Meira frelsi og meira frítt stöff

Undanfarið hefur verið mikil umræða um höfundalög og netið. Ekki í fyrsta skipti og alveg örugglega ekki í það seinasta. Píratinn Helgi Hrafn skrifaði frábæra grein þar sem hann útskýrði sjónarmið Pírata, eftir ádeilu frá Agli Helgasyni sem kallaði afstöðu Pírata vandræðalega gagnvart „þjófnaði“. Eins og Helgi benti á þá er baráttan töpuð nema með gríðarlega miklu inngripi inn í einkalíf fólks. Menn geta haldið áfram að loka lénum, en það mun ekki skipta neinu máli, það er löngu búið að kenna þjóðinni hvernig á að fara fram á slíku. Á hinn bóginn réttlætir getan til að „stela“ tónlist því ekki að það sé gert, það er tónlistariðnaðarins að aðlaga sig þannig að fólk hafi aðstæður til að hlusta löglega á sitt efni sem eðlilega er greitt fyrir. Mikill meirihluti fólks gerir hlutina rétt, hafi það aðgengi til þess.

Skiljanlega eru ekki allir sammála þessu og einn af þeim sem bregst við pistli Helga er Hilmar Sigurðsson sem segir meðal annars:

„Hún er þekkt mýtan um að það þurfi bara að finna upp ný viðskiptamódel fyrir bita og bæta hagkerfið á netinu. Að höfundar og rétthafar verði bara að finna nýjar leiðir til að dreifa sínu efni. BULL! Það er hlutverk þeirra sem taka efnið og falbjóða það á einhver hátt að standa skil á greiðslum fyrir það.“

Tónlist varð ekki til með upptökutækninni, og tónlistarmenn fengu greitt fyrir þjónustu löngu áður en hægt var að taka upp tónlist. Tæknin var gríðarlegt tækifæri, þar sem allt í einu ekki var lengur þörf að vera með fólk í vinnu við að spila lifandi tónlist og glymskrattinn kom í stað tónlistarmannsins. Í þessu voru bæði ógnanir og tækifæri fyrir tónlistarmenn. Tónlistarmenn sem áður höfðu atvinnu að því að spila lifandi tónlist misstu vinnuna og í staðin komu dauð tæki. Venjulegt fólk fékk tækifæri til að fá tónlist heim til sín, til varð gríðarlegur markaður, Súperstjörnur urðu til og ásamt heilum iðnaði fyrir tilstilli tækninnar. Án hennar værum við í mesta lagi að ræða tapaðan hagnað af nótusölu höfunda.

Eins og þá eru nú ógnanir og tækifæri í nýju umhverfi. Það er ekki BULL! að iðnaðurinn þurfi að aðlaga sig að nýjum aðstæðum eins og hann hefur gert hingað til. Það er svo sannarlega ekki bara tónlistariðnaðurinn sem hefur þurft að aðlaga sig að nýju umhverfi. Netið hefur valdið gríðarlegum breytingum og slíkar breytingar verða ekki sársaukalausar. Um leið og menn fagna tækifærunum sem í henni felast þurfa menn að glíma við ógnina. Tónlistariðnaðurinn getur barið hausnum við stein, reynt að höfða til samvisku fólks eða hótað því, sagt fólki hvers konar fávitar það sé að vilja ekki gera eins og það er ætlast af því. Raunveruleikinn er að það er iðnaðurinn sem þarf að nálgast fólkið en ekki öfugt.

Þótt sumir virðist vera ósáttir við þessa þróun, hefur tónlistariðnaðurinn engu að síður verið að aðlaga sig að breyttum aðstæðum smám saman. Staðan í dag og bara fyrir 5 árum hefur gjörbreyst. Á endanum snýst þetta oft um þægindi og aðgengi. Fyrir 5 árum, þá voru möguleikar til að sækja tónlist löglega mun fábreyttari en þeir eru í dag. Sala geisladiska hefur vissulega hrunið, en tugir þúsunda Íslendinga greiða fyrir streymisþjónustur í hverjum mánuði, nota fríar veitur sem birta auglýsingar, kaupa tónlist beint af höfundum eða hlusta á tónlist í gegnum myndbandsveitur. Ef tónlistariðnaðurinn ætlar að hindra aðgengi, mun straumurinn leita annað og þá ekki endilega þá leið sem iðnaðurinn vill fá strauminn.

