Ísbjarnarblús

Í vikunni bárust af því fréttir að ísbirnir, eða hvítabirnir sem er bæði eldra og fallegra orð á íslensku, yrðu útdauðir í lok aldarinnar vegna bráðnunar íss á norðurskautinu. Í stríðum straumi heimsendaspádóma er stundum erfitt að greina kjarnann frá hisminu, erfitt að átta sig á því hverju á að trúa, hverju á að taka með fyrirvara og hvað það er sem ber að taka alvarlega.

Hlýnun jarðar er samt staðreynd og það er nægilega margt sem bendir til þess að athafnir mannskepnunnar eigi þar hlut að máli til að við gaumgæfum málið. Hvort sem heimsendir er í nánd eða ekki, þá er engin ástæða til að ganga ekki betur um auðlindir jarðar, stilla neyslunni í hóf og spilla ekki umhverfinu.

En það er þó ekki þannig að yfirvofandi heimsendir vegna hlýnunar jarðar geri það að verkum að allt sem okkur dettur í hug til að afstýra sé endilega skynsamlegt. Rafbílavæðing er forvitnilegur þáttur í þessari viðspyrnu. Engum blöðum er um það að fletta að bílafloti heimsins brennir fáránlegu magni af bensíni og olíu við það að koma fólki á milli staða. Rafmagnsbílar menga auðvitað sem slíkir ekkert í líkingu við bíla með sprengihreyfla.

En rafmagn í bílana dettur ekki af himnum ofan – ja, nema kannski á Íslandi. Rafmagnsframleiðsla í flestum öðrum ríkjum er ekkert sérsaklega umhverfisvæn. Í Svíþjóð til að mynda þyrfti að brenna það mikið að kolum til að skaffa bílaflotanum rafmagn að ávinningur hvað varðar losun koltvísýrlings yrði svo að segja enginn. Í Þýskalandi er líklegt að ávinningurinn yrði neikvæður, þ.e.a.s. rafmagnsframleiðslan yrði að fara fram með kolum sem myndi þýða meiri losun CO2 en bruni bensín- og díselhákana á hraðbrautum og í borgun landsins. Í Kína yrði þessi jafna hrein katóstrófa, eins og flestir geta ímyndað sér.

Lausnin er þannig ekki að skipta jarðefnaeldsneytisknúnum bifreiðum út fyrir rafmagnsknúnar. Lausnin hlýtur að felast í því að keyra minna, eiga færri bíla. Á sama hátt og lausnin felst ekki í því að flokka ruslið heldur að draga úr neyslunni. Við þekkjum öll fólkið með allar flokkunartunnurnar sem á svo fataskápa fulla af fötum, ferðast um allan heim, kaupir allt sem langar í en fer svo að sofa með góða samvisku út af þessum 6 flokkunartunnum í eldhúsinu.

Því miður er þessi loftslagsblús leikinn á fölskum tónunum hjá flestum. Það breytir engu hvað við flokkum ruslið mikið eða kaupum okkur marga rafmagnsbíla, ekkert af því mun bjarga ísbjörnunum. Þetta hlýtur á endanum að snúast um neysluna, hvað við þurfum mikið, hvað við notum mikið. Undanfarnir mánuðir, þessir svokölluðu fordæmalausu tímar, hafa líklega opnað augu margra fyrir þessum einföldu röksemdum.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.