Lífs og liðnir flýja Reykjavíkurborg

Forstjóri Kirkjugarða Reykjavíkurprófastdæma ræddi við Morgunvaktina á RÚV 10. ágúst síðastliðinn, tilefni viðtalsins var slæmt ástand fjölmargra minningarmerkja í kirkjugörðum í Reykjavík. Það var hins vegar annað sem vakti athygli mína í máli forstjórans, ummæli hans um að pláss væru að verða uppurin í kirkjugörðum í Reykjavík – þau væru hreinlega að klárast.

Það væru einhver laus pláss í Gufuneskirkjugarði, mögulega í þrjú til fjögur ár í viðbót. Eftir það væru engin pláss fyrir nýjar grafir í Reykjavík. Að þeim tíma liðnum þyrfti því að finna höfuðborgarbúum stað til hinstu hvílu í Kópavogi.

Forstjóri Kirkjugarðanna benti á að það hefði dregist hjá borgaryfirvöldum að undirbúa kirkjugarð. Hann hefði reynt að vekja á þessu athygli en ekki hlotið hljómgrunn; „ekkert bólaði á því að þetta væri komið í þann framkvæmdahraða sem þarf.“ Meirihlutanum í Reykjavík ætti því að vera fullkunnugt um vöntun á nýjum grafarsvæðum.

Undanfarin ár hafa fjölmargir Reykvíkingar flúið höfuðborgina í leit að betri tækifærum – nægjanlega stóru húsnæði, lægra útsvari og dagvistunarplássi fyrir sjálfsræðisaldur afkvæma sinna. Nú stefnir í það að látnir Reykvíkingar muni fylgja á eftir.

Það er ekki eitt, það er allt þegar kemur að „afrekaskrá“ núverandi borgarstjórnarmeirihluta. Og nú er sumsé endanlega staðfest að vanhæfni og getuleysi borgarstjórnarmeirihlutans nær út yfir gröf og dauða, í orðsins fyllstu merkingu.

Latest posts by Diljá Mist Einarsdóttir (see all)

Diljá Mist Einarsdóttir skrifar

Diljá hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2006.