Menn geta svo deilt um hvort það sé greitt á réttlátan hátt fyrir tónlistina, en það er ekki neytenda að hafa áhyggjur af því. Það er heldur ekki neytenda að hafa áhyggjur af því hver það er sem græðir á tónlistinni, hvort það séu tónlistarveitur, netveitur, framleiðendur, höfundar eða tónlistamenn. Það er tónlistarmanna sjálfra stýra því hvar og hvernig þeir selja sína eigin tónlist og hvort þeir gefi hana, hvort þeir vilji selja geisladiska sjálfir í símsölu eða setja í streymisveitur.

Á sama tíma er fráleitt að reyna að þjófkenna fólk sem kaupir ekki efnið samkvæmt einhverjum svæðum sem tónlistariðnaðurinn ákveður. Ef ég vil frekar kaupa mína tónlist í veitu í Bandaríkjunum þótt ég búi á Íslandi, get ég mögulega verið að brjóta gegn einhverjum skilmálum en það er BULL! að ætla að kalla mig þjóf. Það er erfitt að sjá í hverju sá þjófnaður ætti að vera fólgin.

Það er BULL! að það eigi að grípa til mjög víðtækra aðgerða og inngrips inn í einkalíf fólks með því að fylgjast með hvað fólk er að gera á netinu bara vegna þess að það sé mögulega að gera eitthvað ólöglegt. Engum dytti í hug að setja upp löggæslumyndavélar á öllum heimilum landsins til að koma í veg fyrir heimilisofbeldi eða að leitað væri á öllum í Hagkaup, þótt talið sé að þjófnaður í verslunum nemi 6 milljörðum árlega – til samanburðar nam uppreiknuð smásala á geisladiskum frá 1996 um 2 milljörðum (*). Þetta eru einfaldlega alltof inngripsmiklar aðgerðir. Ef þetta væri framkvæmt í Hagkaup myndu raunverulegur þjófar líklega finna leiðir fram hjá leitinni og heimilisofbeldið færi fram þar sem myndavélarnar sæju ekki til. Eftir sæti því umfangsmikið eftirlit með saklausum borgurum sem ekkert gagn gerði. Það sama á við um njósnir með okkur á netinu – þeir sem vilja brjóta af sér hafa leiðir. Munurinn er að njósnir á netinu eru ekki sýnilegar – það er enginn leiddur inn í klefa í Hagkaup og við sjáum ekki myndavélarnar.  Fólk á því auðveldara með að réttlæta fyrir sér slíkar njósnir á venjulegu fólki – þótt þær séu jafn óréttlætanlegar.

Það er ekki deilt um að tónlistarmenn og eigendur höfundarréttar eigi að fá greitt eðlilega fyrir sína vinnu og ný tækni breytir engu um það.  Á sama tíma er nauðsynlegt að skilja að það ógerlegt að stöðva framþróunina, hún er á fullu og mun halda áfram. Alveg sama hvernig það er reynt að hóta eða höfða til samvisku fólks. Iðnaðurinn þarf sjálfur að leysa úr því máli en ekki löggjafinn. Það er svo algjört BULL! að fara fram á verulegt inngrip inn í einkalíf fólks á netinu í þeirri von að fólk muni mögulega gera eitthvað af sér. Ekki frekar en að við sættum okkur við slík inngrip í okkar daglega líf á öðrum sviðum.

(*)Smásala á geisladiskum 1996 nam 840 milljónum samkvæmt skýrslunni „Íslenskur tónlistariðnaður – aukin sóknarfæri“. Á þeim tíma var netið ekki farið að hafa áhrif og fyrsti ipodinn var seldur 5 árum síðar.

Latest posts by Tómas Hafliðason (see all)

Tómas Hafliðason skrifar

Höfundur hefur skrifað á Deigluna frá árinu 2002. Höfundur er verkfræðingur frá Háskóla Íslands og rekur eigið fyrirtæki.