Með lyklana að vopni

Nýlegt morð á Söru Everard í Englandi minnir okkur á hversu hættuleg veröldin getur verið fyrir okkur konur. Í nýlegri könnun í Bretlandi kemur fram að 97% kvenna á aldrinum 18 – 24 hafa orðið fyrir áreitni, við gætum því nánast sagt að allar konur verði fyrir áreitni, en höfum í huga Bretland er ekki eyland í þessum efnum.

Okkur konum er sagt frá unga aldri að vera ekki einar á ferli, ekki fara einar á klósettið þegar þið eruð að djamma, passa drykkinn sinn og ef þú þarft að labba ein settu þá lyklana á milli puttana, vertu að tala í símann þegar þú ert að labba ein og vertu á varðbergi. Við höfum eflaust allar einhvern tímann þverað Laugaveginn ef það kemur strákahópur á móti og þú ert ein, ætli einhver strákur hafi gert það þegar það er stelpuhópur að koma á móti? Við erum þjálfaðar í því að vera alltaf á varðbergi því þú veist aldrei hver er fyrir aftan þig.

Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands sagði í tilefni af morði Söruh Everard að hann myndi gera allt sem í hans valdi væri til að passa það að konur verði ekki fyrir áreitni eða ofbeldi. Þetta eru fögur orð, og mikilvæg. Það er mikilvægt að leiðtogar vakni og sjái hversu mikil vá þetta er fyrir samfélag okkar. En það er ekki nóg að setja lög, það er eitthvað að í kynjakerfinu okkar.

Það er nefnilega ekki þannig að menn fæðist ofbeldismenn, ég held líka að enginn sé með ásetningi að ala upp ofbeldismenn heldur er eitthvað í þeim kúltur sem við höfum skapað sem gerir þetta að verkum. Því þurfum við að breyta. Mikið hefur gerst hér á landi, alls kyns herferðir farið af stað og lög hafa breyst til hins betra í þessum málaflokki en hvað getum við gert til að útrýma þessu kannski á líftíma Boris sem vill útrýma ofbeldinu?

Í dag var hrint af stað verkefni sem heitir Jákvæð karlmennska sem Karlmennskan, Stígamót, UN Women, Píeta samtökin og kynjafræði í Háskóla Íslands standa að. En í yfirlýsingu segir „Jákvæð karlmennska tekur afstöðu gegn ofbeldi, íhaldssömum kynhlutverkum, valdatengslum milli karla og kvenna og karla á milli. Jákvæð karlmennska grundvallast á virðingu, mennsku og jafnrétti og lærist í gegnum félagsmótun líkt og önnur karlmennska. Jákvæð karlmennska felur í sér ábyrg viðhorf, lífsgildi og hegðun meðal drengja og karla sem hefur jákvæðar afleiðingar fyrir þá sjálfa og umhverfið sem þeir eru hluti af. Með öðrum orðum vinnur jákvæð karlmennska gegn neikvæðum áhrifum samfélagslega ráðandi staðalmynda um karla og drengi. Jákvæð karlmennska er því sú tegund karlmennsku sem stuðlar að jafnrétti milli kynja, karlmennsku og kvenleika, og í raun meiri mennsku. Jákvæð karlmennska ber ekki með sér kynjuð valdatengsl feðraveldis karlmennsku og er því styðjandi við jafnrétti. Slík tegund karlmennsku getur haft víðtæk jákvæð áhrif í samfélagslegu samhengi.“

Þetta eru nauðsynlegar samfélagsbreytingar en þetta verður ekki unnið með einu átaki þetta þarf að vinnast með öllu samfélaginu. Við sem ölum upp börn þurfum að ala þau upp við að kynin séu jöfn, að koma eigi eins fram við þau og koma fram við alla af virðingu.

Í hvert sinn sem svona skelfilegur atburður gerist eins og morðið á Söruh þurfum við að staldra við og hugsa hvað getum við gert betur og hvað getum við gert til að þetta komi ekki fyrir og vonandi með því kemur sá tími að þetta gerist ekki meir. Að einn daginn ölum við ekki stelpurnar okkur upp við að þurfa að ganga um með lyklana sína að vopni.

Latest posts by Stefanía Sigurðardóttir (see all)

Stefanía Sigurðardóttir skrifar

Stella hóf að skrifa á Deigluna í nóvember 2004.