Myndum við treysta þríeykinu ef það væri tölva?

Við viljum eiga kökuna og borða hana líka, við viljum faglega ákvarðanatöku byggða á vísindum en líka sveigjanleika og sanngirni. Eitt getur ekki án hins verið. Ef við ætluðum bara að hlusta á hrá vísindin hefðum við væntanlega allt eins getað rúllað fram tölvu á blaðamannafundunum og látið hana lesa upp nýjustu tölur, sóttvarnaraðgerðir og reglur.

Á dögunum heyrði ég á tal tveggja ungra drengja sem ég myndi giska á að væru um það bil 10 ára gamlir. Þeir áttu í miklum rökræðum og skoðanaskiptum sín á milli, m.a. hvort Messi eða Ronaldo væri betri í fótbolta og hvort menn yrðu massaðri af því að drekka nýmjólk eða fjörmjólk. Umræðurnar voru hráar og beinskeyttar og gengu á löngum köflum út á að skiptast á stökum orðum, t.d. „Nei/Já“ en þegar leið á lengdu þeir mál sitt með setningum eins og „Messi er bestur“ sem hinn svaraði þá „Nei Ronaldo er bestur“ og svo kolli af kolli. Ekki náðist sérstök niðurstaða eða sátt í þessum málum.

Þó það sé kannski freistandi að líta á að svona form af rökræðum sé einfalt og barnalegt, þá velti ég því stundum fyrir mér hvort allar rökræður séu ekki í raun ákveðið afsprengi af þessum hráu skoðanaskiptum. Ungu drengirnir höfðu það líka fram yfir marga sem eldri eru og beita háþróaðri aðferðum í sínum deilum að þeir létu þessi átök á engan hátt spilla sinni vináttu og enduðu á að fastsetja það að gista saman um kvöldið.

Aldrei ósigur

Almennt finnst fólki ekki gaman að viðurkenna ósigur í rökræðum. Raunar finnst okkur það svo óskemmtilegt að við erum tilbúin að leggja mjög mikið á okkur til þess að forðast það. Enda eru rökræður þeim töfrum gæddar að það er engin sérstök leið til að úrskurða um sigurvegara þannig að yfir allan vafa sé hafið. Þátttakendur túlka úrslitin einfaldlega sjálfir og mjög gjarnan sér í hag. Og jafnvel þegar svo undarlega vill til að einhver telur sig hugsanlega, kannski, hafa verið á röngum slóðum eða talað fyrir rangri skoðun, þá er yfirleitt afar djúpt á því að viðkomandi viðurkenni það beint út. Vænlegri útgönguleið er að kenna utanaðkomandi aðstæðum um, upplýsingagjöf hafi jú verið ábótavant, skoðunin hafi ekki beint verið röng, a.m.k. ekki að öllu leyti og alls ekki á þeim tíma sem hún var sett fram en hugsanlega megi endurskoða hana að hluta í ljósi nýrra upplýsinga. Þá hafi andstæðingurinn verið fádæma óbilgjarn og ósanngjarn í allri sinni framgöngu.

Æðsta trompið

Eftir því sem rökræðurnar verða fágaðri og háþróaðri er eftirsóknarvert að geta stutt skoðanir sínar og sjónarmið með því að vísa til utanaðkomandi álita, vitneskju eða sanninda. Sá sem gerir það færir vígvöllinn til þannig að rökræðan snýst ekki lengur um persónulegt gildismat viðkomandi heldur tilteknar, óhrekjanlegar staðreyndir sem óháður þriðji aðili hefur kynnt, vísindalegar niðurstöður andspænis persónulegu gasi andstæðingsins.

Ábyrgð vs. kæruleysi

Þetta er reyndar orðið svo áberandi í dag að það heyrir til undantekninga að sjá stjórnmálamenn tala út frá tilfinningu sinni eða hyggjuviti. Þess í stað er það til siðs að byggja málflutning sinn á óháðum sérfræðingum og vísindamönnum. Það síðarnefnda hefur yfirbragð ábyrgðar og skynsemi en hið fyrrnefnda þykir til marks um kúrekaskap og kæruleysi.

Til að flækja málið þá viljum við, þrátt fyrir þetta, líka stjórnmálamenn sem sýna dug og þor og láta ekki aðra stjórna sér. Og svo hitt að niðurstöður vísindanna geta verið breytilegar frá einum tíma til annars, það sem var viðurkennt fyrir fimmtán árum er það ekkert endilega í dag.

