Lög og regla

Lýðræðið er alveg hreint ótrúlega viðkæmt fyrirbæri og oft á tíðum misskilið svo ólíkindum sætir. Það stendur i raun og fellur með framkvæmd þess í þeim skilningi að það á sér ekki sjálfstæða tilveru, það er til fyrir tilstilli þeirra sem ætla sér að viðhafa þetta fyrirkomulag við að stjórna samfélagi.

Frjálsar kosningar eru nauðsynlegur þáttur í lýðræðinu en langt í frá nægjanlegur. Frjálsar kosningar hafa enga þýðingu án frjálsra fjölmiðla, óvilhallra dómstóla og fyrirfram samþykktra reglna, sem settar eru af lýðræðislega kjörnum fulltrúum, innan ramma stjórnskipulega leikreglna sem settar hafa verið með gildum hætti.

Og lýðræði er annað og meira en kosningar. Það má segja að kosningar séu skýrasta birtingarmynd lýðræðisins en allt það sem máli skiptir gerist þeirra á milli og það er sjálf framkvæmdin. Þar er lýðræðið kannski veikast og viðkvæmast.

Á undanförnum áratug hefur sú hugmynd grafið um sig á Íslandi að stjórnmálamenn séu slæmir en embættismenn og það sem kallað er faglega skipaðar nefndir séu góðar. Þar sé fólk sem taki faglegar ákvarðanir án þess að hagsmunir hafi þar áhrif á. Fyrir utan hvað þessa hugmynd er víðáttuvitlaus þá er hún stórhættuleg.

Hún er vitlaus að því leytinu til að embættismenn og fólk sem situr í nefndum er af holdi og blóði, hefur skoðanir, tengsl, hagsmuni og allt þar fram eftir götunum. Hún er hættuleg að því að leyti að hún slítur í sundur vald og ábyrgð. Hugmyndin gengur út á að valdið liggi hjá aðilum sem enga ábyrgð bera en ábyrgðin hjá þeim sem engin raunveruleg völd hafa.

En kannski er það versta við þessa grasserandi hugmyndafræði að hún grefur undan lýðræðinu. Samhengið milli þess sem gerist í kosningum og þeirra á milli rofnar. Lýðræðið hættir þannig að virka og hættir því að skipta máli. Þá tekur eitthvað annað við, eins og sagan sýnir.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.