Lærdómur af landsfundi

Hvað sem mönnum kann að finnast um Sjálfstæðisflokkinn, stefnu hans eða forystumenn, þá er landsfundur flokksins merkileg samkoma og einstök í íslenskum stjórnmálum. Á landsfundi birtist stærð flokksins og styrkur hans með allt að þvi áþreifanlegum hætti. Oft hefur landsfundur verið vettvangur mikilla pólitískra sviptinga og yfirleitt vekja sviptingar sem snúast um menn fremur en málaefni meiri athygli fjölmiðla. Landsfundurinn um helgina verður að teljast til þeirra merkilegri á síðustu árum, þótt forystumenn flokksins hafi verið sjálfkjörnir. Hér að neðan er samandreginn lærdómur af nýafstöðnum landsfundi í fimm liðum.

1. Frjálslyndur flokkur

Sjálfstæðisflokkurinn er sérstakur hægriflokkur að því leyti að innan hans starfa íhaldsmenn og frjálslyndir saman, enda varð flokkurinn til með samruna þessara tveggja stjórnmálahreyfinga. Síðustu árin hafa íhaldssmenn verið aðsópsmiklir á landsfundi flokksins og haft mikil áhrif á stefnumótun flokksins. Á landsfundinum um helgina var snúið af þessari braut af miklu afli og ályktanir flokksins flestar hverjar mun frjálslyndari. Ástæðan fyrir þessu er fyrst og fremst sú að frjálslynd öfl innan flokksins fylktu liði og stilltu saman strengi sína. Þessi öfl höfðu þannig tögl og hagldir á fundinum í krafti skipulags og einbeittrar afstöðu í lykilmálum. Með öflugri málafylgju tókst að ná ásættanlegri niðurstöðu í flestum málaflokkum og eftir stendur frjálslyndari flokkur. Einna eftirtektarverðust var sú niðurstaða að skerpa á stefnu flokksins frá síðasta landsfundi þess efns að íslenska krónan í höftum getur ekki verið framtíðargjaldmiðill Íslendinga ef þeir ætla sér að taka þátt í alþjóðlegri samkeppni. Formaður Sjálfstæðisflokkins fer af fundinum með skýr fyrirmæli um að kanna til þrautar upptöku nýrrar myntar sem gjaldgeng er í alþjóðaviðskiptum í stað íslensku krónunnar.

2. Unga fólkið tók völdin

Þetta var fundur unga fólksins í flokknum. Ungir sjálfstæðismenn stilltu saman strengi sína gegndu lykilhlutverki í málafylgju hinna frjálslyndu afla. Framganga þeirra vakti athygli og þeim tókst að vinna marga fundarmenn á sitt á band með vasklegri framgöngu. Raunar voru ekki allir í þessum hópi “ungra” strangt til tekið á tilskildu aldursbili en það breytti ekki því að þessi hópur var samhentur í málafylgju sinni. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið að eldast á síðustu árum og stjórnmálaflokkur sem ekki er rekinn áfram af ungu hugsjónafólki á sér enga framtíð. Fylgishrun flokksins á síðustu mánuðum er fyrst og fremst hjá ungu fólki og þess vegna var það flokknum lífsnauðsyn að ungt fólk léti til sín taka af alvöru á þessum landsfundi. Í raun var það svo að fundurinn var meira og minna í höndum unga fólksins og markar það vonandi vatnaskil í þeirri þróun sem að framan er lýst.

3. Forystan sterkari

Bjarni Benediktsson hefur nú verið formaður flokkins í sex ár. Hann er eini formaður flokksins sem ekki hefur jafnframt verið forsætisráðherra. Bjarni hefur stýrt flokknum í gegnum talsverðan mótbyr og flokkurinn hefur aldrei staðið jafn illa að vígi í skoðanakönnunum yfir svo langt tímabil. Þrátt fyrir þetta hefur staða Bjarna sem formanns verið að styrkjast. Flokkurinn er kominn í ríkisstjórn á ný og þrátt fyrir að fara ekki með forsætisráðuneytið veitir Bjarni ríkisstjórninni forystu í veigamiklum málum. Með landsfundinum nú má segja að Bjarni hafi loks náð þeirri stöðu meðal flokksmanna sem formaður Sjálfstæðisflokksins þarf að hafa til að geta stýrt málum þar innanbúðar af nauðsynlegri festu. Ólöf Nordal kemur á ný inn í forystusveitina sem varaformaður og hlaut hún jafnvel enn betri kosningu en formaðurinn. Ólöf situr ekki á þingi en gera verður ráð fyrir að hún muni verða í forystu sjálfstæðismanna í Reykjavík í næstu þingkosningum. Ólöf mun vafalítið styðja Bjarna á meðan hann situr sem formaður en hitt er eins víst að hún er þess albúin að taka við þegar sá tími kemur.