Kórónaveiran sullar saman vísindum og stjórnmálum

Þetta samspil vísinda og stjórnmála er áberandi í baráttunni við kórónaveiruna. Baráttan við veiruna leitar í vísindi og fræði sóttvarna en til þess að ná árangri þarf að setja nánast allt samfélagið í ákveðna spennitreyju með tilheyrandi átökum og erfiðleikum fyrir marga. Við byggjum á vísindum í grunninn en fylgifiskur þess er svo að það þarf að reisa alls konar girðingar og reglur hingað og þangað um samfélagið sem eru vitaskuld umdeildar. Mér fannst þetta kristallast ágætlega þegar ég las færslu frá foreldri sem í sömu setningunni mærði aðgerðir sóttvarnaryfirvalda og missti sig líka vegna þess að íþróttaæfingar 5. flokks karla voru ekki með óbreyttu sniði.

Mestu verðmæti þríeykisins

Við viljum eiga kökuna og borða hana líka, við viljum faglega ákvarðanatöku byggða á vísindum en líka sveigjanleika og sanngirni. Eitt getur ekki án hins verið. Ef við ætluðum bara að hlusta á hrá vísindin hefðum við væntanlega allt eins getað rúllað fram tölvu á blaðamannafundunum og látið hana lesa upp nýjustu tölur, sóttvarnaraðgerðir og reglur.

Eins vönduð og fagleg og sóttvarnaryfirvöld eru, þá hafa þeirra mestu verðmæti sennilega verið hvað talsmenn þeirra eru viðkunnanleg. Ímyndum okkur að sóttvarnarlæknir væri hvass og hrokafullur akademíker sem svaraði spurningum stuttur í spuna og talaði niður til misgáfulegra spurninga blaðamanna. Léti kannski hafa eftir sér að sig varðaði ekkert um það hvernig önnur svið þjóðfélagsins hefðu það, hann væri bara að einbeita sér að sóttvörnum. Hefðu aðgerðir þeirra fengið jafnmikinn stuðning og raun ber vitni? Eða er ekki líklegra að alda móðgana og hneykslunar hefði risið upp og aðgerðirnar orðið umdeildar, jafnvel þótt vísindalegur grundvöllur þeirra hefði ekkert breyst? Þrátt fyrir allt höfum við enn þá þörf á að láta pakka hlutunum huggulega inn fyrir okkur af fólki sem við tengjum við og kunnum vel við.

Fagleg Inga Sæland

Innbyrðis ósamræmi vísindanna getur líka verið áhugavert fyrirbæri. Þeir sem hafa sett sig upp á móti aðgerðum sóttvarnaryfirvalda hér á landi og haldið því fram að þær séu of harðar hafa mátt sitja undir harðri gagnrýni. Þeir hinir sömu væru hins vegar stuðningsmenn vísindanna í Svíþjóð þar sem sóttvarnaryfirvöld komust að þeirri vísindalegu niðurstöðu að það væri ekki tilefni til að fara í mjög harðar aðgerðir. Brynjar Níelsson væri væntanlega harðasti talsmaður Andreas Tegnell, sænska sóttvarnarlæknisins þar og myndi líklega predika mikilvægi þess að fylgja faglegri ráðgjöf. Þegar Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, hélt því fram í febrúar á þessu ári að það ætti að loka landinu án tafar talaði hún gegn vísindunum, eins og þau voru þá og fékk bágt fyrir, m.a. var hún spurð hvaða sérfræðiþekkingu hún hefði eiginlega til að vera að sjá sig svona um málið. Eftir á að hyggja voru sóttvarnarráð Ingu alls ekki vitlaus, jafnvel þótt hún væri ekki sérfræðingur.

Vísindi með sveigjanleika

Auðvitað er ákvarðanataka sem byggir á vísindum það sem við styðjumst við og viljum horfa til. En sama hversu vel það hljómar að byggja bara á faglegu mati vísindanna og láta það yfirtrompa allt annað þá er ágætt að minna sig á það reglulega að vísindin eru hvorki fullkomin né svara þau öllum okkar kröfum og þörfum. Ef maður ætti að lýsa þessu í mjög stuttu máli þá viljum við vísindalega nálgun með innbyggðum sveigjanleika og möguleika á undanþágum.

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.