Hin íslenska hringferð: Deyjandi list

Það sem fyrir einum virðist óhagganlegur veruleiki sem stendur tímans tönn, er fyrir öðrum bara þróun úr einu í annað. Fyrir einhverjum hefur e.t.v. orðið sú þróun að ferðalög um Ísland séu að verða óáhugaverðari og leiðinlegri. Vegasjoppur voru á árum áður einstakar, hver og ein hafði sín séreinkenni og menn áttu jafnvel sína uppáhaldssjoppu. Sumir stoppuðu í Ferstiklu en aðrir í Botnsskála, einhverjir stoppuðu í Staðarskála og aðrir á Blönudósi. Í dag fæst bara sami béarnaise-borgarinn, á sömu N1 stöðinni, með sömu gráu gólfflísunum og sama kaffimálinu alls staðar. Fyrir mér er þetta hins vegar óhagganlegur veruleiki – svona hefur þetta alltaf verið.

Þú verður að athuga það nefnilega, kæri lesandi, að ég er ekki fæddur fyrr en 1998. Ég man ekki þá tíð er N1 hét bara Esso. Ég kom aldrei inn í Ferstiklu, enda eru Hvalfjarðargöngin eldri en ég. Ég get ekki upplifað hina ósviknu, alíslensku stemningu að ferðast um landið eins og það var gert í gömlu góðu dagana, ekki nema bara í gegnum frásagnir þeirra sem eldri eru. Ætli ég sé ekki af þeirri kynslóð sem kom á eftir síðustu móhíkönum íslenskrar hringferðarstemningar. 

Ég er nú samt heppinn, að því leytinu til, að ég var alinn upp við viðstöðulausar útilegur þegar ég var krakki. Mamma mín, sér í lagi, kenndi mér að kunna að meta góða útilegu og vonast ég til að geta alið slíkt hið sama upp í mínum börnum seinna meir. Enda var það einmitt amma sem ól það upp í mömmu minni. Amma er eins og gangandi örnefnaskrá. Hún þekkir alla firði, dali, fjöll og skóga á öllu landinu og lít ég mikið upp til hennar. Frásagnir þeirra mæðgna, ömmu og mömmu, kveikja oft í mér eldmóð um að ferðast meira um Ísland. Það er deyjandi list að ferðast innanlands eins og það var gert í gömlu góðu dagana – ekki með Nocco í annarri og sushi-bakka af N1 í hinni.

Ég hef varla verið eldri en sjö eða átta ára þegar ég smakkaði fyrst Rommkúlur heima hjá ömmu. Þvílíkur viðbjóður! Ég sem hélt ég væri svo heppinn að hafa fundið bingókúlur í skál til að stelast í. En allt kom fyrir ekki. Rommkúlunum var spýtt út jafnhratt og ég tróð þeim upp í mig. Það hefur oft verið sagt að ýmis sælgæti muni deyja með gamla fólkinu. Ég þekki t.d. engan á mínum aldri sem finnst Nóa konfekt gott – hvað þá Rommkúlur. Ég sæi hins vegar á eftir þeirri hefð að bjóða upp á sígilt og íslenskt Nóa konfekt eða Rommkúlur, á sama hátt og ég sé á eftir alvöru íslenskri hringferðarstemningu, þrátt fyrir að hafa ekki einu sinni upplifað hana sjálfur.

Annað sem er deyjandi list eru pistla- og greinaskrif. Sífellt færri skrifa orðið pistla sem þennan, a.m.k. þeir sem eru nálægt mér í aldri. Þeir einu sem skrifa orðið pistla í blöð, til að mynda, eru stjórnmálamenn. Heilu síðurnar í Mogganum og Fréttablaðinu eru undirlagðar einhverju ráðherra-bloggi um nýjustu frumvörpin á Alþingi, alþjóðlegan dag votlendisverndunar eða eitthvað annað misáhugavert. Ætli ég sé þá í hópi síðustu móhíkana hversdagslegra pistlaskrifa á Íslandi? Vonandi ekki.

Ég mun a.m.k halda áfram að skrifa pistla og hvet aðra til að gera það. Ég ætla líka að ferðast um Ísland í sumar eins og það var gert í gömlu góðu dagana. Á tímum heimsfaraldurs verða fáir aðrir en Íslendingar á öllum helstu ferðamannastöðum og verður því auðvelt að fara í þykjustuleik og ímynda sér að árið sé 1981. Sinalco í annarri og ein með öllu í hinni, ekki Nocco og sushi. Hver veit nema nokkrir pistlar verði skrifaðir á leiðinni og hver veit nema það muni leynast rommkúlur í hanskahólfinu?

Latest posts by Oddur Þórðarson (see all)

Oddur Þórðarson skrifar

Oddur hóf að skrifa á Deigluna í maí 2020.