Framtíðarborgin Reykjavík

Framtíðin er í sífelldri mótun. Lifandi borg þarf að taka mið af tíðaranda samtímans og fyrirsjáanlegri framtíð. Fólk biður um nýjar lausnir og borgarumhverfið þarf að bregðast við.

Guðjón Samúelsson, húsasmíðameistari ríkisins, var einn þeirra sem lagði drög að heildarskipulagi Reykjavíkur innan Hringbrautar á árunum 1924-1927. Í drögunum var gert ráð fyrir lestarstöð í Norðurmýri og þéttri borgarbyggð í anda þess skipulags sem þekktist í Kaupmannahöfn og öðrum nálægum borgum. Umrótið sem fylgdi síðari heimsstyrjöldinni leiddi hins vegar til þess að drögin fengu ekki staðfestingu og frekari stefnumörkun í skipulagsmálum var sett á bið.

Eftirstríðsárunum fylgdi mikil fólksfjölgun í borgum um allan heim. Gera þurfti langtímaáætlanir með tilliti til íbúaþróunar. Víða voru nýjar borgir skipulagðar alveg frá grunni, þar sem samspil bílsins og mannsins var í lykilhlutverki. Reykjavíkurborg fór ekki varhluta af þessari þróun.

Árið 1966 fjallaði Lesbók Morgunblaðsins um Reykjavík framtíðar. Horft var til þess tíma þegar Aðalskipulag Reykjavíkur 1962-1983 yrði fullframkvæmt. Fjallað var með dreymandi hætti um nútímalega höfuðborg með fullkomnu hraðbrautakerfi. Allt umhverfi yrði skipulagt með tilliti til bílaumferðar, önnur sjónarmið yrðu víkjandi. Framtíðarsýn Guðjóns Samúelssonar myndi víkja fyrir bílaborginni.

Tilviljanakennd þróun

Þegar atburðarásin er yfirfarin birtist glöggt hve margar sögulegar ákvarðanir hafa verið teknar fyrir einskæra tilviljun. Tíðarandi og velmegun eftirstríðsáranna leiddi til þess að bílamiðað borgarskipulag varð meginreglan í fjölda vestrænna borga. Reykjavíkurborg gat ekkert gefið eftir ætlaði hún að standast öðrum erlendum borgum snúning.

Stjórnmálamenn sjöunda áratugarins – og áratuganna sem fylgdu – byggðu borgarskipulagið á bestu fáanlegu upplýsingum. Jafnvel þeir framsýnustu gátu í besta falli verið fulltrúar tíðarandans og fyrirsjáanlegrar framtíðar. Stjórnmálamenn fyrri tíma sem talað hefðu gegn hinni byltingarkenndu einkabifreið hefðu náð takmörkuðum árangri, enda gerðu ríkjandi viðhorf bílaeign hátt undir höfði, bæði heima og heiman. Einkabíllinn þótti framtíðin.

Framtíð úr óvæntri átt

Framtíðin er áhugavert viðfangsefni. Hún kemur stundum úr óvæntri átt – en reynist stundum nokkuð fyrirsjáanleg. Sú framtíðarsýn sem unnið var eftir á sjöunda áratugnum sýnir glöggt hve framtíðin reyndist ófyrirsjáanleg. Tíðarandinn 2021 er gjörólíkur þeim tíðaranda sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins árið 1966. Sjaldan hafa breytingar á samfélagsgerð og kynslóðum verið örari.

Þegar borgarbyggð Guðjóns Samúelssonar vék fyrir bílaborginni kom framtíðin úr óvæntri átt. Nýlegar mælingar á ferðavenjum borgarbúa sýna jafnframt hve framtíðin getur komið að óvörum. Samkvæmt framanrituðum mælingum vilja 27% borgarbúa nú fara leiðar sinnar á reiðhjóli, en aðeins 35% á bíl. Það er veruleg áherslubreyting í borg þar sem nærri sjö af hverjum tíu fara leiðar sinnar á einkabifreið.

