Hrognin eru að koma

Þegar ég var í 10. bekk í Brekkubæjarskóla bauðst mér í kringum páskana vinna í Heimaskaga. Fyrr þann vetur hafði ég farið með afa heitnum og hitt Gylfa Guðfinnsson verkstjóra út af sumarvinnu í Heimaskaga og fékk ég góð fyrirheit hjá verkstjóranum. Þegar hann svo hringdi fyrir páska og spurði hvort ég klár í næturvinnu næstu vikuna eða svo, þá stökk ég auðvitað til. Það var loðnuvertíð og til stóð að frysta hrogn fyrir Japansmarkað.

Mitt verkefni þessar nætur var ekki svo flókið en verkstjórinn gerði manni það engu að síður ljóst að maður var mikilvægur hlekkur í keðju verðmætasköpunar fyrirtækisins. Skipin væru að koma eitt af öðru drekkhlaðin loðnu sem komin væri að hrygningu. Í slíku ástandi veiðist loðnan aðeins skamma hríð á hverri vertíð og þannig háttaði til á loðnuvertíðinni 1991 að hún var þarna komin á miðin skammt frá Akranesi.

Loðnan sem slík er ekki ýkja verðmæt, eða var það ekki þá í það minnsta. Mestan part fór í hún bræðslu í Síldarverksmiðjunni og eitthvað fór í mjöl. En þegar kom að hrognunum þá var allt annað uppi á teningunum. Hrognin voru eftirsótt munaðarvara, einkum í Japan, og verðmæt eftir því. Hafa þurfti hraðar hendur við hrognatökuna eftir að löndun og síðan þurfti að koma hrognunum í frystingu eins fljótt og verða mátti.

Ég hafði þann starfa að moka hrognum með lítilli snjómoksturskóflu úr fiskikari ofan í pappaöskjur sem síðan var raðað í pönnur og sendar upp á aðra hæð frystihússins til hraðfrystingar. Þetta þurfti að ganga fumlaust, helst þannig að maður næði að fylla eina öskju, hvorki meira né minna, með einni skóflu. Stúlkurnar stóðu gegn manni við færibandið og gengu frá öskjunum í pönnunar.

Í Heimaskaga var hreinlæti í hávegum haft og vinnubrögðin voru um margt faglegri en þá þekktust, enda var Gylfi heitinn langt á undan sinni samtíð. Óhætt er að fullyrða að menn eins og hann hafi átt stærstan þátt í að margfalda virði sjávarafurða, þrátt fyrir mun minni veiði upp úr 1990. Sífellt var verið að leita nýrra leiða til að nýta hráefnið betur, tryggja gæði þess og meðhöndlun til að auka verðmætið.

Eina nóttina þarna á loðnuvaktinni var okkur sagt að nú þyrfti allt að vera á hreinu, enn meira en vanalega, vegna þess að Japanirnir væru væntanlegir. Skömmu síðar gengu í salinn ábúðarfullir austrænir menn í plastsloppum og með hárnet, þeir fylgdust með störfum okkar um stund og tóku síðan handfylli af hráum hrognum úr karinu og stungu upp í sig. Þetta var þeirra gæðaeftirlit, engir staðlar eða gagnkvæm viðurkenning.

Á síðustu 30 árum hefur orðið auðvitað orðið enn meiri framþróun í íslenskum sjávarútvegi og fiskvinnslu. Auðvitað á kvótakerfið sinn þátt í því en það má ekki gleyma því að það er metnaður einstakra manna og kvenna á hverjum tíma sem gerir gæfumuninn.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.