Að hugsa sig út úr atvinnuleysi

Ég fæ sting í magann í hvert sinn sem ég les um fjöldauppsagnir hjá fyrirtækjum þessa dagana. Þá hugsa ég til þeirra sem þurfa að fara heim og segja maka og fjölskyldu frá því að nú sé afkoman í uppnámi og algjör óvissa um framtíðarhorfur. Atvinnumissir er þungt áfall og þessum tímamótum tengjast alls konar tilfinningar sem okkur finnst ekki gott að upplifa, reiði, sorg, kvíði, ótti og jafnvel sjálfsvorkunn. Þótt þjóðfélagsástandið sé eins og það er og fjöldauppsagnir óhjákvæmilegar þá fyrir hvern og einn er þetta höfnun sem gefur tilefni til endurskoðunar. Af hverju ég en ekki hinn? Var ég ekki að standa skil á mínu? Hefur allt mitt framlag verið einskis metið? Er ég á rangri braut?

Allar þessar tilfinningar verða að fá að flæða fram og nauðsynlegt að vinna með þær hverja og eina. Tímabundið. Það getur verið gott að fara í svolitla sjálfsskoðun og endurmat í kjölfar atvinnumissis. Sjálfsniðurrif og störukeppni við baksýnisspegilinn er hins vegar algjört eitur og það er beiskja og ásökun út í allt og alla líka.

„Shit happens,” segja æðrulausir Ameríkanar þegar ógæfan dynur yfir. Og já, þetta er í sjálfu sér ekkert mikið flóknara en það. Vinnustaðir eru utan heimilis þeir staðir sem við verjum mestum tíma á. Verkefnin eru á okkar ábyrgð og með tímanum verður hlutverk hvers og eins, rétt eins og vinnustaðarmenningin, hluti af sjálfsmyndinni. Dæmi. Ég er flugmaður, einkennisbúningurinn er tákn þess sem ég er, þetta er minn lífsstíll og Icelandair er mitt annað heimili. Eða ég vinn hjá Kaupþingi og ég hugsa öðruvísi en annað fólk, það heitir „Kaupthinking.”

Auðvitað er gott þegar fólki líður vel á vinnustað og tengir sterkt við hann. Það er til merkis um vel heppaðan vinnustað, að minnsta kosti hvað starfsfólkið varðar. Mörg fyrirtæki ýta undir svoleiðis hugsunarhátt þegar allt er í lukkunnar vel standi. Vinnustaðir eru samt aldrei annað heimili, ígildi fjölskyldu eða sjálfsmyndin öll. Þegar allt kemur til alls þá byggir sambandið á framboði og eftirspurn. Allar aðstæður þurfa að vinna með báðum til að sambandið virki. Við getum sjálf kvatt og þá situr vinnuveitandi jafnvel uppi með svekkelsið. Svo koma upp þær aðstæður að vinnuveitandi þarf að haga seglum eftir vindi, hversu ósanngjarnt og ömurlegt sem það kann að vera.

Ég hef sjálfur misst vinnu í þrígang. Ég hef líka sagt upp vinnu. Í þau skipti sem ég missti vinnuna var um að ræða erfiðan rekstur og fjöldauppsagnir. Ég upplifði allt sem ég hef lýst að ofan en ég verð að segja að ég varð stöðugt flinkari að hugsa mig út úr stöðunni í hvert sinn. Mig langar að deila því með ykkur í von um að það verði einhverjum gagns.
Þegar ég áttaði mig betur á þessu einfalda og viðkvæma eðli ráðningarsambanda létti það mikið á mér. Allt hefur sinn tíma og enginn er svo aumur að aðeins einn og sami vinnustaðurinn henti viðkomandi alla starfsævina. Það er enginn skuldbundinn til að hafa mann í vinnu, rétt eins og ég myndi ekki vilja framselja allt ævistarfið í hendur eins vinnuveitanda. Ekkert starf er alveg öruggt. Meira að segja Harry og Meghan gátu hætt í bresku konungsfjölskyldunni, rétt eins og Játvarður 8. og Wallis Simpson voru í reynd rekin úr henni. Það er ekki að ástæðulausu sem fjölskyldan kallar konungsveldið sín á milli „The Firm”.

Við búum öll yfir mismunandi áhugamálum og hæfileikar okkar spanna vítt svið. Sem betur fer. Við fóstrum öll gamla drauma sem enn hafa ekki ræst. Nú er tækifærið að huga að þeim. Eftir annan atvinnumissinn fékk ég tækifæri til að setjast aftur á skólabekk og hefja meistaranám samhliða nýja starfinu mínu. Það hefði ekki verið hægt á gamla vinnustaðnum. Og af því að ég hafði misst vinnuna vissi ég betur en margir hversu dýrmætt það er að starfsferilskráin kveiki í atvinnurekendum og þar skiptir góð menntun og fjölbreytt starfsreynsla miklu máli.

Þegar mér var sagt upp í þriðja sinn á öðrum vinnustað var úrvinnslutímabilið mjög stutt. Ég vissi að vinnustaðurinn var í vandræðum, ekkert hefði ég getað gert þar betur og verkefnið væri nú aðeins eitt. Að finna nýja vinnu. Ég talaði strax við alla vini mína sem ég mat mest, fór á allar ráðningarþjónustur sem buðu fram aðstoð og sótti um allt sem mér fannst koma til greina. Aldrei að sitja og bíða eftir að einhver komi hlaupandi til bjargar. Þetta tekur tíma og verkefnið er alfarið á okkar ábyrgð. Ég stundaði útivist og sótti í uppbyggjandi afþreyingu eins og að fara í svett og kyrrðarflot. Það opnaði hugann og var styrkjandi. Samtölin við vini mína gáfu mér betri mynd af sjálfum mér en ég hefði nokkru sinni getað hugsað sjálfur. Hvert starf sem ég sótti um og fékk ekki vissi ég að myndi þoka mér áfram í átt að hinu rétta. Ég áttaði mig á að ég var alls ekki einn um að lenda í þessari stöðu, eins og algengt er að hugsa þegar áföll verða. Kær vinur minn sem er leikari benti mér til dæmis á að honum er hafnað um alls konar verkefni sem honum finnst öll vera draumaverkefnin í hverjum einasta mánuði!

