Bílaborgin og föðurlandið

Eitthvert skrýtnasta deilumál okkar sem búum í höfuðborginni er deilan um einkabílinn. Deilan tekur á sig ýmsar myndir. Þannig virðist þeir sem eru á móti einkabílnum líka á móti flugvellinum í Vatnsmýri, en bílafólkið er á hinn bóginn sagt andvígt þéttingu byggðar. Þá vill bílafólkið ekki eyða meiri pening í almenningssamgöngur á meðan hinir hjólandi hipsterar vilja ekki fleiri mislæg gatnamót. Þessar víglínur eru alveg hreint ótrúlega skýrar og lífseigar.

Við þetta bætist að báðir aðilar saka hinn um aðför að frelsi einstaklingsins. Það minnir reyndar á flestan ófrið veraldarsögunnar, þar sem guð er jafnframt með báðum í liði.

Sjálfur er ég bílamaður. Finnst gaman að keyra um allt á gömlum jeppa sem bæði mengar mikið og eyðir miklu. Hann er svona mín yfirlýsing um sjálfstæði hins vestræna karlmanns, svipað og Worchestersósan, sem ég er reyndar að hættur að nota jafnmikið og ég gerði, sökum þráláts brjóstsviða sem hún veldur.

En ég er líka hipster í eðli mínu (ber það auvitað ekki utaná mér, enda utan af landi) og finnst fínt að taka strætó og hvíla gamla grána í hlaðinu heima 2-3 daga í viku. Mér finnst líka frábært að geta nálgast eiginlega alla þjónustu innan hálftíma göngufæris og vera 15 mínútur að hjóla í vinnuna.

Ef það er eitthvað sem ég þoli ekki við að búa í Reykjavík þá er það að eiga erindi austur fyrir Kringlumýrarbraut frá kl. 15 til 18 á virkum dögum, forðast það í lengstu lög og leysi með alkunnri sérhlífni og tilætlunarsemi gagnvart öðrum.

En það eru ekki allir svona vel í sveit settir. Borgin er raunveruleg, skipulagið er staðreynd og fjarlægðirnar hlutlægar, að ógleymdu veðrinu. Það búa tugir þúsunda manna í mikilli fjarlægð frá vinnustaðnum sínum og þétting byggðar er ekki svarið við daglegum vandamálum þeirra – ekki nema lausnin sé að bregða búi í úthverfum borgarinnar með almennum hætti.

Að sama skapi leysa fleiri mislæg gatnamót ekki vandann. Það leysir heldur ekki vandann að draga úr almenningssamgöngum og skipuleggja fleiri bílastæði og stærri breiðstræti fyrir bílaumferð.

Hjá hópunum framangreindu, en ég tileyri báðum þeirra, snýst þetta í raun ekki lengur um að ná sem bestri niðurstöðu. Þetta snýst um það að gefa ekki eftir. Það er ágætis kostur þegar þú ert að verja föðurlandið fyrir innrásarher en þegar fólk er að koma sér saman um skipulag hins daglega lífs þá er það soldill ókostur.

Augljóslega þarf að efla almenningssamgöngur (og ekki byrja með að þær séu sósíalismi, vargakapítalistarnir í London og New York fundu þær nánast upp) og þétta byggðina þar sem því verður við komið. Á sama tíma þurfa borgaryfirvöld að horfast í augu við veruleikann sem blasir við íbúum úthverfanna og haga þarf skipulagi þannig að þeir eigi greiðari leið í vestur að morgni og til baka að loknum vinnudegi.

Þetta er ekkert flókið. Við erum ekki að verja föðurlandið, við erum bara að koma okkur saman um heppilegt fyrirkomulag á borginni sem við búum í.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.