4. Óvænt en ánæguleg innkoma ungrar konu í embætti ritara

Ein óvæntustu tíðindin á landsfundinum var framboð Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur í embætti ritara sem tilkynnt var um síðdegis á laugardag. Rímaði framboð hennar mjög vel við þá stemmningu sem ríkti meðal unga fólksins á fundinum og um leið yfirlýsing um að ungt fólk og konur krefðust frekari áhrifa. Hafi framboð Áslaugar verið óvænt var jafnvel enn óvæntari sú ákvörðun sem Guðlaugur Þór Þórðarson, fráfarandi ritari, tilkynnti um í beinni útsendingu stuttu eftir að Áslaug hafði greint frá framboði sínu, að hann fagnaði þessu framboði og myndi stíga til hliðar til að hleypa ungu fólki að til áhrifa í flokknum. Guðlaugur sýndi með þessu ekki bara að honum er full alvara með því sem hann hefur lagt áherslu á starfi sínu forystusveit flokksins að auka áhrif unga fólksins, heldur einnig að hann hefur skýrari skilning á pólitík en flestir. Guðlaugur hefði að öllum líkindum haft sigur í kosningu á fundinum en sá sigur hefði verið ósigur í raun, bæði fyrir hann og flokkinn. Með ákvörðun sinni breytti hann stöðunni á augabragði þannig að niðurstaðan varð honum ekki síður hagfelld en Sjálfstæðisflokknum. Þess má geta að á sama tíma á öðrum stað höfnuðu Vinstrigrænir ungri konu í embætti varaformanns og kusu í staðinn Björn Val Gíslason.

5. Lýðræðið virkar

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins er lýðræðishátíð. Þetta kann að hljóma væmið, og erfitt fyrir ýmsa að sætta sig við, en þetta er engu að síður raunin. Í málefnanefndum er unnið með texta sem stefna flokksins byggist á. Allir geta komið á framfæri sínum tillögum og fylgt þeim eftir. Umræður í nefndunum eru oft mjög upplýsandi og menn afla hugmyndum sínum og sjónarmiðum stuðnings meðal þeirra sem sitja fundi nefndanna en þar getur verið um að ræða hundruð manna, eða stærri fundi en landsfundi annarra stjórnmálaflokka. Vert er að nefna hér tvö dæmi af mjög mörgum. Annars vegar var drögum að ályktun um íslensku krónuna kollvarpað í meðförum nefndarinnar og réði þar úrslitum öflug málafylgja frjálslyndra einstaklinga sem sannfærðu þann stóra hóp sem sat í nefndinni um ágæti sinna sjónarmiða, þannig að stuðningur við upptöku nýrrar myntar var að lokum mjög afgerandi í nefndinni. Hitt dæmið er úr starfi velferðarnefndar, þar sem umræður sköpuðust um blóðgjöf samkynhneigðra karlmanna. Til máls tók ungur maður sem spurði einfaldlega af hverju hann ætti ekki að geta gefið blóð af þeirri ástæðu að hann stundaði endaþarmsmök við karlmenn á meðan gagnkynhneigðir vinir hans, sem jafnframt stunduðu endaþarmsmök, mættu gefa blóð. Gátu hinir eldri ekki annað en samsinnt þessari röksemdarfærslu. Mun þetta vera í fyrsta sinn sem sérstaklega er fjallað um hugtakið endaþarmsmök í nefndarstarfi á landsfundi Sjálfstæðisflokksins.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins um helgina var sigur frjálslyndra afla innan flokksins og unga fólksins. Ungt fólk hefur í stórum stíl snúið baki við Sjálfstæðisflokknum á síðustu árum, þrátt fyrir að gildismat og grundvallarafstaða þessara yngri kynslóða eigi samhljóm með frjálslyndum viðhorfum sem stefna Sjálfstæðisflokksins byggir á. Sú gjá sem myndast hefur á síðustu árum milli Sjálfstæðisflokkins og hinna yngri kynslóða verður ekki brúuð á einni nóttu en einhvers staðar þarf að byrja. Fundurinn um helgina var góð byrjun.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.