Þá kveikti ég á perunni með að ég valdi sjálfur að vinna í sveiflukenndum geirum og að sækja mér menntun sem veitir engin eiginleg starfsréttindi, sem hefði verið áhættuminni kostur. Sem sagt mitt val og mín áhætta. Gott að taka loks ábyrgð á því. Ég skyldi um leið að næsta starf þarf ekki heldur að vera ævistarfið heldur varða á lengri leið. Ástæðulaust að ofhugsa hlutina því það má alltaf breyta til. Það er heldur ekkert sem segir að maður þurfi að vera alla tíð launþegi, það er alltaf sá kostur til staðar að hefja eigin rekstur.

Helsta hindrunin í leitinni að nýjum starfsvettvangi er okkar eigin þankagangur. Við setjum upp alls konar tálma í hausnum á okkur og þá kemur sjálfsniðurrifið, sem ég nefndi í upphafi að væri algjört eitur. Fólk setur til dæmis aldurinn fyrir sig, að það sé of gamalt til að geta lært eitthvað nýtt. Þetta er kjaftæði. Þegar ég var í stjórnmálafræðinni á sínum tíma sat á skólabekk með mér sjötugur maður og glaðari og fúsari námsmann hef ég aldrei hitt. Annað atriði er misskilið stolt. Starfsævin þarf ekki að vera línulegt ferli upp á við út frá sama upphafspunkti alla tíð. Hún má vera alls konar. Eitt útilokar ekki annað eða strikar yfir það sem þegar hefur verið unnið. Fólk sem hefur farið í háskólanám má söðla um og bæta við sig iðnnámi og öfugt. Þannig fjölgar eggjunum í körfunni sem er dýrmætt þegar skóinn kreppir í atvinnulífinu. Dæmi. Þótt ég verði seint Framsóknarmaður þá ber ég djúpa virðingu fyrir Eygló Harðardóttur fyrrverandi ráðherra. Hér er ástæðan. Eftir ráðherradóm og þingmennsku valdi hún að læra kokkinn af því hún hefur ástríðu fyrir matargerð. Gamaldags hólfahugsunarháttur gerir ekki ráð fyrir þess háttar framvindu. Hún hafði kjarkinn til að velja ástríðuna fremur en að daga uppi, af því hún var eitt sinn ráðherra, sem sálarlaus embættismaður einhvers staðar sem sendir reglulega frá sér greinar í Moggann um hvernig landinu væri betur stjórnað ef hún væri ennþá við stjórnvölinn. Flott hjá henni!

Að takast á við breytingar með opnum huga, að hafa ástríðu og betri skilning á sjálfum sér er leiðin að lífshamingjunni. Að hafa samúð með öðrum og skilning á þeirra stöðu er það líka. Eftir fyrsta atvinnumissinn minn, sem kom í kjölfar bankahrunsins samhliða atvinnumissi eiginmanns míns, fluttum við til Düsseldorf. Þar hafði maðurinn minn fengið vinnu við sitt fag. Ég fór út brattur og hélt að minnsta kosti eitt alþjóðlegt hótel hefði aldeilis áhuga á að fá fyrrverandi sjónvarpsfréttamann frá Íslandi í vinnu í móttökunni. Það reyndist engin eftirspurn eftir manni sem var mellufær í þýsku og rétt áður en við fórum aftur heim nefndi íslenskur vinur okkar þar í borg við mig að hann þekkti mann sem ætti ræstingafyrirtæki og gæti talað við hann. Mér, sem er alinn upp á frystihúsatímanum í Keflavík, var kennt frá blautu barnsbeini að ekkert væri til sem héti að vera of fínn til að vinna. Svoleiðis að ég bað hann að athuga málið. Vinur minn kom til baka með þau skilaboð að viðkomandi atvinnurekandi ætlaði að skoða málið þannig að já, ég fengi „kannski að skúra.” Þar með lauk atvinnuleitinni í Þýskalandi en það var hollt að átta sig á að heimurinn er ekki að bíða eftir mér og það þarf ekki að eiga við nema eina til tvær breytur til að ég fái að deila kjörum með þeim sem minnst bera úr býtum. Kannski.

Þegar ég lít til baka og horfi á samhengi hlutanna þá hefði ég ekki viljað missa af einni einustu uppsögn. Hver og ein kom hreyfingu á líf mitt sem færði mig á betri stað, þær gáfu af sér tækifæri sem ég hefði aldrei þefað uppi annars og opnuðu leið fyrir nýtt fólk inn í líf mitt sem ég hefði ekki viljað fara á mis við. Ávöxturinn er aukinn þroski, ábyrgðartilfinning fyrir eigin örlögum og svolítil viska. Ég stend sem sagt sterkari fyrir vikið en það kom ekki af sjálfu sér. Við verðum að mæta til þess leiks sem blásið hefur verið til. Í því liggur áskorunin. Styrkurinn til þess býr innra með okkur sjálfum.

Latest posts by Guðfinnur Sigurvinsson (see all)

Guðfinnur Sigurvinsson skrifar

Guðfinnur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.