Hávaðabelgur í öfugum hundi

Þótt ég hafi hlustað á foreldraviðtal eftir foreldraviðtal, í raun alla mína skólagöngu, um að ég væri of hávær í skólanum og yfir höfuð í lífinu sá ég alltaf fyrir mér að þetta myndi eldast af mér. Ég yrði ekki eins hávær þegar ég yrði fullorðin.

 

Þá myndi ég ganga um alla liðlangan daginn yfirveguð og alvörugefin. Heima hjá mér og um helgar myndi ég svo vera með friðsælt bros á vör í einhverskonar hörmussum og birkenstock sandölum sem eru ákveðin yfirlýsing um innri frið.

 

Raunin er hins vegar önnur. Ég á afskaplega erfitt með að vera lágvær og alvörugefin til lengri eða skemmri tíma og ég geri mér enga grein fyrir því hversu hávær í rauninni ég er. Ekki frekar enn í grunnskóla. Ég á heldur enga hörmussu.

 

Í sumar gerði ég þó tilraun til þess að færa mig skrefinu nær þessari tilveru sem ég hafði séð fyrir mér sem barn. Ég keypti mér jógamussu (ódýrari útgáfan af hörmussunni því hún er bara úr bómull – ekki einu sinni lífrænni) og byrjaði að stunda jóga af miklum móð. Ég sá fyrir mér að í bráðanáinni framtíð væri ég farin að ganga um í jógamussunni minni í vesturbænum angandi af innri frið, hógværð og lágværð.

 

Þetta var mitt næsta skref inní fullorðins árin og hinn eilífa innri frið sem ég taldi vera ótvíræður fylgifiskur fullorðinnsáranna en hafði látið á sér standa hjá mér. Því í raun langar mig meira í derhúfu eins og hinir töffararnir ganga með heldur en hörmussuna.

 

Ég er búin að vera í öfugum hundi og fettandi mig og brettandi oft á dag síðan í næstum tvo mánuði en allt kemur fyrir ekki. Ég verð ekkert lágværari. Kannski var ég bara að fara eitthvað rangt að þessu en ég held ég sé samt farin að skilja þetta. Kannski gerðist það einmitt í miðjum froski á leið í glaða barnið (ef þið vitið ekki að þetta eru jógastöður eigi þið enn lengra í land með að finna innri frið en ég).

 

Þessi barnalega heimsmynd mín um hina hljóðlátu, friðsælu fullorðnu konu var kannski svolítið bjöguð því hún gerði ekki ráð fyrir því að konur væru frekar, háværar, eða voldugar eða gráðugar. Það var einfaldlega ekki kvenlegt. Mikið er ég glöð yfir því að heimurinn sé breyttur.

 

Ég ætla því að halda áfram að elska jógað mitt, sem mér finnst gera mér gott, þrátt fyrir allt, kaupa mér derhúfu og fagna því þegar dóttir mín er kölluð frek, hávær eða óstýrilát. Þetta eru eiginleikar sem hafa komið körlum áfram í áraraðir og ég vona að hún tileinki sér.

Latest posts by Kristín Hrefna Halldórsdóttir (see all)