslukostnaður sé vandamál í greininni. Laun eru til að mynda ívið hærri hér en í mörgum nágrannalöndum. Íþyngjandi skattar og margskonar kvaðir í regluverkinu auka svo enn frekar á vandann. Háværar og síendurteknar yfirlýsingar vinstri manna um að kollvarpa skuli fiskveiðistjórnarkerfinu eru heldur ekki beint til þess fallnar að auka tiltrú fjármagnseigenda á því að skynsamlegt sé að fjárfesta í sjávarútvegi svo hægt sé að auka framleiðni og efla nýsköpun.

Full ástæða er til þess að bregðast við þessum vandamálum en gera verður það með réttum hætti og huga þá að þeim meginatriðum sem eru til þess fallin að auka samkeppnishæfni fiskvinnslufyrirtækja á alþjóðlegum mörkuðum.   

Draugar fortíðar eru bara einmitt það

Þótt á móti blási í efnahagsmálum um þessar mundir er það engin lausn að hverfa aftur til vondra hugmynda um ríkisafskipti og ríkisvæðingu atvinnulífs til að fjölga störfum. Skynsamlegra er að leysa enn betur úr læðingi krafta einkaframtaksins til að hámarka verðmætasköpun í samfélaginu eins og hægt er. Það á við um sjávarútveginn sem og allar aðrar atvinnugreinar.

Með hófstilltari álögum, minni ríkisafskiptum og skilvirkara regluverki eykst samkeppnishæfni landsins á alþjóðlegum mörkuðum og réttu skilyrðin skapast til að störfum fjölgi. Ýmislegt í lagaumgjörð hins opinbera mætti betur fara í þeim efnum og því eru næg tækifæri fyrir þingmenn atvinnuveganefndar til að láta gott af sér leiða og láta þá um leið af eltingaleik við villuljós fortíðar.  

Latest posts by Teitur Björn Einarsson (see all)

Teitur Björn Einarsson skrifar

Teitur hóf að skrifa á Deigluna í febrúar 2006.