Reiðhjól hafa verið vaxandi fararmáti að upprunalegu frumkvæði Sjálfstæðimanna. Fjárfesting í samgöngukerfum fyrir reiðhjól hefur borið ríkulegan ávöxt en í dag fara 75% fleiri leiðar sinnar á reiðhjóli en með almenningsvögnum. Niðurstaðan sýnir glöggt að fjárfesting í nýjum samgöngukostum skilar árangri. Við gerð hjólreiðaáætlunar eru Sjálfstæðismenn nú í forystu og full ástæða til að stefna ótrauð að hjólreiðaborg á heimsmælikvarða.

Á tímum samkomubanns dró verulega úr umferðartöfum í Reykjavík. Vinnustaðir buðu sveigjanlegri vinnutíma og möguleikum til fjarvinnu fjölgaði. Fjarvinnan kynnti til sögunnar óvæntar lausnir – aukinn sveigjanleiki varð skyndilega lifandi hluti af lausn samgönguvandans. Síðustu mánuði hafa rafhlaupahjól jafnframt verið óvænt innlegg í samgöngur höfuðborgarsvæðisins. Allir aldurshópar þeysast um götur borgarinnar á rafknúnum hlaupahjólum og sýna glöggt hve framtíðin getur komið úr óvæntri átt.

Þá hafa ýmsir spámenn talið sjálfkeyrandi bíla verða nærtæka lausn samgönguvandans. Sérfræðingar segja þó áratugi í samgöngukerfi sem byggja munu á slíkum lausnum. Jafnvel framsýna farveitan Uber hefur hætt þróun sjálfkeyrandi leigubíla – reynslan hafi sýnt að lausnin verði hluti af fjarlægri framtíð ekki náinni. Segja sérfræðingar tæknina þurfa lengri þróunartíma og breyta þurfi öllu umhverfi samhliða. Öðrum kosti verði öryggi ekki tryggt. Þegar komi að tilraunum á tækninni verði sjálfkeyrandi almenningsvagnar fyrsta skrefið.

Framtíðin er í sífelldri mótun. Lifandi borg þarf að taka mið af tíðaranda samtímans og fyrirsjáanlegri framtíð. Fólk biður um nýjar lausnir og borgarumhverfið þarf að bregðast við.

Óhjákvæmilegir vaxtaverkir

Frá árinu 1960 hefur íbúum höfuðborgarsvæðisins fjölgað um 125%. Mannfjöldaspár gera ráð fyrir 70.000 manna fjölgun á næstu 20 árum. Auknum fólksfjölda fylgja óhjákvæmir vaxtaverkir – bær sem verður að borg þarf að undirgangast breytingar.

Samgöngukerfið er eitt þeirra opinberu kerfa sem verður fyrir hvað mestum áhrifum af fólksfjölgun. Sá samgönguvandi sem þekkist á höfuðborgarsvæðinu mun einungis vaxa taki áherslur ekki breytingum. Um þetta var meðvitund þegar samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins var undirritaður. Hann boðar byltingu í samgöngum svæðisins og leggur drög að hófstilltum samgöngukerfum sem hæfa metnaðarfullri borg. Hann byggir á sanngjörnu samspili bifreiða, reiðhjóla og Borgarlínu sem saman munu vinna að skynsamlegri lausn samgönguvandans. Hann tekur mið af tíðaranda samtímans og þróun annarra vestrænna borga.

Rétt eins og tekið var mið af alþjóðlegri þróun þegar bílaborgin var mótuð – þarf nú að taka mið af tíðaranda samtímans þegar framtíðarborgin verður mótuð. Nálægar borgir færa sig nú úr bílamiðuðuð skipulagi yfir í fjölbreyttari valkosti – því fólk kallar á sveigjanleika. Við þurfum að skapa fjölbreytta borg fyrir fjölbreytt fólk. Frjálst samfélag sem eftirlætur einstaklingum ákvarðanir um eigin hagi. Nútímalega framtíðarborg með aðlaðandi framtíðarsýn. Borg fyrir alla.

Latest posts by Hildur Björnsdóttir (see all)

Hildur Björnsdóttir skrifar

Hildur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Hún hóf að skrifa á Deigluna í september 2010.