Drottningarbragð Laufásborgar

Þetta umhverfi, þar sem kennari með mögulega sérstæðan hæfileika í upphafi, getur sökum styrkrar stjórnunar og stuðnings skólans, þróað annað eins ævintýri, hlýtur að vera umhverfi sem flestir vilja börnunum sínum.

Fjögurra ára sonur minn, settist í fangið á mér í gærkvöldi þegar hann sá að ég var að tefla á netinu. Fyrsta spurningin var hvort ég væri ekki örugglega að vinna og sú næsta af hverju ég drep ekki þennan leikmann í næsta leik. Ég reyndar fann hvernig virðing hans gagnvart mér minnkaði við hvern leik þar sem enginn taflmaður fauk út af.

Hann kann mannganginn nokkuð óaðfinnanlega og finnst gaman af að tefla og horfa á aðra tefla, en tekur tapi eins og búast má við af fjögurra ára barni. Rudy Giuliani myndi jafnvel segja honum að róa sig ögn, þótt hann skilji hvað hann er að ganga í gegnum.

Þessi inngangur slær væntanlega flesta sem illa framkvæmt “humble brag” um snilli fjögurra ára sonar míns, en það er ekki ætlunin. Hann lærði ekki að tefla með að horfa á bert loftið líkt Beth Harmon í The Queen’s Gambit, heldur er svo heppinn að vera á leikskóla Hjallastefnunnar á Laufásborg.  Þar hefur hann lært að tefla undir handleiðslu Omars Salama, líkt og eldri systir hans gerði einnig.

Skákkennsla Laufásborgar er frábært dæmi um hvað getur gerst þegar hæfileikaríkt fólk væri tækifæri og frelsi til að dafna og þróast. Kennslan hefur þróast frá árinu 2008 þegar Omar byrjaði að kenna ungum börnum þar að þekkja mannganginn og nöfn taflmanna. Kennslan hefur þróast og nú læra öll 3-5 ára börn við skólann að tefla og hafa gaman af. Laufásborg tók fyrst þátt í grunnskólamóti barna í skák árið 2017 og var þá og er enn eini leikskólinn sem tekur þátt í því móti. Eftir mótið 2017 kom boð um að taka þátt í Heimsmeistaramóti barna í skólaskák sem fór fram í Albaníu. Rökrétt næsta skref að drífa sig með fjögur 5 ára börn á heimsmeistaramót í skák. Til að halda áfram illa framkvæmdu “humble brag” þá var dóttir mín í þeim hópi.

Áfram héldu ævintýrin og enn stærri sveit hélt til Rúmeníu á Evrópumeistaramót í skólaskák fyrir ári síðan. Á báðum þessum mótum var Laufásborg fyrsti og eini leikskólinn til að senda keppendur. Á báðum mótum komu nokkrir vinningar í hús og leikskólabörnin stóðu sig með prýði. Aðstæður á keppnisstað eru kannski ekki svo frábrugðnar þeim sem áhorfendur sjá í The Queen´s Gambit. Það er algjör þögn í boði, teflt er eftir klukku og allir leikir skulu skrifaðir niður, jafnvel þó maður sé bara 5 ára og í raun ekki búinn að læra að lesa og skrifa. Þá getur hver skák tekið allt að 3-4 klukkustundum og foreldrar mega ekki vera inn í keppnissalnum. Um síðustu helgi keppti svo 8 ára fyrrum nemandi Laufásbogar fyrir hönd barna- og unglingalandsliðsins í skák.

Leikskólanum Laufásborg er stýrt af mikilli röggsemi en systurnar Jensína og Matthildur Hermannsdætur eru þar skólastjórar.  Að vera skólastjóri í leikskóla er enginn barnaleikur og margt í rekstri og kennslu sem gefur ekki mikið rými til þess að bregða frá kjarnastarfssemi. Örugglega mun þægilegra að sinna bara sínu, sérstaklega þar sem Reykjavíkurborg, eitt sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins greiðir minna með hverjum nemanda í einkareknum skólum, þrátt fyrir nokkra eftirspurn sömu borgarfulltrúa að koma börnum sínum í skólann.

Í anda Hjallastefnunnar gripu þær systur tækifærið til að leyfa Omari að dafna og miðla skákþekkingu sinni. Þetta umhverfi, þar sem kennari með mögulega sérstæðan hæfileika í upphafi, getur sökum styrkrar stjórnunar og stuðnings skólans, þróað annað eins ævintýri, hlýtur að vera umhverfi sem flestir vilja börnunum sínum. Rannsóknir hafa líka sýnt að skákkennsla eykur skapandi hugsun og getur stuðlað að aukinni námsgetu, styrkir einbeitingu, eykur ímyndunarafl og sjónminni, eykur forsjálni og þjálfar nemendur í ákvarðanatöku, í lausnamiðaðri hugsun og þrautseigju sem er öflug færni til framtíðar.

Latest posts by Vignir Hafþórsson (see all)

Vignir Hafþórsson skrifar

Vignir hóf að skrifa á Deigluna í október 2009.