Brosandi í ríkisstjórn

Lengi framan af sögu lýðveldisins virðist það ekki hafa þótt vera traustvekjandi að brosa á myndum—og kannski bara ekki yfir höfuð. Kannski markaðist það af alvarleika verkefnanna sem ráðherrarnir tókust á hendur. En kannski var það hluti af einhvers konar leikriti, þar sem skipti máli að viðhalda fjarlægð milli valdsins og þegnanna?

Á myndinni af ráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur sem tók við völdum 30. nóvember eru allir brosandi. Forsetinn er líka brosandi. Brosin eru ólík. Sumir brosa með opinn munn eins og þeir séu að bresta í hlátur, einkum á þetta við um umhverfisráðherrann. Aðrir brosa fremur pent og yfirvegað, eins og menntamálaráðherra, heilbrigðisráðherra og fjármálaráðherra. Enn aðrir, til dæmis nýsköpunarráðherra, sjávarútvegsráðherra og dómsmálaráðherra (þá Sigríður Andersen) brosa einlægt, eins og lífið sé yndislegt. Samgönguráðherra og utanríkisráðherra eru báðir fremur sposkir, brosa lúmskt og skemmtilega, og hið sama má segja um sjálfan forsetann. Félagsmálaráðherra er skemmtilega dreyminn. Forsætisráðherra brosir breitt og af sjálfstrausti; eins og sú sem valdið hefur á myndinni, eins og er viðeigandi.

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur tók brosandi við völdum.

Í stuttu máli eru allir kátir.

Fyrsta ríkisstjórnarmyndinn á vef stjórnarráðsins er af fjórða ráðuneyti Hermanns Jónassonar, sem sat ríflega hálft ár frá nóvember 1941 til maí 1942. Á myndinni af þeirri ríkisstjórn er enginn brosandi. Sveinn Björnsson, sem er í forgrunni á myndinni, virkar beinlínis í bardagaham og ráðherrarnir fimm leggja sig allir fram um að virðast alvarlegir á svip. Einn þeirra, Jakob Möller, er nánast stjarfur af einbeitingu á myndinni. Enginn ráðherranna horfir í linsuna, en Sveinn starir í hana, eins og hann ætli sér að brenna filmuna með augnaráðinu.

Sveinn Björnsson starir inn í tómið. En starir tómið á móti? Ríkisstjórn Hermanns Jónassonar var ekki hlátur í hug.

Næsta ríkisstjórnarmynd er miklu léttari. Ólafur Thors hefur skrúfað upp sjarmann og Jakob Möller, sem var svo alvarlegur í ríkisstjórn Hermanns, er broshýr og Magnús Jónsson virðist leika á als oddi. Þessi brosmilda ríkisstjórn sat líka einungis hálft ár.

Líklega er þetta besta ríkisstjórnarmyndin á vef Stjórnarráðsins. Það er létt yfir ráðherrum, enda var örugglega mjög þægilegt að sitja í þriggja manna ríkisstjórn.

Svo líða tólf ár þar til brosandi maður sest aftur í ríkisstjórn, og er það Ólafur Thors sem brosir einn á mynd af ríkisstjórn síns fjórða ráðuneytis sem kom til valda 11. september 1953. Almennt séð heyrir til undanteknina næstu áratugi ef það sést móta fyrir brosvipru hjá einstaka ráðherrum á myndum. Það er í raun ekki fyrr en í ráðuneyti Steingríms Hermannssonar, sem tók við völdum 26. maí 1983 sem segja má að meirihluti ríkisstjórnarinnar sé brosandi, en þó ekki allir. Næstu rúmlega tuttugu ár eru ráðherrar að prófa sig áfram og sífellt glaðlegri blær er á ráðherrununum sem raða sér í kringum ríkisstjórnarborðið.

Ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar er nokkuð brosmild og markar ákveðin vatnaskil í þeim efnum.

Fyrsta ríkisstjórnin þar sem segja má að allir ráðherrarnir séu greinilega brosandi er ráðuneyti Geirs H. Haarde sem tók við 15. júní 2006, en meiri alvarleikablær er á ráðherrunum í öðru ráðuneyti Geirs, sem tók við 24. maí 2007. Fyrri ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, sem sat í nokkra mánuði eftir mikið bramobolt í upphafi árs 2009 er skælbrosandi á sinni mynd og virðist góð og brosmild stemmning haldist í þessum myndatökum allar götur síðan.

Það var glatt á hjalla á Bessastöðum þegar ríkisstjónr Geirs H Haarde tók við 2006. Má segja að þetta sé fyrsta ríkisstjórnarmyndin þar sem allir brosa.

Eitthvað gæti þessi þróun sagt um tíðarandann. Lengi framan af sögu lýðveldisins virðist það ekki hafa þótt vera traustvekjandi að brosa á myndum—og kannski bara ekki yfir höfuð. Kannski markaðist það af alvarleika verkefnanna sem ráðherrarnir tókust á hendur. En kannski var það hluti af einhvers konar leikriti, þar sem skipti máli að viðhalda fjarlægð milli valdsins og þegnanna?

Hvernig sem á því stendur, þá virka þessar brosandi ríkisstjórnir miklu betur á mann. Brosin eru mannleg, hlýleg og stuðla að því að fólk eigi auðveldara að vera í kringum hvert annað, jafnvel þegar ágreiningur rís og það strekkist á taugum. Þótt verkefnin verði ekki auðveld á næstu árum og áratugum þá er vonandi að sú hefð haldist áfram að hið ágæta fólk sem tekur að sér hin vandasömu hlutverk í ríkisstjórnum haldi áfram að geta leyft sér að brosa framan í hvert annað, inn í myndavélina og út í heiminn.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.